Kristján Þorgeir Magnússon fæddist í Bandaríkjunum 12. júní 1953. Hann lést þar 26. nóvember 2015. Foreldrar hans voru Magnús Blöndal Jóhannsson tónskáld, d. 2005, og Bryndís Sigurjónsdóttir BA, d. 1962. Bræður hans eru Jóhann Magnús og Marinó Már. Móðir þess síðarnefnda er Kristín Sveinbjörnsdóttir.

Þorgeir, eins og hann var kallaður, ólst upp og bjó á Íslandi. Hann var í Menntaskólanum við Tjörnina og Menntaskólanum við Hamrahlíð en fór fljótt að læra flug og kenndi það þegar hann var ráðinn flugmaður hjá Flugfélagi Íslands 1977 og starfaði síðan sem flugmaður og flugstjóri hjá Flugleiðum, seinna Icelandair. Á níunda áratug síðustu aldar kenndi hann hjá Flugleiðum og Fjölbrautaskóla Suðurnesja og frá 1999 til 2008 kenndi hann lífeðlis- og sálarfræði við Flugskóla Íslands. Auk flugmenntunarinnar tók Þorgeir BA-próf í sálarfræði frá Háskóla Íslands og próf í alþjóðlegri mannauðsstjórnun frá University of California – Riverside.

Þorgeir eignaðist þrjú börn. Sonur hans og Eddu Andrésdóttur er Jóhann Svavar, f. 1974. Sambýliskona hans er Guðrún Halldórsdóttir. Sonur þeirra er Mikael Kári. Sonur Guðrúnar og stjúpsonur Jóhanns er Viktor Orri Jakobsson. Synir Jóhanns Svavars og Sæunnar Klöru Breiðfjörð eru Magnús Blöndal og Andrés Þór. Börn Þorgeirs og Mörtu Bryndísar Marteinsdóttur, sem er látin, eru Davíð Blöndal, f. 1988, sambýliskona hans er Guðrún Ólafsdóttir, og Kristín Diljá, f. 1991.

Útför Þorgeirs fer fram frá Dómkirkjunni í dag, 15. desember 2015, klukkan 15.

Pabbi minn, það er svo fráleitt að ég sé að skrifa þessa minningargrein hér og nú. Það er aðeins rétt meira en vika síðan við borðuðum okkar síðasta „lunch“ hérna heima en jafnt okkar fyrsta „lunch“ saman hérna heima þar sem við vorum aðeins búin að búa saman í þrjá mánuði. Tvo af þeim varstu úti í verkefni en við erum sko búin að fá okkar ferðir út í heim saman og virkilega góðar samræður, jafnt sem rökræður, hvort sem það var í Kóngsins Köben eða á Jómfrúnni í 101...eins lengi og það hafði upp á að bjóða gott rauðvín og ekki var verra ef boðið var upp á góða steik. Þó að árin sem við höfum fengið saman hafi kannski verið hálf mín ævi þá eru þau virkilega dýrmæt og aldrei hefði mig grunað að minn eigin faðir gæti líka verið minn besti vinur, enda var eins og ég væri stundum að líta í spegil þegar þú sagðir eitthvað sem ég var innst inni sammála en lét eins og ég væri það ekki. Eftir að mamma dó þá sá ég hversu lík henni ég er, en eftir hvert samtal sem innihélt rökræður við þig þá sá ég hversu mikið þið bæði eigið í mér. Ég mun alltaf meta það, að vissu leyti, að vera kvenkyns útgáfan af þér af því það er það sem mér finnst hafa komið mér í gegnum allt það svarta í lífinu, enda mun ég nýta þá eiginlega líka í þessu áfalli. Allar okkar ferðir, hvort sem það var um Ísland eða utan þess, eru ógleymanlegar. Ég gæti skrifað endalaust um hversu erfitt það er að missa þig en það er nógu erfitt að enda þessa grein því það er viss partur af mér sem líður eins og þetta sé eina tækifæri mitt til að segja síðustu orð mín til þín, sem það er ekki. Þetta eru aðeins rituð orð í blaði sem almenningur les. Síðustu orð mín til þín og mömmu eru og verða alltaf þau sem ég fer með rétt áður en ég sofna á kvöldin. Ég mun aldrei slíta okkar samning, við getum aðeins stjórnað því hversu hátt eða lágt við stefnum í lífinu og það er eins gott að það sé fjandi hátt.

