Bjarni fæddist í Miðmörk undir Eyjafjöllum 13.10. 1863. Foreldrar hans voru Jón Bjarnason, prestur í Skarðsþingum, og k.h., Helga Árnadóttir húsfreyja.

Bjarni fæddist í Miðmörk undir Eyjafjöllum 13.10. 1863. Foreldrar hans voru Jón Bjarnason, prestur í Skarðsþingum, og k.h., Helga Árnadóttir húsfreyja.

Meðal systkina Bjarna voru Magnús Blöndal, prestur í Vallanesi, og Helgi Jónsson, grasafræðingur og kennari við MR og KÍ.

Fyrri kona Bjarna var Guðrún Þorsteinsdóttir en þau skildu og eignuðust þau þrjú börn, en seinni kona hans var Guðlaug Magnúsdóttir og eignuðust þau fimm börn.

Bjarni lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum 1888, cand. mag.-prófi í þýsku og klassískum málum frá Hafnarháskóla 1894 og dvaldi síðan í Þýskalandi um skeið.

Bjarni var stundakennari við Lærða skólann 1895-1904, ritstjóri Ingólfs, blaðs Landvarnarmanna 1903-1904, skipaður viðskiptaráðunautur stjórnarinnar 1909-13, skipaður dósent í latínu og grísku við HÍ 1915 og gegndi því starfi til æviloka.

Bjarni var í hópi þekktustu sjálfstæðismanna á heimastjórnartímabilinu, andstæðingur Uppkastsins, alþingismaður Dalasýslu fyrir Sjálfstæðisflokkinn eldri (Landvarnarflokkinn), Sjálfstæðisflokkinn þversum og Borgaraflokkinn eldri á árunum 1908-26. Hann var bankaráðsmaður Íslandsbanka 1918-26, átti sæti í fullveldisnefnd Alþingis 1917-1918, í sambandslaganefnd 1918 og síðan dansk-íslenskri ráðgjafarnefnd frá 1918 til æviloka.

Bjarni samdi sögur og ljóð og ritaði fjölda greina um bókmenntir, sögu og stjórnmál. Hann þýddi fyrri helminginn af Faust eftir Goethe, var afburða íslenskumaður og nýyrðasmiður og m.a. höfundur nýyrðisins knattspyrna sem öðlaðist þegar viðurkenningu í málinu.

Við Bjarna frá Vogi voru lengi kenndir hollenskir vindlar sem voru framleiddir af Sigarenhandel A. Van Zanten. Vindlategund þessi var flutt til Íslands og voru vindlarnir seldir í Hollandi en fyrst framleiddir í tóbaksverslun í Austurstræti 12 í upphafi 20. aldar.

Bjarni lést 18.7. 1926.