Afgreitt Svavarssamningurinn kallaði á 36 milljarða greiðslu á næsta ári.
Afgreitt Svavarssamningurinn kallaði á 36 milljarða greiðslu á næsta ári. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Miklar umræður standa nú yfir á Alþingi um afgreiðslu fjárlagafrumvarps ríkisstjórnar og hafa af því tilefni fjölmargir þingmenn stigið í pontu og tjáð sig um frumvarpið.
Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Miklar umræður standa nú yfir á Alþingi um afgreiðslu fjárlagafrumvarps ríkisstjórnar og hafa af því tilefni fjölmargir þingmenn stigið í pontu og tjáð sig um frumvarpið.

Einn þeirra er Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en síðastliðinn fimmtudag setti hann gerð fjárlaga næsta árs í samhengi við þann veruleika sem Íslendingar stæðu nú frammi fyrir hefði Alþingi þess tíma samþykkt niðurstöðu samninganefndar Íslands, sem leidd var af Svavari Gestssyni sendiherra, í viðræðum við Breta og Hollendinga um Icesave-reikningana árið 2009. En samkvæmt þeirri samningsniðurstöðu hefði fyrsta greiðsla Íslendinga, upp á 36 milljarða króna, átt að greiðast á næsta ári.

„Hver væri staða okkar við fjárlagagerðina núna ef háttvirtur þingmaður Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir, hæstvirtur forsætisráðherra þess tíma, hefðu komið sínum málum í gegn?“ spurði Jón þingheim í ræðu sinni og hélt áfram: „Þetta myndi þýða það að við værum að horfast í augu við að þurfa að greiða 36 milljarða á næsta ári, þ.e. 25 milljarða í afborganir og 11 milljarða í vexti. Síðan kæmu sex ár þar sem við værum að borga sem nemur að jafnaði byggingu eins Landspítala á ári.“

60 til 70 milljarðar kr. árlega

Vitnaði þingmaðurinn því næst í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins um frumvarp til laga um heimild til handa fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að ábyrgjast lán Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta frá breska og hollenska ríkinu til að standa straum af greiðslum til innistæðueigenda hjá Landsbanka Íslands.

Eru þar greiðslur sagðar geta orðið 69,3 milljarðar árið 2017, 66,5 milljarðar 2018, 63,8 milljarðar 2019, 61 milljarður 2020, 58,3 milljarðar 2021, 55,5 milljarðar 2022, 52,8 milljarðar 2023 og loks 26,4 milljarðar árið 2024. „Verði frumvarpið óbreytt að lögum má gera ráð fyrir [...] að greiðslur úr ríkissjóði gætu orðið á bilinu 60 til 70 milljarðar kr. árlega á tímabilinu 2017 til 2023, en helmingur þeirrar upphæðar árin 2016 og 2024,“ segir í áðurnefndri umsögn.

Fyrrverandi ráðherra mótmælti

Ræða Jóns virðist hafa snert nokkuð við Steingrími J., fyrrverandi fjármálaráðherra, því að þegar þingmaðurinn taldi upp boðaðar greiðslur Svavarssamningsins svonefnda greip Steingrímur J. fram í fyrir honum með því að kalla „fjarstæða“ úr þingsal. Jón var fljótur til andsvars og sagði: „Hér segir fyrrverandi fjármálaráðherra „fjarstæða“, en þetta er nú bara tekið upp úr gögnum úr hans eigin frumvarpi sem hann lagði fram á sínum tíma.“

Steingrímur J. Sigfússon, þingmaður Vinstri grænna, veitti ræðu Jóns andsvar og sagði m.a. Jón vera kominn í „þann hóp þingmanna sem engin rök á lengur eftir í sínu vopnabúri önnur en Icesave-grýluna“ og kallaði Jón „smámenni“ í máli sínu.

Steig Jón því næst aftur í ræðustól og sagðist ekki kippa sér upp við orðaval ráðherrans fyrrverandi. „Það hentar höfðingja að tala til smámenna með þeim hætti sem háttvirtur þingmaður gerði en þetta er hans vani og maður kippir sér ekki upp við það,“ sagði Jón.