Horft yfir Drullusund og hverasvæðið í Hveragerði. Myndin er tekin 1983.
Horft yfir Drullusund og hverasvæðið í Hveragerði. Myndin er tekin 1983.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Örnefni eru oft óvenjuleg og skemmtileg. Drullusund í Hveragerði er eitt þeirra, nafn á göngustíg sem verið hefur í notkun frá upphafi byggðarinnar, þvert yfir hverasvæðið í miðbænum.

Níu söguskilti hafa verið afhjúpuð í Hveragerði á undanförnum árum, það nýjasta segir frá Drullusundi í miðbænum.

„Þetta er annað af tveimur undarlegustu örnefnum í Hveragerði; hitt var Skrattabæli, hús sem eyðilagðist því miður í jarðskálftanum fyrir nokkrum árum og varð að rífa í kjölfarið,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri.

Drullusund er göngustígur þvert yfir hverasvæðið í miðbænum og tengir miðbæinn og efra þorpið, sem svo er kallað. „Þetta er gömul leið sem hefur alltaf borið þetta nafn. Ég hef búið hér í bænum síðan ég var lítil og þetta er þekkt örnefni. Allir þekkja Drullusundið,“ segir Aldís.

„Við höfum verið með í gangi verkefni í áratug, setjum upp eitt söguskilti við markverðan stað á hverju ári og höfum gefið út götukort sem gefur fólki tækifæri til að fara á milli skiltanna og fræðast um sögu Hveragerðis. Sveitarfélagið er ekki gamalt, verður 70 ára á næsta ári, og þótt mörg önnur sveitarfélög séu miklu eldri státum við af skemmtilegri sögu. Gestir bæjarins og jafnvel ekki íbúar sjálfir þekkja þó ekki söguna nema einhver segi þeim hana. Við viljum gefa fólki tækifæri til að kynna sér sögu bæjarins, gárungarnir segja reyndar stundum að í sveitarfélaginu, sem er eitt það minnsta að flatarmáli á landinu, geti ekki verið mjög margir merkilegir staðir, en við erum ekki hálfnuð!“

Drullusund liggur milli gatnanna Bláskóga og Hveramerkur. Í upphafi mun Drullusundið aðeins hafa átt við leiðina frá þinghúsinu (Breiðumörk 25) að Ásum (Hveramörk 16) en eftir að byggð fór að myndast vestanmegin við hverasvæðið á fjórða og fimmta áratug síðustu aldar færðist heitið yfir á núverandi göngustíg.

Drullusundið var einkum notað af íbúum til að stytta sér leið á milli þorpshluta, að sögn Aldísar bæjarstjóra, börnum á leið í skóla og húsmæðrum til innkaupa.

„Áður en Drullusundið var hellulagt myndaðist á gönguleiðinni, einkum í vætu, drullusvað og af því dregur stígurinn nafn sitt. Heppilegasti fótabúnaðurinn var þá gúmmístígvél, sem áttu það til að festast í leðjunni svo erfitt gat reynst að komast þurrum fótum yfir,“ skrifaði á sínum tíma Gunnar Benediktsson, rithöfundur og hreppsnefndarmaður, þegar hann lýsti ástandi samgöngumála í Hveragerði um miðja öldina. Gunnar segir svo frá að eftir að fjölskyldan flutti í Skáldagötu, þar sem nú heita Frumskógar, var þar „enn ekki vottur af götu að öðru leyti en því, að húsalínur voru að nokkru leyti beinar í gegnum þrælþýfðan móa, þá var ekki hægt að fara með litlu dótturina niður í þorp nema með mikilli fyrirhöfn. Það þurfti tvo til að starta því fyrirtæki, þar sem annar þurfti að annast barnið, en hinn að skondrast með vagninn, þar til komið var á breiðstræti hverasvæðisins.“