Þorsteinn Hjartarson
Þorsteinn Hjartarson
Eftir Þorstein Hjartarson: "Í Ontario eru skólarnir þeir bestu í heimi. Námsárangur hefur batnað mikið og virðing er borin fyrir starfi kennara sem eru hafðir með í ráðum."

Að undanförnu hefur Sveitarfélagið Árborg verið að styrkja faglega umgjörð leik- og grunnskóla. Vendipunktar í þeirri vinnu eru ný skólastefna frá árinu 2013, stofnun nýrrar skólaþjónustu, stjórnendanámskeið, áhugasamir starfsmenn og foreldrar. Aldrei er þó nóg að breyta formi eða gefa út nýja skólastefnu. Stöðugt þarf að huga að framkvæmdinni og stuðningi við skólastarfið. Styrkja þarf þær aðstæður sem nemendur og kennarar búa við í hverjum skóla og leggja áherslu á árangur á öllum sviðum. Í þeirri viðleitni er mikilvægt að huga að samskiptum og líðan bæði nemenda og kennara. Einnig þarf að styrkja tengsl sem flestra í skólasamfélaginu og þar skiptir þátttaka foreldra miklu máli.

Fyrirmyndir sóttar til Ontario

Í umbótavinnu sinni hafa leikskólar, grunnskólar og skólaþjónusta í Árborg sótt fyrirmyndir til Ontario í Kanada. Þar eru skólarnir orðnir þeir bestu í heimi og árlega fá þeir heimsóknir kennara og stjórnenda víða að sem vilja kynnast starfi þeirra. Á árunum 2003-2012 hefur námsárangur í lestri, ritun og stærðfræði batnað um 15% í 4000 grunnskólum fylkisins. Eitt af því sem hefur stuðlað að þessum góða árangri er að skólarnir einbeita sér að fáum markmiðum og áhersla er lögð á virðingu gagnvart starfi kennara og þeir hafðir með í ráðum þegar áherslur eru lagðar. Leitast er við að efla kennara í starfi, bæði út frá þeirra eigin óskum, þörfum nemenda og skólastefnu Ontario. Litið er á kennslu sem sameiginlegt viðfangsefni og samstarf kennara, skólastjórnenda og kennsluráðgjafa hefur aukist mikið frá árinu 2003, ekki einungis innan hvers skóla heldur einnig milli skóla. Kennarar miðla upplýsingum sín á milli um það hvernig nemendur þeirra ná árangri og þeir skólar sem ná ekki eins miklum árangri fá sérstakan stuðning sem fylgt er eftir. Sá stuðningur kemur ekki einungis frá skólaþjónustu heldur einnig frá öðrum skólum, bæði til kennara og skólastjórnenda. Samkeppni milli skólanna er á undanhaldi en þess í stað er lögð rækt við sameiginlega ábyrgð á börnunum í Ontario. Skólastjóri sem nær góðum árangri deilir aðferðum sínum til annarra skólastjórnenda, það er í takt við þá samstarfshugsun sem lögð er til grundvallar. Það er ekki allt fullkomið í Ontario en þær miklu og árangursríku breytingar sem unnið hefur verið að á stuttum tíma hafa vakið mikla athygli.

Þróun skólastarfs í Árborg

Hugmyndafræðilegur grunnur Ontario í skólamálum á rætur sínar að rekja til hugmynda sem nefndar eru lærdómssamfélagið (professional learning community) og í Sveitarfélaginu Árborg leggjum við rækt við vinnubrögð í þeim anda. Það kemur meðal annars fram í sterkari tengslum milli aðila skólasamfélagsins sem birtist í fjölbreytilegu faglegu samstarfi þvert á skóla og skólastig, svo sem í kringum vinnu með mál og læsi. Nokkrir samstarfshópar eru starfræktir og þar gefst tækifæri til faglegrar samræðu og upplýsingamiðlunar sem byggist á gagnkvæmu trausti og virðingu þátttakenda sem koma einkum úr hópi kennara, stjórnenda og frá skólaþjónustu. Samstarfsandinn hefur verið að eflast að undanförnu, til að mynda hafa foreldrasamtökin Samborg verið stofnuð en það er samstarfsvettvangur foreldrafélaga grunnskóla í Árborg. Samtökin eru þegar farin að láta til sín taka á ýmsum sviðum og hafa þau staðið fyrir fjölmennum fræðslufundum fyrir alla foreldra með góðum stuðningi frá skólunum. Síðstliðið vor sóttu grunnskólarnir í sveitarfélaginu og skólaþjónustan saman um styrk í Erasmus+ og fengu hann. Nú í haust hefur samstarfshópum skóla fjölgað enn frekar og hátt í 20 kennarar, skólastjórnendur og skólaþjónustustarfsmenn vinna nú að faglegum undirbúningi vegna náms- og kynnisferða til útlanda í tengslum við Erasmus-verkefnið. Því er ætlað að efla starfsnám í grunnskólum, spjaldtölvur í námi og kennslu og faglegar áherslur í anda lærdómssamfélagsins. Þátttakendur munu taka að sér stórt hlutverk í að miðla þekkingu til annarra í sveitarfélaginu og vonandi einnig til skólafólks utan Árborgar. Slík nálgun er í góðu samræmi við áðurnefndar áherslur í Ontario. Við eigum þó margt eftir ólært um lærdómssamfélagið en teljum að með vinnu í anda þess, símenntun og faglegu samstarfi séum við að stefna í rétta átt. Að lokum varpa ég fram þeirri spurningu hvort menntamálayfirvöld hér á landi ættu ekki einmitt að leggja meiri rækt við vinnubrögð í anda lærdómssamfélagsins þar sem allir helstu aðilar skólamála, svo sem kennarar, foreldrar og háskólafólk, eru kallaðir enn meira að borðinu þegar styrkja á þjónustu og stjórnsýslu á sviði menntamála.

Rit sem höfð voru við höndina við greinarskrifin:

Fullan (2012). What America Can Learn From Ontario´s Education Success.

Edda Kjartansdóttir. Bestu skólarnir í Ontario (2012) af kritin.is

Hargreaves og Fullan (2012). Professional Capital.

Höfundur er fræðslustjóri hjá Sveitarfélaginu Árborg.