Gísli Guðmundsson fæddist í Reykjavík 27. desember 1925. Hann lést á Landspítalanum 28. desember 2014.Hann var sonur Ingveldar Ágústu Jónsdóttur frá Stokkseyri, f. 24.8. 1902, d. 2.10. 1997, og Guðmundar Gíslasonar frá Brekkum, f. 14.11. 1898, d. 14.5. 1968. Systir Gísla var Guðrún, f. 3.8 1928, d. 12.5. 2013. Eftirlifandi bróðir Gísla er Jóhann, f. 1936. Gísli kvæntist árið 1951 Huldu Ragnarsdóttur frá Stykkishólmi, f. 13.11. 1925. Foreldar hennar voru: Sólveig Ingvarsdóttir, f. 10.6. 1901, d. 7.6. 1972, og Ragnar Hinrik Einarsson, f. 15.8. 1901, d. 29.9. 1948. Gísli og Hulda eignuðust þrjú börn. 1) Guðmundur, f. 26.6. 1953, bifreiðasmíðameistari. Maki: Margrét Þorvaldsdóttir stuðningsfulltrúi. Börn þeirra a) Gísli, f. 1974. Börn hans: Fannar Daði og Freyja Dögg. b) Linda, f. 1976. Maki: Geir Kristinn Aðalsteinsson. Þeirra börn: Jason Orri, Viktor Ernir, Arnór Elí. c) Fannar, f. 1981, d. 1981. d) Hulda, f. 1982. Maki: Barði Þór Jónsson. Þeirra börn: Bríet Klara og Albert Gísli. 2) Sólveig, f. 3.7. 1955 iðjuþjálfi. Maki Einar I. Einarsson félagsráðgjafi. Börn þeirra a) Berglind, f. 1980. Sambýlismaður: Guðmundur Pedersen. Þeirra börn: Óttar Freyr og Örvar Hrafn. Guðmundur á soninn Þórhall Ísak. b) Hafdís, f. 1981: Sambýlismaður Magnús F. Ólafsson. Þeirra börn: Trausti og Brynja. c) Eygló, f. 1988. 3) Ingveldur, f. 28.11. 1958, leikskólakennari. Maki: Ómar F. Dabney meindýraeyðir. a) Sonur Ingveldar og Hauks Ólasonar, d. 1983: Ívar Hauksson, f. 1982. Maki: Karen Ósk Sampsted. Börn þeirra: Camilla Dís og Emilía Íris. b) Dóttir Ingveldar og Ómars: Anna María, f. 1990. Ómar átti soninn Óla Pál, f. 1978, d. 2011.

Gísli ólst upp í Reykjavík, fyrstu árin við Bergþórugötu og seinna við Brávallagötu. Hann var í sveit á sumrin í Meiri-Tungu, fyrstu árin með móður sinni sem var þar í kaupavinnu og hélt því áfram þegar hann stálpaðist. Hann gekk í Austurbæjarskóla og síðar Ingimarsskóla. Gísli lærði bifreiðasmíði við Iðnskólann í Reykjavík og í Bílasmiðjunni. Hann var með meistararéttindi í bifreiðasmíði og vann alla sína starfsævi við fagið, fyrst við yfirbyggingar í Bílasmiðjunni, síðar við bílaréttingar í Bílaskálanum. Hann var einn af sex stofnendum Bílaskálans 1950 sem hóf rekstur við Kleppsveg en síðar reistu þeir húsnæði á Suðurlandsbraut 6, þar sem hann starfaði til 1992 þar til starfsemi hans var hætt. Gísli og Hulda byrjuðu sinn búskap í Efstasundi 77 árið 1951 og bjuggu þar til 1979, þá festu þau kaup á raðhúsi í Rjúpufelli 1 í Breiðholtinu sem þau bjuggu í til ársins 2005 er þau fluttu að Berjarima í Grafarvogi. Gísli naut þess að ferðast um Ísland og á erlendri grund. Hann hafði unun af því að keyra. Hann og Hulda höfðu gaman af því að dansa og voru virk um margra ára skeið í félagsskapnum „Kátt fólk“ sem kemur saman í þeim tilgangi að dansa. Hann stundaði sundlaugarnar reglulega sér til heilsubótar. Gísli gekk til liðs við Kiwanis-hreyfinguna þegar hann var hættur störfum og var gjaldkeri klúbbsins Hekla um árabil.

Útför Gísla verður gerð frá Grafarvogskirkju í dag, 9. janúar 2014, kl. 13.

Í dag er borinn til grafar tengdafaðir minn Gísli Guðmundsson og langar mig að minnast hans í nokkrum orðum. Hann bjó fyrstu tólf ár æfi sinnar á Bergþórugötu 7, en þar bjuggu foreldrar hans Ingveldur Ágústa Jónsdóttir og Guðmundur Gíslason áður en þau fluttu á Brávallagötuna sem varð þeirra framtíðarheimili. Það er óhjákvæmilegt að horfa til upprunans og minnast Ingveldar í þessum skrifuðu orðum því í mínum huga áttu þau svo margt sameiginlegt, ekki bara útlit og mannelsku, heldur ekki síður hagleik til handverks. Ingveldur var listelsk kona og öll handavinna hennar  ber listfengi hennar fagurt vitni. Hér sannast hið fornkveðna að eplið fellur ekki langt frá eikinni því Gísli var mikill hagleiksmaður í sinni iðn sem var bifreiðasmíði og var hann einn af þeim fyrstu sem fékk löggildingu í þeirri iðngrein.  Faðir hans var bifreiðastjóri alla sína tíð og var meðal þeirra fyrstu sem tók bifreiðastjórapróf í Rangárvallasýslu og sameinaði Gísli á sinni starfsævi listfengi og hagleik móður sinnar og frelsi þess sem getur ferðast á bifreið, enda gerði hann mikið af því, frá vöggu til grafar.

