Rögnvaldur Þór Rögnvaldsson fæddist í Reykjavík 14. mars 1930. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Ísafold 20. janúar 2015.

Foreldrar hans voru hjónin Rögnvaldur Jónsson, f. 30. október 1902 í Berghyl í Holtssókn, Skagafirði, d. 30. ágúst 1947, og Finnrós Guðmundsdóttir, f. 24. september 1904 á Hellissandi, d. 5. september 1987. Voru þau búsett á Bergstaðastræti 54. Systkini Rögnvaldar eru Kristín, f. 1925, Óðinn, f. 1928, Heimir, f. 1931, d. 5.7. 2013, Rafn, f. 1933, d. 1934, og Valgeir Rafn, f. 1943.

Eftirlifandi eiginkona Rögnvaldar er Ásta Sigurbjörg Guðjónsdóttir, f. 1.8. 1929. Þau giftu sig 15.12. 1949. Foreldrar hennar voru Guðjón Jónsson, f. 1899, d. 1966, og Rannveig Eyjólfsdóttir, f. 1896, d. 1982, búsett í Hlíðardal í Vestmannaeyjum.

Börn Rögnvaldar og Ástu eru: 1) Guðjón Ragnar Rögnvaldsson, f. 1950, kvæntur Ragnheiði Einarsdóttur, f. 1954. Þau eiga 4 börn og 7 barnabörn. 2) Bryndís Rögnvaldsdóttir, f. 1952, gift Unnari Guðmundssyni, f. 1947. Þau eiga 4 börn og 8 barnabörn. 3) Hörður Þór Rögnvaldsson, f. 1955, kvæntur Sigrúnu Gísladóttur, f. 1957. Þau eiga 3 börn og 15 barnabörn. Áður átti Hörður 2 börn með Svanborgu Óskarsdóttur. 4) Hallgrímur Rögnvaldsson, f. 1959, kvæntur Weni Zeng, f. 1971. Þau eiga einn son. Áður var Hallgrímur kvæntur Helgu Sævarsdóttur Vattnes og eiga þau saman 3 börn og 8 barnabörn. 5) Rannveig Rögnvaldsdóttir, f. 1964, gift Halldóri Halldórssyni, f. 1963. Þau eiga 3 börn og 2 barnabörn.

Rögnvaldur og Ásta eignuðust stóran afkomendahóp en börnin urðu 5, barnabörnin 20 og barnabarnabörnin eru orðin 36 alls.

Áhugamál Rögnvaldar var fjölskyldan. Hann hafði einnig mikinn áhuga á ljósmyndun, bílum og húsbyggingum. Þau hjónin höfðu gaman af ferðalögum og nutu þess að ferðast bæði innanlands og utan.

Sem unglingur vann hann við það sem til féll, seldi blöð, var sendill í bakaríi og fór svo að læra prentiðn en varð að hætta vegna ofnæmis. Hann missti föður sinn á unglingsaldri og fjölskyldan varð að standa saman í lífsbaráttunni.

Rögnvaldur og Ásta stofnuðu heimili að Framnesvegi 34 í Reykjavík. Þau fluttu til Vestmannaeyja 1951 og hófu að byggja einbýlishús að Brimhólabraut 23. Þangað flytja þau svo 1953 og bjuggu þar fram að eldgosinu 1973. Hjónin fluttu í Hafnarfjörð 1973 og settust síðan að í Garðabæ 1979. Rögnvaldur starfaði hjá Rafmagnsveitu Reykjavíkur og þegar hann flutti til Eyja fékk hann vinnu hjá Vinnslustöð Vestmannaeyja og síðan hjá Olíusamlagi Vestmannaeyja sem bifreiðarstjóri. Hann fór síðan út í sjálfstæðan rekstur og gerði út vörubíl hjá Bifreiðastöð Vestmannaeyja og setti upp fiskbúð ásamt konu sinni sem þau ráku fram að gosi. Hann starfaði við Vörubílastöð Hafnarfjarðar og síðan hjá Álverinu í Straumsvík fram að starfslokum.

Útför Rögnvaldar fer fram frá Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 6. febrúar 2015, kl. 13.

Það er komið að kveðjustund, kæri pabbi. Nú hefur þú kvatt þennan heim eftir mikil veikindi.

