Eyrún Anna Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík 28. apríl 1960. Hún lést á krabbameinsdeild Landspítalans við Hringbraut 7. nóvember 2015.

Foreldrar Eyrúnar voru Gunnar Magnús Jónsson, f. á Vopnafirði 5. júlí 1933, d. 19. september 1989, og Margrét Einarsdóttir, f. í Reykjavík 13. ágúst 1934, d. 31. maí 2006.

Alsystkin Eyrúnar eru Ásta Margrét Gunnarsdóttir, f. 1955, Jóna Björk Gunnarsdóttir, f. 1956, og Valdís Regína Gunnarsdóttir, f. 1958, d. 8. desember 2013. Sammæðra bróðir er Trausti Már Kristjánsson, f. 1967. Samfeðra systkin eru Einar Gunnarsson, f. 1951, Gunnar Magnús Gunnarsson, f. 1952, Þorbjörg Jóhanna Gunnarsdóttir, f. 1961, Björn Ragnar Gunnarsson, f. 1963, og Tryggvi Þór Gunnarsson, f. 1965.

Eyrún eignaðist tvo syni, Davíð Arnar Baldursson, f. 1987, sambýliskona hans er Jenný Hildur Ómarsdóttir, f. 1989, og Brynjar Darra Baldursson, f. 1993, sambýliskona hans er Heiðdís Rún Guðmundsdóttir, f. 1992.

Eyrún ólst upp í Reykjavík og gekk í Austurbæjarskóla. Hún flutti ung að heiman og hóf að vinna fyrir sér. Lengst af starfaði hún sem gjaldkeri hjá Iðnaðarbankanum sem síðar varð að Íslandsbanka. Einnig starfaði hún á Hrafnistu í Hafnarfirði.

Útför Eyrúnar verður gerð frá Vídalínskirkju í dag, 19. nóvember 2015, og hefst athöfnin kl. 13.

Elsku mamma. Það er erfitt að hugsa til þess að þú sért ekki lengur hér. Í raun óraunverulegt. Bara það að fá að heyra hláturinn þinn gæfi okkur bræðrunum mikið á þessari stundu. Þér fannst fátt skemmtilegra en eimmitt það – að hlæja. Helst í góðra vina hópi. Sama hvernig staðan var. Ákveðin, hjartahlý, kappsöm og vandvirk eru líklega orðin sem lýsa þér hvað best. Þú varst best. Þannig viljum við minnast þín að eilífu. Við elskum þig endalaust. Hvíldu í friði, elsku mamma.

Vertu

á meðan þú ert

því það er of seint

þegar þú ert farinn.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Strákarnir þínir,

Davíð og Darri.

Sumir hverfa fljótt úr heimi hér

skrítið stundum hvernig lífið er,

eftir sitja margar minningar

þakklæti og trú.

Þegar eitthvað virðist þjaka mig

þarf ég bara að sitja og hugsa um þig,

þá er eins og losni úr læðingi

lausnir öllu við.

Þó ég fái ekki að snerta þig

veit ég samt að þú ert hér,

og ég veit að þú munt elska mig

geyma mig og gæta hjá þér.

Og þó ég þurfi nú að kveðja þig

þú virðist alltaf geta huggað mig,

það er eins og þú sért hér hjá mér

og leiðir mig um veg.

Þó ég fái ekki að snerta þig

veit ég samt að þú ert hér,

og ég veit að þú munt elska mig

geyma mig og gæta hjá þér.

Og þegar tími minn á jörðu hér,

liðinn er þá er ég burtu fer,

þá ég veit að þú munt vísa veg

og taka á móti mér.

(Ingibjörg Gunnarsdóttir)

Björgvin Halldórsson

og fjölskylda.

Börnin okkar

eru ljóð sem lifa,

ort af okkur saman,

vitnisburður ástar,

óður til lífsins,

lífs sem við getum kveikt

saman, með Guðs hjálp,

lífs sem heldur áfram

og verður ekki afmáð.

Djúp og varanleg vinátta

er dýrmætari

en veraldlegar viðurkenningar,

og allt heimsins gull og silfur.

Henni þurfa ekki endilega alltaf

að fylgja svo mörg orð

heldur gagnkvæmt traust

og raunveruleg umhyggja.

Kærleikur,

sem ekki yfirgefur.

(Sigurbjörn Þorkelsson.) Baldur.

Réttsýni, hjartahlýja, gleði og hlátrasköll eru það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við minnumst Eyrúnar Önnu Gunnarsdóttur.

Hún birtist okkur sem einstök kona. Vinur vina sinna og mátti ekkert aumt sjá. Hvergi. Hún var nægjusöm, traust, sérstaklega mikill húmoristi og einstakur dýravinur.

Eyrún nennti ekki að hlusta á neitt væl.

Minningarnar um Eyrúnu eru margar. Hlýjar, skemmtilegar og óvenjulegar.

Það var aðdáunarvert að fylgjast með af hve miklu æðruleysi hún tókst á við alvarleg veikindi, staðráðin í að láta ekkert slá sig út af laginu. Með kímnigáfu og þrjósku hélt hún sínu striki og barðist hetjulega allt til enda.

Davíð, Jenný, Darri og Heiðdís; minning yndislegrar móður ykkar og tengdamóður lifir í ykkar gleði. Verðskuldað stolt hennar yfir ykkur leyndi sér aldrei.

Öllum aðstandendum Eyrúnar vottum við okkar dýpstu samúð.

Eyrún, „elsku blóm“. Við erum þakklátir fyrir að hafa kynnst þér og átt þig sem vin. Fengið að hlæja með þér að allri vitleysunni í sjálfum okkur og öðrum. Takk fyrir að hafa þegið boð og notið síðustu áramóta með okkur og dekrað alltaf svona við litla hundinn.

Skilaðu hjartans kveðju frá okkur.

Þín verður sárt saknað.

Þínir vinir,

Jóhann Þór og Ragnar.