Þitt örverpi,

Kristín Diljá Þorgeirsdóttir.

Elsku pabbi. Ég man þegar þú sendir mig fyrst í strætó frá Garðabænum í Laugarnesskólann. Ég var á mínum fyrstu árum í barnaskóla og þurfti að taka tvo strætisvagna. Já, skiptimiða og allt. Þetta fannst mér rosalegt en þú sagðir mér að þetta væri ekkert mál og þú færir með mér í fyrstu ferðina og við létum reyna á þetta. Daginn eftir fór ég einn út á stoppistöð og gerði þetta allt hárrétt. Mér óx ferðalagið í augum og hafði ekki hugmynd um að þú hafðir lætt þér inn í vagninn án þess að ég sæi til að fylgjast með. Mikið var ég stoltur af mér að hafa tekist þetta vandræðalaust. Þetta var nokkuð dæmigert fyrir þig; láta mig redda mér, en fylgjast með að það gengi upp.

Oft þegar ég spurði þig um álit á hinu og þessu eða bað um svör við einhverju sem ég var að velta fyrir mér svaraðir þú á frábæran hátt. Þú spurðir mig hvað ég héldi að væri rétt eða hvað mér fyndist. Fékkst mig til að átta mig á hlutunum sjálfur. Auðvitað komstu með svarið ef ég var alveg tómur. En þetta þjálfaði mig.

Ef ég fór yfir strikið, eins og ærslafullum drengjum er lagið, sendir þú tiltekið augnaráð sem sagði meira en öll orð. Það var yfirvegað og ákveðið og þýddi: „Svona hegðar maður sér ekki.“

Þú vildir okkur börnum þínum allt það besta og hafðir mikinn metnað fyrir okkar hönd. Þar að auki varstu eins og besti vinur og félagi. Mér eru ferðirnar okkar utanlands sem innan mjög minnisstæðar, t.d. á Range Rovernum og Patrolnum. Þetta voru frábærar ferðir. Þú varst góður ferðafélagi og alltaf með hlutina á hreinu. Það var einhvern veginn svoleiðis að þegar þú varst við stjórnvölinn treysti maður því að hlutirnir gengju upp.

Einhver skemmtilegasta ferðin sem við fórum í var sumarið sem við leigðum seglskútuna í Tyrklandi eftir að þú hafðir tekið siglingaréttindi árið áður. Við sigldum í tæpar tvær vikur meðfram suðurströnd Tyrklands. Við vorum tveir á skútunni þar sem mælt var með sex manna áhöfn. En við vorum öruggir og unnum saman eins og við hefðum gert þetta í 30 ár. Einn eftirminnilegasti dagurinn var þegar við sigldum langt út á Miðjarðarhafið í vitlausu veðri og öldugangi. Eini báturinn á hafi. En öruggir.

Það var þannig að þegar við ferðuðumst saman varst þú oftast við stjórnvölinn, að minnsta kosti framan af. Svo deildum við því þegar á leið. En undir lok nóvember þegar ég fékk símtalið frá Orlando um að þú værir farinn var komið að mér að taka við stjórninni og flytja þig heim eins og þú hafðir oftast gert fyrir mig áður. En ég veit að við eigum eftir að ferðast saman á öðrum stað.

Þinn sonur og vinur,

Jóhann (Jói).

Elsku Þorgeir minn, mig langar til að kveðja þig með örfáum orðum þrátt fyrir það hversu hræðilega ósanngjarnt það er að kveðja þig svona snemma.

