— AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðvörunarbjöllurnar byrja ósjálfrátt að hringja þegar flugfélag hreykir sér hátt og snjallt af methagnaði, hækkar arðgreiðslur um fimmtung og segist ætla að kaupa nýjar flugvélar fyrir samtals 3,2 milljarða dala.

Viðvörunarbjöllurnar byrja ósjálfrátt að hringja þegar flugfélag hreykir sér hátt og snjallt af methagnaði, hækkar arðgreiðslur um fimmtung og segist ætla að kaupa nýjar flugvélar fyrir samtals 3,2 milljarða dala. Í fluggeiranum er það vaninn að bæta við flutningsgetuna þegar vel árar en sitja svo uppi með hálftómar vélar þegar þrengir að hjá neytendum, með tilheyrandi tapi. EasyJet heldur því fram að nú hafi þetta gamla mynstur loks verið brotið á bak aftur. Það kann að koma á óvart, en sennilega hefur flugfélagið rétt fyrir sér um þetta fyrir komandi ár.

Byrjum á að skoða eldsneytisverðið. Áhættuvarnir flugfélaganna höfðu dempað ávinninginn af skarpri lækkun á verði eldsneytis, en á móti kemur að ávinningurinn af hagstæðara verði mun koma þeim mun betur fram á þessu fjárhagsári (sem hófst í september). EasyJet er nú þegar búið að læsa inni verðið á 80% af eldsneytiskaupum fjárhagsársins. Flugfélagið væntir þess að eldsneytisreikningurinn lækki um 160 milljón pund, en á síðasta ári nam kostnaðurinn við eldsneytiskaup 1,2 milljörðum dala. Farþegar munu njóta góðs af lækkuninni í formi ódýrari flugmiða, en heilt á litið mun sætaverð hvort eð er halda áfram að lækka ef tekst að viðhalda núverandi nýtingarhlutfalli á flugsætunum. Flugfélagið hefur líka haldið áfram að ná niður öðrum kostnaðarliðum.

Ódýrara eldsneyti hjálpar líka stóru hefðbundnu flugfélögunum, en útlit er fyrir að þau muni áfram fækka ferðum á styttri flugleiðum. Samsetning kostnaðar þeirra, þar á meðal miklar lífeyrisskuldbindingar, veldur því að styttri flugleiðir eru óhagkvæmar. Sum þessara flugfélaga hafa sett á laggirnar sín eigin lággjaldaflugfélög en þau félög eru ekkert sérstaklega burðug. Samanlagður floti Eurowing og Vueling, sem eru í eigu Lufthansa annars vegar og IAG hins vegar, er helmingi minni en flugvélafloti Easy Jet.

Á undanförnum fimm árum hefur gengi hlutabréfa bæði EasyJet og keppinautarins Ryanair hækkað vel umfram FTSE 100-vísitöluna. Þessi hækkun hefur aðallega stafað af vexti í starfseminni, en ekki vegna hækkunar á margföldurum, og gefur það til kynna að markaðurinn sé að taka sér tíma til að gera endanlega upp við sig hvort nú séu raunverulega breyttir tímar. Það gæti verið skynsamlegt. EasyJet er vel stjórnað og agað en árið 2020 er sennilegt að floti félagsins hafi stækkað um 40% frá því sem nú er. En það verða fleiri um hituna, því spár Boeing og Airbus gera ráð fyrir að á næstu 20 árum kaupi evrópsk flugfélög 5.400 nýjar farþegaþotur af minni gerð með einum gangi. Af þeim er einungis helmingnum ætlað að koma í staðinn fyrir eldri vélar. Góðir tímar eru framundan, en þeir vara ekki að eilífu.