Veik börn. Þau kippa í hjartastrengina. Meira hjá sumum en öðrum en sem betur fer hjá flestum. Af þeim sökum eiga tvær albanskar fjölskyldur nú aftur örlitla von eftir að hafa gefist upp fyrir skriffinnskuskrímslinu Útlendingastofnun.
Veik börn. Þau kippa í hjartastrengina. Meira hjá sumum en öðrum en sem betur fer hjá flestum. Af þeim sökum eiga tvær albanskar fjölskyldur nú aftur örlitla von eftir að hafa gefist upp fyrir skriffinnskuskrímslinu Útlendingastofnun.

Skriffinnskuskrímslin eru víða og það er mikilvægt að muna að þau eru ekki mannleg þó þau séu manngerð. Fólkið sem starfar við að framfylgja duttlungum þeirra er ekki vont fólk og fór jafnvel út á þann vettvang til þess að reyna að temja þau. Sumir gefast aldrei upp en aðrir eru étnir með húð og hári. Á þann hóp stoðar lítið að öskra því úr maga skepnunnar berst ekkert hljóð.

En þar sem skrímslið er manngert er hinsvegar hægt að kippa úr því vígtönnunum. Það er sá lærdómur sem við þurfum að draga af málum albönsku drengjanna. Þeir voru heppnir að eiga góða að sem tókst að vekja athygli á aðstöðu þeirra en hvað með þá sem á eftir koma? Ætlar hálf þjóðin að fylgja hverju einasta bágstadda barni í örugga höfn, otandi heykvíslunum að skriffinnskuskrímslinu, eða ætlum við að breyta einhverju?

Albanir eru stærsti hópur hælisleitenda hér á landi og það ekki að ástæðulausu. Flestir eru þeir að flýja sára fátækt en eru settir mörgum skörum lægra en flóttafólk frá stríðshrjáðum svæðum. Það er skiljanlegt að einhverju leyti; brennandi hús eru hættulegri en lek hús þó að afleiðingarnar geti verið þær sömu. Sem samfélag höfum við komist að því að við viljum bjóða Sýrlendingum húsaskjól á okkar kostnað meðan hús þeirra brenna. Til þess er hælisleitendakerfið. En hvaða kerfi höfum við að bjóða fólkinu í leku húsunum?

Í augnablikinu leita Albanir í brunaskýlin okkar af því að þeir eiga ekki annarra kosta völ – ómenntað fólk utan ESB fær ekki langtímadvalarleyfi á grundvelli atvinnu. Það kostar íslenska ríkið fjármagn sem Albönunum gefst ekki tækifæri til að borga til baka í formi skatta því þeir eru alltaf sendir heim. Ef við myndum breyta kerfinu okkar, þannig að fólk í lekum húsum gæti komið hingað til lands og byggt ný hús sem virkir þátttakendur í íslensku atvinnulífi, sem íslenskir skattgreiðendur í íslensku hagkerfi, værum við ekki bara að elska náungann heldur að spara og græða, jafnt í krónum sem og í menningu.

Til þess þurfum við að ná vígtönnunum úr skriffinnskuskrímslinu. Fyrsta tönnin er orðið „ekki“ eins og Pawel Bartoszek bendir á í greininni „Þrír hlutir sem myndu gera Ísland opnara“ en eins og kemur fram í framhaldsgreininni „...og ástæða þess að það verður ekki gert“ er það ASÍ sem skerpir tennurnar, ekki starfsfólk Útlendingastofnunar. Báðar greinarnar eru skyldulesning fyrir alla með hjartastrengi, óháð tilkippileika.

Beinum köllum okkar eftir réttlæti á rétta staði og bjóðum fólk sem flýr efnahagslegar hörmungar velkomið á viðeigandi forsendum: með því að leyfa því að vinna.

annamarsy@mbl.is

Anna Marsibil Clausen