Vinátta okkar byrjaði fyrir sjö árum er við Jóhann, sonur þinn, hófum samband. Strax frá fyrstu stundu náðum við vel saman og gátum talað um allt milli himins og jarðar. Fróðari mann var vart að finna og hafði ég mjög gaman af öllum okkar samtölum og samverustundum. Þú hafðir sterkar skoðanir á hlutunum og oft enduðu samtöl okkar í hláturskasti því hvorugt okkar gaf sig. Húmor þinn var lúmskur og beinharður. Þú varst stór hluti af okkar fjölskyldu og fagnaðir jólum, áramótum og afmælum með okkur og strákunum hvert ár. Fyrir mér var jólaundirbúningurinn ekki byrjaður fyrr en ég heyrði í þér. Þá hringdir þú í mig til að skipuleggja jólamatinn með mér hvort sem þú varst staddur hér á landi eða í Afríku. Við vorum góð í að skipuleggja veislur saman og héldum þær nokkrar og þær fara seint úr minni mínu. Mestu og stærstu samskiptin okkar voru árið sem þú keyptir húsið þitt í Garðabænum. Þá sýndir þú mér eitt mesta traust sem nokkur hefur sýnt mér. Þú réðst mig sem hönnuð á húsinu á meðan þú varst við störf erlendis. Við hófumst handa og rifum allt út úr húsinu og breyttum því algjörlega. Millilandasímtölin voru ansi rífleg það árið. En við unnum stórkostlega vel saman og allt gekk eins og í sögu. Enda fögnuðum við vel í sextugsafmælinu þínu fyrir tveimur árum þegar húsið var tilbúið. Ferðalögin eru mér líka ofarlega í huga. Þú varst flugstjóri hjá Icelandair og hafðir ferðast út um allan heim en leyfðir okkur fjölskyldu þinni einnig að njóta þeirra fríðinda að ferðast með þér. Sýna okkur það helsta í flottustu borgum heims, njóta góðrar steikar og velja rétt rauðvín með steikinni. Þú varst skemmtilegur ferðafélagi og vissir ansi mikið um sögu Evrópu og menningu. Það er tvímælalaust gott að geta hugsað um góðar minningar á svona stundu og minningarnar eru eitthvað sem aldrei verður tekið frá okkur sem eftir erum. Minning um góðan mann lifir, mann sem hugsaði vel um fólkið sitt, var séntilmaður á allan máta og ákaflega góður félagsskapur sem gaman var að vera í kringum.

Elsku Þorgeir, ég veit að þú ert á góðum stað með foreldrum þínum. Ég á eftir að sakna þín alveg svakalega mikið. Takk fyrir vinskap okkar og tímann sem við fengum saman, ég vildi óska að hann hefði verið lengri.

Þinn vinur og tengdadóttir,

Guðrún J. Halldórsdóttir.

Elsku afi. Þú kemur víst ekki að ná í okkur í flugvélinni þinni í sumar eins og þú gerðir alltaf. Það var alltaf rosalega gaman þegar þú komst að ná í okkur. Við fengum að sitja með þér í flugstjóraklefanum og fylgjast með þér fljúga. Þú kenndir okkur hvað allir þessir takkar gera og við fengum að panta okkur allt sem við vildum. Það var svo kúl. Þú varst svo kúl. Flottasti afi sem nokkur getur eignast.

Takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur, allar skemmtilegu stundirnar og allar flottu gjafirnar sem við eigum eftir að sakna að fá frá þér.

Við eigum eftir að sakna þín mikið og hugsa til þín. Vonandi eru fjöll og flugvélar þar sem þú ert núna, svo þér leiðist ekki.

Góða ferð, elsku afi okkar.

Magnús og Andrés.

Eftir góða vinnutörn um víða veröld ákveða þrír félagar að fara í nokkurra daga frí burtu frá vetrinum á Íslandi í sólina á Flórída áður en tekið er á aðventu jólanna. Góðir dagar líða fljótt, það er hlegið, sagðar sögur, tekið á fortíð og framtíð, alltaf gaman. Góðar steikur, gott vín og góð tónlist alltaf bætist í sögurnar og félagsskapinn. Menn fjárfesta meira að segja í gúmmístígvélum til að eiga í jeppanum sínum í útilegum næsta sumars. Skyndilega er öllu lokið, einn af okkur kemur ekki með heim til Íslands, margar spurningar vakna, þetta stóð aldrei til, en eftir stendur minning um góðan og skemmtilegan dreng, og þá góðu daga sem við áttum saman í Flórída áður en áfallið dundi yfir.