Gísli var hógvær, hávaðalítill, gleðimaður. Hógværðin kom m.a. fram í því að hann tranaði ekki fram sínum skoðunum, eða óskum til eins né neins. Hann bauð upp á sjálfan sig, sitt samstarf, sinn stuðning. Að vera til staðar ef á þyrfti að halda. Ég naut þeirrar gæfu að ganga með honum í rúmlega  fjörutíu ár og allt til hinstu stundar var svarið já ef ég hringdi og bað um aðstoð. Það fór ekki mikið fyrir auglýsingum um eigið ágæti og ekki var passað upp á að allir aðrir vissu af greiðanum, þetta var bara okkar á milli.

Hann var hávaðalítill og kom það m.a. vel fram í skoðanaskiptum. Hann þurfti ekki að sannfæra fólk um  að það hefði á röngu að standa, eða að hann vissi betur, hann lét rökræðurnar hafa sinn gang og að þeim loknum tók hann til sinna ráða. Hvort heldur sem var að lagfæra mistök sem höfðu verið gerð eða njóta gleðinnar að loknu verki.

Hann var gleðimaður í þeim skilningi að það var gaman að vera með honum. Hann gaf öllum pláss til að vera þeir sjálfir og gladdist með glöðum. Hann átti mikinn félagsauð og passaði upp á hann alla sína ævi. Vinir og kunningjar voru margir og það þurfti að hlúa að þeim tengslum t.d. með samkomum í heimahúsum, árshátíðum margvíslegra félagasamtaka, lambaréttakvöldi með Kiwanismönnum og skötuveislunni á Þorláksmessu.

Allt frá því er ég lagði leið mína í Efstasundið í fyrsta sinn var okkur vel til vina. Hann hefði átt svo auðvelt með að finna á mér galla, því það er enginn vandi að finna flís í auga náungans, en eðli sínu og uppeldi samkvæmt var það ekki hans háttur. Hann beið átekta og lét lífið hafa sinn gang.

Ástina, tilhugalíf dótturinnar og loks að bjóða mig velkominn inn á heimilið þegar við Sólveig ákváðum með hálfs mánaðar fyrirvara að gifta okkur. Hann hafði einstakt lag á því að sá fræjum mannúðar sem spíruðu áratugum seinna, þegar ég var í sömu sporum að horfa á eftir mínum dætrum fljúga úr hreiðrinu. Þá var mér sem oftar hugsað til Gísla, hvernig hann tók því sem að höndum bar með ró og yfirvegun, fordómaleysi og þakklæti og beið uppskerunnar.

Það var upplifun að ferðast með Gísla, og í hans tilfelli kom það berlega í ljós að það er ekki áfangastaðurinn sem skiptir máli heldur ferðalagið sjálft. Eða kannski öllu heldur í hans tilfelli, undirbúningur ferðalagsins. Hann notaði allan veturinn til að skoða kortabækur, leiðarlýsingar, tjaldstæðaupplýsingar o.s.frv. fyrir fyrsta tjaldvagnaferðalagið sitt út fyrir landsteinana. Það kom náttúrulega engum að óvörum að hann vildi ferðast akandi og auðvitað vildi hann hafa eigin gistiaðstöðu í eftirdragi. Ég átti eftir að ferðast með honum síðar þótt ekki væri ég með í fyrstu ferðinni og ávalt var undirbúningurinn samur; vandvirkur og yfirgripsmikill.

Þetta átti við á fleiri sviðum: Ég man eftir að hafa verið að vinna grunn undir sprautun á bíl sem við Sólveig eignuðumst og ég var að verða vitlaus vegna áherslunnar sem hann lagði á hversu vel skyldi vanda til undirvinnunnar. Ég leitaði allra ráða til að sannfæra hann (fagmanninn) um að nú væri nóg komið. Hann lét sig ekki og sagði sem satt var að slæleg vinnubrögð á þessu stigi sæjust fyrst þegar lakkið væri komið á en þá væri of seint að bæta um betur.

Í minningunni þá er margt sameiginlegt með þeim mæðginum Gísla og Ingveldi: Efst í huga mér er hve bæði voru þakklát og ánægð með heimsóknir og samveru við ættingja. Bæði tvö áttu þann eiginleika að fagna komu fólks af hreinu hjarta og bæði tvö gáfu gestinum þá tilfinningu að hann færi betri maður af þeirra fundi. Þegar ég lít til baka þá finn ég að margt hef ég lært af Gísla, sem ég ætla að muna og hafa í heiðri í framtíðinni.

Það verður einkennilegt að hætta að tala um að fara til Huldu og Gísla, svo samrýmd og óaðskiljanleg hafa þau verið í mínum huga frá fyrstu stundu. Sennilega hætti ég því ekki, því auðvitað verður hann áfram stór þáttur í lífinu okkar og arfleifðin hans, óáþreifanleg, sem mölur og rið fá ekki grandað, lifir með okkur. Vissulega er engin ástæða til að hætta góðum sið.

Gakk þú í friði kæri vin inn í land ljóssins.

Ég lít í anda liðna tíð,
er leynt í hjarta geymi.
Sú ljúfa minning létt og hljótt
hún læðist til mín dag og nótt,
svo aldrei, aldrei gleymi &
(Halla Eyjólfsdóttir.)

Einar I. Einarsson.