Gyða Jónasdóttir fæddist 29. apríl 1923. Hún lést 3. desember 2015.

Útför Gyðu fór fram 14. desember 2015.

Fyrstu minningar mínar um Gyðu eru úr lágreistu húsi við Rauðarárstíg. Ég fór að venja þangað komur mínar, sjálf táningsstelpa, til að hitta son hennar, sem ég átti síðar eftir að giftast. Hún tók mér strax vel enda leit hún alltaf á börn og ungt fólk sem jafningja fullorðinna. Sjálf var hún alla tíð ung í anda. Ég man eftir henni dansandi við dúndrandi Bítlatóna í stofunni á Rauðarárstígnum og ég man eftir henni að hvísla því kerskin að mér að hún skyldi skilja eftir opinn gluggann á baðinu svo ég gæti laumast inn til kærastans svo lítið bæri á.

Seinna varð hún Amma-Gyða. En það var samt eins og hún hefði ekkert elst. Hún varðveitti bernskuna betur en aðrir. Ég er afar þakklát því að börnin mín og börnin þeirra fengu að kynnast henni. Þau eiga margar minningar um ömmu og langömmu sem kenndi þeim að aldur er afstæður og að lífið snýst um að skemmta sér dálítið.

Hún var alla tíð harðdugleg. Hún mátti til dæmis ekki heyra á það minnst að taka leigubíl þar sem hún arkaði rígfullorðin upp allar brekkur í steikjandi hita úti á Spáni fyrir nokkrum árum. Enda var hún vön að ganga. Og synda. Og vinna. Langt fram eftir níræðisaldri sá hún t.d. um að þrífa sameignina heima hjá sér. Og þar þvældust stigarnir ekki meira en svo fyrir henni að einu sinni man ég eftir henni að hamast á teppinu á þriðju hæð með ryksuguhausnum á meðan ryksugan ýlfraði með opinn barkann niðri á jarðhæð.

Það var ekki bara ryksugan sem átti erfitt með að fylgja henni eftir. Tíminn átti fullt í fangi með að ná í skottið á henni. Hún var of kvik, fjörug og lífsglöð til að verða gömul að nokkru öðru leyti en því að árunum fjölgaði. Og með árunum fjölgaði afkomendunum. Þeim sinnti hún alltaf vel og hún lagði rækt við fjölskylduna sína.

Í dag höfum við, ástvinir hennar, misst mikið. En hún sá líka til þess að við höfum öðlast mikið. Fyrir það er ég þakklát.

Blessuð sé minning merkrar konu.

Svanhildur Jónsdóttir.

Ég fæddist í Brautarholti þar sem amma Gyða bjó og þess vegna tengdist ég henni meira en gengur og gerist með ömmur almennt. Amma var mér alltaf góð og vildi helst af öllu gefa mér góðgæti fyrstu árin. Snemma fór ég að selja Dagblaðið og Vísi og oftar en ekki heilsaði ég upp á ömmu Gyðu í vinnunni sinni. Það þótti okkur báðum gaman og alltaf tók hún sér pásu þegar ég kom. Amma var alltaf mjög dugleg að vinna og vann við skúringar í aukavinnu. Ég vissi oftast hvar hún var hverju sinni.

Eitt sinn kom ég í Brautarholtið í miklum snjó og ekki var hægt að opna hurðina því þar hefði safnast mikill skafl fyrir utan. Amma rétti mér þá skóflu út um gluggann svo ég gæti mokað hana út. Hún þurfti nefnilega að komast út til að fara í skúringarnar á Flyðrugrandanum. Amma var líka dugleg að fara í sund í Vesturbæjarlaugina og það var ekki leiðinlegt að fara með henni þangað. Þetta eru góðar minningar sem munu lifa um ókomna tíð í mínu hjarta. Amma mín, ég sakna þín.

Ólafs (Óli).

Ég las einhvers staðar að ömmur séu bara fullorðnar smástelpur. Það á svo sannarlega við um þig, elsku amma mín. Það var alltaf fjör í kringum þig. En líka hlýja. Enginn knúsaði fastar og oftar en þú.

