13. desember 2014 | Innlendar fréttir | 518 orð | 2 myndir

Mikil fjárfesting í ferðaþjónustu skapar áhættu

• Sérfræðingur varar við bakslagi

Sveinn Óskar Sigurðsson
Sveinn Óskar Sigurðsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Gríðarleg fjárfesting í ferðaþjónustufyrirtækjum, einkum nýjum hótelum, getur skapað kerfislæga hættu fyrir íslenska bankakerfið.
Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Gríðarleg fjárfesting í ferðaþjónustufyrirtækjum, einkum nýjum hótelum, getur skapað kerfislæga hættu fyrir íslenska bankakerfið.

Þetta er mat Sveins Óskars Sigurðssonar, viðskiptafræðings og framkvæmdastjóra ráðgjafarfyrirtækisins Amicus, sem telur ekki hægt að útiloka að bakslag í ferðaþjónustu í framtíðinni muni ógna getu ferðaþjónustufyrirtækja til að standa við skuldbindingar sínar. Hann telur ófyrirséð hvernig fjármálastofnanir hyggjast tryggja sig fyrir slíku. „Ef það kemur bakslag eftir fimm til tíu ár eru þessi lán í uppnámi.“

Blaðamaður óskaði upplýsinga um það hjá Seðlabankanum hversu hátt hlutfall útlána bankanna væri bundið við ferðaþjónustufyrirtæki, þar með talið hótel. Svarið var að slíkar upplýsingar væru ekki til.

Dýrt að breyta húsnæði

Sveinn Óskar hefur rannsakað arðsemi af rekstri hótela í Reykjavík og íhugaði hann um tíma að fjárfesta í slíkri uppbyggingu. Niðurstaðan var að það væri ekki hagkvæmt. „Vegna nýrrar byggingarreglugerðar er mjög dýrt að endurhanna skrifstofuhúsnæði í hótel. Vegna hennar þarf að lágmarki hundrað gistirúm til að hótel beri sig, ef ekki hundrað og fimmtíu rúm. Því eru flestir að reisa stór hótel og nær allir að fara í þrjár stjörnur plús. Ferðamálafræðingur sagði mér að hér mundi skorta einnar til tveggja stjörnu hótel. Nýja byggingarreglugerðin getur því ýtt undir að hér myndist offramboð á dýrari hótelum. Til að minnka áhættuna ætti að heimila fleiri gistiheimili og minnka þannig einingarnar,“ segir Sveinn og vísar til skýrslna bankanna þriggja um ferðaþjónustu.

„Allar sögðu þær sömu söguna, að framundan sé nánast óheft fjölgun ferðamanna til landsins. Það er allt gott og blessað nema hvað enginn var á áhyggjuhliðinni. Það var enginn að lýsa því hvað gæti gerst ef það verður ófært til landsins, þótt dæmi sé um það frá árinu 2010 þegar eldgos varð í Eyjafjallajökli.“

Samtök ferðaþjónstunnar hafa lagt fram spá um að fjöldi ferðamanna muni tvöfaldast frá því sem nú er og fara í tvær milljónir árið 2020.

Sveinn Óskar segir breytingar á Reykjavíkurflugvelli, nýja skatta á ferðamenn, erfiðleika í heilbrigðiskerfinu og slæmt ástand vega geta ógnað þessu markmiði. „Innviðirnir eru ekki í stakk búnir til að taka á móti þessum fjölda ferðamanna.“

„Það þarf að fara varlega“

Spurður hvort skort hafi á áhættumat í útlánum til ferðaþjónustufyrirtækja segir Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, að bankinn fari með gát í útlánum til þessa geira. „Ég held að það þurfi að fara varlega og það er það sem við reynum að gera. Við erum til í að lána í verk þar sem við teljum að áhættan sé ekki of mikil. Svo höfum við líka látið mál fara frá okkur sem við teljum að í felist meiri áhætta en við erum tilbúnir að taka.“

Er hugsanlega að skapast kerfisáhætta hjá útlánasöfnum bankanna vegna þessa geira?

„Nei, ég held ekki. Mörg þeirra hótela sem er verið að byggja eru á höfuðborgarsvæðinu. Í versta falli myndu byggingarnar nýtast undir einstaklingsíbúðir eða eitthvað slíkt. Þannig að ég held að það sé alltof dramatískt að tala um mikla kerfisáhættu. En auðvitað þarf að fara varlega og huga vel að þessum málum. Mikill vöxtur getur skapað hættu. Fjárfestingin hefur hins vegar, ef eitthvað er, verið aðeins á eftir vextinum í greininni. En það þarf að fara varlega. Það er málið.“

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.