Farsímar Ef talaðar mínútur í farsímum og heimasímum eru lagðar saman er hlutur farsímans 66% hérlendis skv. nýjum samanburði milli þjóða.
Farsímar Ef talaðar mínútur í farsímum og heimasímum eru lagðar saman er hlutur farsímans 66% hérlendis skv. nýjum samanburði milli þjóða. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ingvar Smári Birgisson isb@mbl.is Íslendingar eru með flestar háhraðanetteningar miðað við höfðatölu fyrir auglýstan niðurhalshraða, 30 megabæt á sekúndu eða meira á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum.

Ingvar Smári Birgisson

isb@mbl.is

Íslendingar eru með flestar háhraðanetteningar miðað við höfðatölu fyrir auglýstan niðurhalshraða, 30 megabæt á sekúndu eða meira á Norðurlöndum og í Eystrasaltsríkjunum. Þá eru Íslendingar einnig fastheldnastir íbúa á samanburðarsvæðinu á heimasíma.

Þetta kemur fram í skýrslu sem Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) og systurstofnanir hennar á Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjunum hafa tekið saman um þróun helstu þátta fjarskiptaþjónustu undanfarin ár.

Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, telur eina skýringu á mikilli heimasímanotkun Íslendinga vera hagkvæmt verð á heimasímum miðað við önnur lönd í OECD. Þó fari heimasímanotkun minnkandi í öllum samanburðarríkjunum. Hrafnkell telur að yngri kynslóðin noti síður heimasíma, þó að það hafi ekki verið rannsakað neitt sérstaklega.

Hlutur farsímans 66%

Með minnkandi heimasímanotkun eykst vegur farsímans. Ef talaðar mínútur í farsímum og heimasímum eru lagðar saman er hlutur farsímans 66% hérlendis. Til samanburðar má nefna að í Finnlandi er hlutur farsímans 94%. Af samanburðarríkjunum standa Svíar okkur næstir þar sem hlutur farsímans er 70% hjá þeim.

Sjónvarpsstreymi yfir internetið (IPTV), eins og sjónvarp Símans og Vodafone, er mun vinsælla á Íslandi en í samanburðarríkjunum, en 26 af hverjum 100 Íslendingum eru með svonefnda IPTV-áskrift. Helsta skýringin á því er sú að á Íslandi er ekkert kapalsjónvarpskerfi. Hrafnkell telur þetta stafa af því að hvorki kapalsjónvarp né gervitunglasjónvarp hafi verið til staðar í jafn miklum mæli á Íslandi og í samanburðarríkjunum.

Á eftir í gagnanotkun farsíma

Skýrslan sýnir mikla aukningu í gagnanotkun á farnetum í öllum löndunum. Þegar eingöngu er litið til norrænu landanna fimm þá eru Íslendingar með næstminnstu gagnanotkunina í farnetum. Hrafnkell segir það líklega vegna þess að hin norrænu löndin hafi snemma hafið uppbyggingu 3G/4G-farsímanetskerfa og eru því komin lengra í þróun markaðarins. „Ég held að það sé ekkert endilega þannig að við munum ekki ná þeim. Við erum einfaldlega á vegferð sem þau eru búin að fara á undan okkur,“ segir Hrafnkell.

Ísland hefur einnig fæstar áskriftir í farnetum miðað við höfðatölu á Norðurlöndum. Þar eru Finnar langefstir. Síðustu ár hefur verið mikil fjölgun hjá löndunum öllum í áskriftum á farneti, en frá árinu 2012 hafa þær nokkurn veginn stöðvast og fjöldinn staðið í stað. Finnland er með rúmlega 1,7 farnetsáskriftir á mann á meðan Ísland hefur um 1,25.