Sparnaður á kostnað almannaöryggis getur á endanum reynst dýrkeyptur

Niðurskurður innan lögreglunnar á síðustu árum hefur verið talsverður, og er nú svo komið, að setja verður spurningarmerki við það, hvort hún geti sinnt sínu nauðsynlega hlutverki. Nýjasta dæmið um þennan niðurskurð er aksturskvótarnir, sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur sett á lögreglubílana sína, en nú hefur þurft að takmarka enn frekar þann akstur sem heimill er á hverjum bíl á sólarhring og var akstursheimildin þó ekki ýkja mikil fyrir.

Í frétt Morgunblaðsins um málið kom fram að uppsafnaður niðurskurður frá árinu 2007 næmi nú tæpum sjö milljörðum króna. Þá hefur starfsmönnum fækkað um 82 á sama tíma.

Þessi óheillaþróun á sér stað á sama tíma og hlutverk lögreglunnar hefur víkkað út. Bráðnauðsynlegt er að lögregla á hverjum tíma geti tekist á við þær kröfur sem gerðar eru til hennar. Til þess að svo megi vera verða stjórnvöld að sjá til þess að lögreglan búi yfir nægu fjármagni, nægum mannskap og viðeigandi tækjabúnaði til þess að hún geti sinnt störfum sínum. Því er ekki að heilsa nú.

Frumskylda ríkisvaldsins er að sjá til þess að öryggi borgaranna sé ætíð tryggt. Þegar rökrætt er á Alþingi um fjárveitingar ríkisvaldsins er eðlilegt og nauðsynlegt að gætt sé fyllsta aðhalds. Það má þó ekki hafa í för með sér að ríkið geti ekki sinnt þessari frumskyldu sinni með fullnægjandi hætti. Þingmenn verða að hafa hugfast, að sparnaður á þessu sviði getur reynst dýrkeyptur til lengri tíma litið.