28. febrúar 2015 | Innlendar fréttir | 584 orð | 1 mynd

Sterk viðbrögð lesenda en almennt jákvæð við því að Morgunblaðinu í gær var snúið við

„Þetta er nú meiri vitleysan í ykkur“

Snúið við Morgunblaðið í gær var óhefðbundið, með baksíðuna á forsíðunni og forsíðuna á baksíðunni.
Snúið við Morgunblaðið í gær var óhefðbundið, með baksíðuna á forsíðunni og forsíðuna á baksíðunni. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Viðbrögð lesenda Morgunblaðsins við „öfuga blaðinu“ í gær voru nokkuð sterk. Almennt voru þau jákvæð og skemmtilegar umræður sköpuðust á samfélagsmiðlum.
Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Viðbrögð lesenda Morgunblaðsins við „öfuga blaðinu“ í gær voru nokkuð sterk. Almennt voru þau jákvæð og skemmtilegar umræður sköpuðust á samfélagsmiðlum.

„Þetta er nú meiri vitleysan í ykkur,“ sagði ein kona sem hringdi til blaðsins í gær, og síðan skellti hún á. María Lilja Moritz Viðarsdóttir, þjónustustjóri Árvakurs, segir lesendur almennt hafa haft gaman af þessu og fundist uppátækið skondið.

„Annars finnum við það glögglega að fólk er íhaldssamt og vill fá Moggann sinn réttan í fyrramálið [í dag]. Einn vildi að við lofuðum að gera þetta ekki aftur og annar sagðist lesa blaðið frá a til ö en ekki frá ö til a,“ segir María og hlær.

Eins og fram kom í blaðinu í gær var þetta gert í tilefni þess að nýtt happdrætti er hafið meðal áskrifenda. 22. apríl nk. verður Toyota Corolla-bifreið dregin úr potti með nöfnum áskrifenda blaðsins. Um samstarfsverkefni Morgunblaðsins og Toyota á Íslandi er að ræða en bílaumboðið fagnar því á þessu ári að 50 ár eru liðin síðan fyrsta Toyotan var flutt til landsins.

Með breytingunni á blaðinu í gær var einnig verið að höfða til gamals vana margra lesenda frá því að baksíða Morgunblaðsins var forsíða innlendra frétta og erlendar fréttir voru á forsíðunni.

Forseti Alþingis fór óöruggur inn í daginn

Einar K. Guðfinnsson, forseti Alþingis, ritaði á Facebook-vefinn sinn í gærmorgun og birti mynd af forsíðu blaðsins, sem jafnan er baksíðan: „Allt er í heiminum hverfult, sagði skáldið Jónas. En nú gerðist það sem ég átti síst von á. Mogginn minn, sem ég hef lesið frá því ég fór að geta kveðið að, birtist mér umsnúinn í morgun; baksíðan komin á forsíðuna og forsíðan á baksíðuna. Mér finnst ég fara hálf óöruggur inn í daginn. – Að vísu einn kostur við þetta allt saman. Vísnahornið hans Halldórs Blöndal, eitt allra besta efni blaðsins, birtist framar í blaðinu.“

Í kjölfar þessarar færslu komu mörg fjörug ummæli, sem sjá má brot af hér til hliðar. En hvort sem það er „öfuga“ Mogganum um að kenna eða ekki, þá var hlegið hátt í þingsölum í gær þegar Einar kynnti Eyglóu Harðardóttur sem „Valgerði Bjarnadóttur, hæstvirtan félags- og húsnæðismálaráðherra“. „Forseti fór línuvillt,“ sagði Einar og gerði létt grín að öllu saman.

Ummæli fólks á Facebook

Heimasætunni fannst þetta stórsnjallt, enda blaðið til heiðurs henni og hennar líkum. Gaman að þessu.

Jakob Falur Garðarsson Dásamleg hugmynd sem gladdi mig í morgunsárið.

Rúnar Helgi Vignisson Fletti Mogganum ýmist afturábak eða áfram. Var sáttur við uppsetninguna í morgun, fannst samt smá skrítið, og áttaði mig ekki fyrr en ég sá fylgimiðann.

Tryggvi Pétursson Bara svo gay for a day þetta blað.

Guðrún Ögmundsdóttir Þetta ruglar mig nú alveg í ríminu því ég er nefnilega vön að byrja á baksíðunni því þá kem ég fyrr að dánartilkynningunum. Er það ekki týpískt fyrir minn aldur?

Stella Ingvarsdóttir Gott hjá Moggamönnum að vekja landsmenn til vitundar um það hversu stöðugleikinn er mikilvægur.

Sturla Böðvarsson Verður þá að lesa hann eins og skrattinn biblíuna?

Jóhann Rögnvaldsson Ef þetta væri nú það eina sem er öfugsnúið í Mogganum.

Eiríkur Rögnvaldsson Það munaði engu að ég læsi Moggann á hvolfi í morgun til þess eins að geta haldið vana mínum við lestur blaðsins. Svona uppsetning blaðsins er ekki salernisvæn fyrir menn sem bundnir eru í viðjum vanans.

Jón Sigurðsson Miklu betri Moggi.

Kristján B. Jónasson

Af hverju er forsíðan ekki á síðu 1? Finnst þeir klikka á því.

Guðmundur Stefán Maríasson

Hinsegin dagar hjá Mogganum. En Leiðarinn var á sínum stað.

Sveinn Óskar Sigurðsson

Fletta í leitarniðurstöðum

Aðgangsupplýsingar

Notandi:Þú ert ekki innskráð(ur).
Greinin: Þessi grein er ókeypis þar sem hún er eldri en þriggja ára.
Morgunblaðið - fyrsta forsíðan

Morgunblaðið hjá Landsbókasafni

Á vefnum timarit.is er að finna stafrænt safn Landsbókasafns yfir helstu dagblöð og tímarit landsins. Þetta er eina leiðin til að leita að efni úr Morgunblaðinu frá því fyrir 1986.