Pabbi var farsæll í lífi og starfi. Hans mesta gæfuspor í einkalífinu var þegar hann tók þá ákvörðun að skella sér á dansleik í Keflavík, þá 17 ára gamall. Þar kynntist hann Eyjastelpunni Ástu Sigurbjörgu Guðjónsdóttur, sem síðan varð eiginkona hans. Eyjastelpan hafði lagt land undir fót frá Eyjum til þess að fara á þennan sama dansleik með vinkonum sínum. Þetta varð síðan byrjun á farsælu hjónabandi sem byggðist á ást, vináttu og trausti. Þau hófu sinn fyrsta búskap á Framnesvegi 34 í Reykjavík. Pabbi hóf þá störf hjá Rafveitu Reykjavíkur en síðan lágu leiðir þeirra til Vestmannaeyja árið 1951 og bjuggu í Bergholti á Vestmannabraut 63 meðan þau voru að byggja einbýlishús á Brimhólabraut 23 í Eyjum. Þótt pabbi hafi verið borgarbarn undi hann sér vel í Eyjum. Hann hóf störf hjá Vinnslustöðinni og síðan réð hann sig sem bílstjóra hjá Olíusamlagi Vestmannaeyja. Síðan ákveður hann að fara að starfa sjálfstætt og keypti sér vörubíl og setti upp fiskbúð. Mönnum þótti það mikil bjartsýni að reka fiskbúð í stærstu verstöð landsins, en mamma og pabbi voru alveg sannfærð um að Eyjamenn tækju þessari verslun þeirra vel sem þeir og gerðu. Það var ekki nóg með að sjá Eyjamönnum fyrir fiski, heldur var hann brautryðjandi í útflutningi á ferskum flatfiski með flugi til Grænlands árið 1964. Mamma og pabbi ráku fiskbúðina fram að eldgosinu 1973. Í gosinu flutt þau upp á land og fékk pabbi vinnu hjá Vörubílastöð Hafnarfjarðar. Síðasta starf hans var síðan í álverinu í Straumsvík þar sem hann starfaði til 67 ára aldurs.

Pabbi var mikill fjölskyldumaður og var hvetjandi fyrir okkur systkinin þegar við uxum úr grasi og við fórum að taka stærri ákvarðanir. Það var gott að hafa slíkt bakland. Hann var líka mikill afi og var alltaf jafnánægður þegar hann vissi að fleiri greinar væru að koma á ættartréð og barnabörnum og barnabarnabörnum fjölgaði. Þrátt fyrir að hafa unnið til 67 ára aldurs veiktist pabbi þegar hann var 62 ára og glímdi við veikindi upp frá því. Hann tók því með æðruleysi og ákvað að skila sínu ævistarfi fram að löggildingunni, 67 ára aldrinum. Mamma og pabbi höfðu mjög gaman af að ferðast, hvort sem það var innanlands eða utan, og fengum við systkinin yfirleitt að fljóta með í ferðunum innanlands. Þær voru líka ófáar ferðirnar sem þau hjónakornin fóru í hjólhýsið á Laugarvatni.

Pabbi var reglumaður alla tíð og var einstakt snyrtimenni svo eftir var tekið og þrátt fyrir veikindin varð engin breyting þar á.

Okkur Ragnheiði langar með þessum fátæklegu orðum að þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir okkur hjónin og fjölskylduna á lífsleiðinni. Mamma hefur misst mikið og erfitt er að kveðja lífsförunautinn eftir 65 ára farsælt hjónaband og munum við hlúa að henni og styrkja á þessum erfiðu tímum.

Hafðu þökk fyrir allt og allt. Hvíl þú í friði.

Þinn sonur,

Guðjón Ragnar.

Nú er komið að kveðjustund elsku afi minn. Þú barðist við erfið veikindi fram á síðasta dag en stóðst þig eins og hetja og barst þig vel. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að hafa þig hjá okkur í öll þessi ár og þakka fyrir samvistirnar í gegnum árin. Nú eru þær orðnar að dýrmætum minningum.

Í lok nóvember síðastliðins varst þú orðinn mjög veikur en vildir samt koma í heimsókn til okkar Gumma, þar sem við vorum tiltölulega nýflutt í nýja íbúð, og mun ég aldrei gleyma þeirri heimsókn. Elsku afi minn, það er gott að þú hefur fengið hvíldina og megir þú hvíla í friði.

Ást og kærleikur,

Elísa Guðjónsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku besti afi minn.
Ég vil þakka þér fyrir allar stundirnar sem við áttum saman.
Ég elska þig og mun sakna þín þar til við hittumst aftur.
Að ferðalokum finn ég þig
sem mér fagnar höndum tveim.
Ég er kominn heim,
já, ég er kominn heim.
(Jón Sigurðsson)
Þín
Ásta Sigríður.