[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.
Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, segir að Bankasýslan hafi ekki komið að ákvarðanatöku Landsbankans, hvað varðar staðsetningu og byggingu nýrra höfuðstöðva bankans, enda sé slík ákvörðun á forræði bankaráðsins, lögum samkvæmt. Bankasýsla ríkisins fer með 98% hlut ríkisins í bankanum.

Bókfært virði Landsbankans er 146 milljarðar króna og er eignarhluti ríkisins í bankanum langstærsta einstaka eign ríkissjóðs, eða um 12% af heildareignum ríkissjóðs.

Jón Gunnar sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að mikilvægt væri að hafa í huga lagabókstafinn.

Bankaráðið með æðstu stjórn

„Hlutafélagalögin segja að stjórn fyrirtækis fari með æðstu stjórn þess. Þannig fer bankaráð Landsbankans með æðstu stjórn bankans. Það er því innan ákvörðunarsviðs bankaráðsins að taka þessa ákvörðun. Þetta er ekki ákvörðun sem er borin undir hluthafafund,“ sagði Jón Gunnar.

Hann kveðst sjálfur hafa viljað að aðrir möguleikar hvað staðarval nýrra höfuðstöðva Landsbankans varðar hefðu verið skoðaðir, t.d. möguleikinn á því að flytja þær yfir í Tollhúsið við Tryggvagötu, en þeim möguleika hafi tollstjóri hafnað og því hafi sá möguleiki ekki verið kannaður nánar. Hann kveðst persónulega vera því fylgjandi að höfuðstöðvar Landsbankans séu í miðborg Reykjavíkur.

„Við verðum að treysta því að bankaráðið telji að fjármunum bankans sé best varið í þessar framkvæmdir. Ég hins vegar óttast að kostnaður geti farið fram úr áætlun, verkefnið geti tafist og að það taki of mikinn tíma frá stjórnendum bankans. Þess vegna munum við þurfa að sannreyna fullyrðingar bankans um hagkvæmni þessarar ákvörðunar,“ segir Jón.

Bankaráðið gefi hluthöfum skýrslur

Jón Gunnar segir að þar sem Bankasýsla ríkisins fari með 98% hlut í Landsbankanum muni stofnunin geta kallað eftir því að bankaráðið gefi hluthöfum skýrslur um framvindu framkvæmda með reglulegu millibili, en gert er ráð fyrir því í kostnaðaráætlun Landsbankans, að nýjar höfuðstöðvar bankans muni kosta um átta milljarða króna.

„Við munum fylgjast mjög náið með því að framkvæmdin verði innan kostnaðaráætlunar,“ segir Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslu ríkisins, jafnframt.