[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í NJARÐVÍK Skúli B. Sigurðsson skulibsig@mbl.is Njarðvík og ÍR mættust í Dominos-deild karla í gærkvöldi í Ljónagryfju þeirra Njarðvíkinga.

Í NJARÐVÍK

Skúli B. Sigurðsson

skulibsig@mbl.is

Njarðvík og ÍR mættust í Dominos-deild karla í gærkvöldi í Ljónagryfju þeirra Njarðvíkinga. Þrátt fyrir hetjulega baráttu gestanna urðu þeir að játa sig sigraða að lokum og endaði leikurinn 100:86 Njarðvíkingum í vil eftir að heimamenn höfðu leitt með tveimur stigum í hálfleik, 50:48.

Fyrirfram var ekki búist við miklu af gestunum úr Breiðholti þar sem þeir hafa fengið gríðarlegar rassskellingar í síðustu umferðum. „Þeir sem eitthvað vita um körfubolta vita að þetta var bara slys og mun aldrei gerast aftur,“ sagði Sveinbjörn Claessen, leikmaður ÍR, um síðustu leiki liðsins. Hvort sem um vanmat hjá Njarðvíkingum eða þá spark í rass þeirra ÍR-inga eftir þessa síðustu leiki var að ræða þá hófu þeir leikinn af miklum krafti. Njarðvíkingar fullafslappaðir á upphafsmínútum leiksins. Leikmenn Njarðvíkinga sóru samt af sér allt vanmat þegar undirritaður spurði þá eftir leik og eins og þeir orðuðu það var það sérstaklega rætt fyrir leikinn. ÍR mætti til leiks með nýjan mann í brúnni, Borce Ilievski, sem áður hefur þjálfað í úrvalsdeildinni. Bjarni Magnússon sagði starfi sínu lausu í vikunni og því Borce kominn í þjálfarastólinn. Leikur liðsins má segja að hafi speglast að einhverju leyti í þessum skiptum. Villtur og frekar ráðalaus sóknarleikur þeirra skilaði þeim vissulega 80 stigum en varnarleikurinn tæplega vatnsþéttur. Lið ÍR er prýðilega vel mannað og sérstaklega ef litið er á fyrstu fimm leikmenn þeirra. Njarðvíkingar gerðu í raun bara nóg þetta kvöldið. Sókn þeirra vissulega sterk og enn sterkari með Hauk Helga Pálsson innanborðs sem setti niður 29 stig þetta kvöldið.

Vantar upp á varnarleikinn

Undirritaður hefur gagnrýnt erlendan leikmann þeirra Njarðvíkinga, Marquise Simmons. Hann virðist vera að koma til en enn vantar töluvert upp á leik hans varnarmegin á vellinum. Og það er helst upp á þá Njarðvíkinga að klaga, þ.e.a.s varnarleik þeirra. Þeir geta leyft sér þetta á móti liðum líkt og ÍR en „stærri“ fiskar í tjörninni koma til með að þakka betur fyrir sig ef þeir fá slíkt boð eins og gestir þeirra þetta kvöldið. Eftir leikinn eru Njarðvíkingar í 2. sæti með 10 stig líkt og KR, sem eiga reyndar leik inni. En ÍR er í neðri hlutanum, 10. sæti með 4 stig. „Ég er sáttur með að taka tvö stig hér í dag en við höfum spilað betur en þetta sem við sýndum,“ sagði Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Njarðvíkinga, eftir leik. „Ef ég hefði svar við því hvað við þurftum að gera betur í kvöld til að sigra þá hefðum við tekið sigurinn,“ sagði Sveinbjörn Claessen, leikmaður ÍR.

Njarðvík – ÍR 100:86

Íþróttahúsið í Njarðvík, Dominos-deild karla miðvikudaginn 18. nóvember 2015.

Gangur leiksins : 4:15, 6:15, 14:19, 19:26, 24:26, 33:34, 42:41, 50:46 , 52:49, 59:56, 66:64, 73:66 , 79:68, 87:75, 89:77, 100:86 .

Njarðvík : Haukur Helgi Pálsson 28/7 fráköst, Marquise Simmons 21/11 fráköst, Logi Gunnarsson 19/7 fráköst/5 stoðsendingar, Hjalti Friðriksson 12/5 fráköst/5 stoðsendingar, Ólafur Helgi Jónsson 10/5 fráköst/6 stoðsendingar, Maciej Stanislav Baginski 4, Jón Arnór Sverrisson 3, Adam Eiður Ásgeirsson 3.

Fráköst : 24 í vörn, 11 í sókn.

ÍR: Jonathan Mitchell 27/16 fráköst, Oddur Rúnar Kristjánsson 24/4 fráköst/10 stoðsendingar, Vilhjálmur Theodór Jónsson 18/8 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 13/5 fráköst, Sveinbjörn Claessen 4.

Fráköst : 20 í vörn, 14 í sókn.