[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Monica Zetterlund Tribute, Nordic Dialogues og Tríó Kekko Fornarelli. Silfurbergs- og Norðurljósasalir Hörpu. 12.8. 2015.

Frumsýning á mynd Jóns Karls Helgasonar og félaga um Tómas R. Einarsson var glæsilegur inngangur að Jazzhátíð Reykjavíkur. Latínbóndinn heitir myndin og gerist jafnt í Dölunum og Havana. Frábær frásagnargáfa bassabóndans var oft áhrifarík. Daginn eftir hófst hátíðin með skrúðgöngu í kjallara Hörpu þar sem veðurguðirnir voru í of mögnuðum sveifluham þann daginn fyrir djasslistamenn. Um kvöldið voru svo fimm tónleikar í Hörpu. Tvennir voru útgáfutónleikar og verða diskarnir væntanlega kynntir í baðinu seinna, en átta útgáfutónleikar verða á hátíðinni.

Fyrri tónleikarnir í Norðurljósum voru helgaðir einni fremstu djasssöngkonu Norðurlanda, Monicu Zetterlund, sem forðum heimsótti okkur í félagsskap Péturs Östlunds. Hún er nú í miklu dálæti víða um heim eftir fræga kvikmynd, Monica Z , þar sem sænsk-íslenska söngkonan Edda Magnason fór með hlutverk hennar. Í Hörpu var það íslenska söngkonan Stína Ágústsdóttir, Svílandsbúi, sem var í aðalhlutverki með fínni hrynsveit: Önnu Grétu Sigurðardóttur píanista, Leo Lindberg bassaleikara og Eric Qvick trommara. Stína er skemmtileg söngkona og gerði rétt í því að reyna ekki að vera Monica heldur söng með sinni sterku djassklúbbarödd og hóf leikinn á „Come Rain or Come Shine“ og í kjölfarið fylgdi „Jeg vet en dejlig rosa“. Þessi lög eru hvorutveggja á frægri skífu Monicu og Bill Evans, en þar er ekki að finna lagið sem Billie Holiday gerði að klassík, „What a Little Moonlight Can Do“, hvað þá með sænskum texta: „O, va en liten gumma kan gno.“ Það var ansi skemmtilegt að heyra Stínu syngja þetta og eins og í fyrri lögunum voru sóló Önnu Grétu það sem hæst reis. Hún hefur að sjálfsögðu hlustað á sinn Bill Evans og línur hennar voru vandlega mótaðar og hljómaspilið sterkt og í „másaskininu“ var eins og Red Garland merlaði í húminu. Upp úr miðjum tónleikum varð ég að yfirgefa salinn og missti því af „Monicas Vals“, því í Silfurbergi var finnski saxófónleikarinn Joakim Berghäll að leika með tveimur píanistum, landa sínum Joona Tolvanen og Árna okkar Heiðari Karlssyni. Þegar ég settist voru Joakim og Árni Heiðar í norrænum tvíleik af betri sortinni. Jóakim á barítón og tónninn með rætur í Lars Gullin og Árni Heiðar kraftmikill að vanda með djassinn í annarri og klassíkina í hinni. Leikar áttu eftir að æsast þegar Joona Tolvanen kom á svið og lék með þeim tvímenningum á „tilreitt píanó“, vonandi með leyfi „flygilmeistara Hörpunnar“. Verkið var eftir hann og aldrei tilgerðarlegt eða tilraunakennt tilraunanna vegna. Svo kom enn eitt norrænt ljóðið, frábær melódía eftir Joakim: „Portland.“ Það hefur hann hljóðritað með einum helsta djasspíanista Finna, Seppo Kantonen, en þeir Joona og Árni Heiðar stóðu fyrir sínu.

Í Norðurljósasal kom einnig fram tríó ítalska píanistans Kekko Fornarelli. Þó að hann sé ekki Gaslini, Pieranunzi eða Bollani má fyrr rota en dauðrota. Tónlist hans er mjög lituð klassísku uppeldi þó að hann noti elektróník óhikað. Verkin voru öll eftir hann og flest af nýjustu plötunni, Outrush . Það fyrsta, „The Big Bang Theory“, var mjög í anda EST tríósins, en þar sem Esbjörn var alinn upp í djassklúbbum Svíþjóðar, en Kekko í akademíum Ítalíu, skildi fljótt á milli. Tónlist Kekko er einstaklega lagræn, fegurðin ríkir þar öðru ofar, en verður stundum eintóna þó að kraftmikil sé á köflum. Impressjónisminn ræður ekki ferð heldur frekar hughrif rómantísku stefnunnar og þótt ítalskur sé sver hann sig í ætt norrænna djassmódernista jafnt sem Petrucciani hins franska.

Ekki verður skilið við tónlist hans án þess að geta samspilaranna, trommarans Dario Congedo og bassaleikarans Giorgio Vendola sem átti frábæran spunakafla með boga á undan „Times Go On“, Kekko lýsti áhrifum kvikmynda á sig áður en hann lék verkið „Drawing Motion“ en eitt af lögunum er hreif mig mest var „Like a Driftwood“. Það er enginn meðaljón sem semur slík verk – eða „Room of Mirrors“ af samnefndri skífu.

Vernharður Linnet