Þú kenndir mér örlæti. Ekki aðeins á veraldlega hluti heldur líka á tíma. Ég mun aldrei gleyma því hvernig þú heimtaðir að fá að fara með mig í bæinn til að velja gjafir. Þú vildir ekki heyra á það minnst að slá tvær flugur í einu höggi og fara með okkur systkinin saman. Tvær ferðir skyldu það vera. Ein fyrir hvort okkar. Í þessum ferðum stafaði af þér sömu kátínunni og gleðinni og alltaf.

Að fara með þér í búðir var eins og að fara með forsetanum í opinbera heimsókn. Þú hafðir stóran persónuleika og mikla nærveru. Þegar búið var að velja gjöfina skipaðir þú mér að bíða eftir þér augnablik og af stað fór leikþáttur þar sem þú keyptir gjöfina en ég varð að láta sem ég vissi ekki að þú vissir að ég vissi hvað þú hefðir keypt.

Já, þú kenndir mér að gefa. Auðvitað var litla smástelpan hrifnust af flottum og dýrum hlutum sem þú hikaðir ekki við að kaupa. En þegar þú varst orðin gömul gættir þú þess að ég og börnin mín fengjum frá þér hluti sem þú gerðir sjálf. Þeir eru ófáir útsaumaðir púðarnir eða bangsarnir sem við eigum eftir þig. Þeir hafa ekki alltaf þótt móðins á heimilinu en eru meðal þess dýrmætasta sem við eigum í dag. Þú vissir að sumt er ekki hægt að kaupa í búðum.

Ein gjöf er mér dýrmætust. Ég fékk nafnið þitt. Ég mun gera mitt besta til að standa undir því. Nú er ég Amma-Gyða.

Í hvert sinn sem þú kvaddir mig, hvort sem það var til skemmri eða lengri tíma, var kveðjan sú sama: Guð blessi þig.

Guð blessi þig, elsku amma.

Gyða.

Elsku Gyða, ég hélt að þetta ár gæti ekki orðið verra þar til mér var sagt að þú værir farin. Það tók nokkra tíma þar til ég áttaði mig á því hvað ég hafði heyrt. Mér varð hugsað til þess að ég hafði ekki verið búin að kveðja þig og ég rifjaði upp síðustu stundirnar okkar saman. Það var eitthvað sem ég átti eftir að segja þér og mér fannst ég geta sagt það næst. En ég gleymdi mér og tíminn leið, svo það varð ekkert næst. Orðin þín man ég vel og þau voru falleg og einlæg eins og þú varst. „Guð geymi þig.“ Ég er svo þakklát fyrir að hafa átt þig að. Það voru sko ekki veislur án þín og sú minning er afar dýrmæt. Þú komst í stað langömmunnar sem við systkinin fengum ekki tækifæri til að kynnast.

Það var svo skemmtilegt að vera í kringum þig, þú varst alltaf tilbúin til að grínast og hlæja. Alltaf svo létt og glatt yfir þér. Á sama tíma varstu mjög ákveðin í skoðunum þínum og sagðir það sem þú vildir segja. Ég man að þú vildir ekki sjá hárið mitt svona ofan í andlitinu, þér fannst það alveg fráleitt. Þú vildir hafa það allt tekið frá andlitinu og helst fest aftur í fléttu. Þannig að það fór oft svo að þú fléttaðir það í eina stóra fléttu. Það var líka þitt helsta ráð til þess að láta hárið síkka hraðar. Eins voru það hælaskórnir, ég átti alls ekki að vera í þeim. Svo horfðir þú stundum á mig og sagðir frekar alvarlega: passaðu þig á strákunum, þeir hafa ekkert að gera með þér.

Elsku Gyða, þú varst svo frábær og sterkur karakter, alveg einstök. Ég sakna þín og tímans sem við áttum saman. Þar til við hittumst aftur, Guð geymi þig.

Þóranna Þórarinsdóttir.

HINSTA KVEÐJA
Elsku Gyða okkar. Nú ert þú farin frá okkur, en við trúum því að við munum hittast aftur seinna. Takk fyrir allar góðu og skemmtilegu stundirnar sem við áttum saman. Það er okkur ómetanlegt að eiga minningar um þig.
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir;
innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Okkur þykir svo vænt um þig og við söknum þín. Þar til við hittumst aftur. Guð geymi þig.
Þórarinn, Jónína og börn.