Ég vil þakka Kristjáni Þorgeiri Magnússyni fyrir þær samverustundir sem við höfum átt á undanförnum árum. Börnum hans sendi ég innilegar samúðarkveðjur og óska þeim alls hins besta á erfiðum tímum.

Einar Örn Jónsson.

Fæddur og látinn er í Bandaríkjunum Kristján Þorgeir Magnússon, samstarfsfélagi og stórvinur minn.

Þorgeir var heimilisvinur á okkar heimili og er hans sárt saknað af bæði Írisi eiginkonu minni og sonunum fjórum. Hann var alltaf aufúsugestur og urðu fjölmargir vinir mínir og ættingjar vinir hans, við hans skemmtilegu kynni enda höfðingi heim að sækja og hitta.

Þorgeir var afar listelskur maður, eins og hann átti kyn til, faðir hans tónskáld og móðir hans leikkona. Fátt þótti honum skemmtilegra en sækja tónleika sinfóníunnar enda alinn að mörgu leyti upp innan veggja Þjóðleikhússins þar sem faðir hans var hljómsveitarstjóri á æskuárum hans. Klassíkin var hans aðal og oft reyndi ég að gera hann að djassgeggjara, það tókst ekki. Mér tókst þó á allmörgum árum að kenna honum að meta djassinn en hann varð að vera framúrstefnulegur.

Leikhúsferðirnar hans voru margar á hverjum vetri og oftast reyndi hann að komast yfir bækur til að lesa sér til um verkin sem hann kaus að sjá. Slíkur var lista- og bókmenntaáhuginn.

Íslenska hálendið var honum afar kært og í hálendisferðum var hann í essinu sínu.

Þorgeir var farinn að hlakka til starfsloka en þá ætlaði hann að leggja land undir fót og njóta efri áranna á ferðalögum innanlands sem utan en ferðin síðasta kom of fljótt.

Um leið og ég kveð minn trausta og góða vin vil ég votta fjölskyldu Þorgeirs alla mína samúð, frá mínum dýpstu hjartarótum.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Þorsteinn Kristmannsson.

Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Fyrr en varir er einhverju okkar kippt út úr leiknum, algerlega að óvörum. Þá er maður minntur á hverfulleika lífsins og mikilvægi þess að lifa hvern dag eins og hann sé manns síðasti.

Kær vinur og vinnufélagi er fallinn frá, fyrirvaralaust. Kristján Þorgeir Magnússon, eða Toggi eins og hann var kallaður, var kominn á þann stað í lífinu að hann sá fram á starfslok innan fárra ára og þá ætlaði hann að sötra sitt rauðvín, lesa fagurbókmenntirnar, sem hann hafði ekki þá þegar komist yfir að lesa, og kaupa sér Benz, ráða jafnvel bílstjóra með. Hann ætlaði svo sannarlega að njóta lífsins og hlakkaði til.

Toggi fékk alveg að finna fyrir lífinu. Honum var ekki úthlutað auðveldustu sporunum í bernsku og sú reynsla markaði allt hans lífshlaup. Hann einsetti sér því að ná því besta út úr lífinu, fara ekki fleiri grýttar brautir, njóta heldur líðandi stundar.

Toggi hafði sínar skoðanir, bæði á mönnum og málefnum, og fór ekkert leynt með þær. Sagði þær oft umbúðalaust. Þess vegna var hann ekki allra, eins og menn segja. En hver er allra í meiningunni að öllum líki við mann? Enginn.

Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur, kunni ekki að þykjast. Brosið hans var líka einlægt og fölskvalaust.

Toggi fékk fljótlega viðurnefnið „í tauinu“. Honum var umhugað um útlit sitt og sagan segir að eitt árið á Fokkernum, þegar honum þótti vetrartrefillinn sem fylgdi uniforminu ekki nógu „lekker“, keypti hann sér annan úr silki í staðinn.

Við Toggi urðum vinir 1979 þegar hann bauð mér í lautarferð í Öskjuhlíð einn sólríkan laugardag. Þá voru engar brottfarir innanlands milli 14 og 17 og hann notaði tækifærið, náði í kaffi á brúsa og kökur í box á innanlandsteríunni, teppi úr skýlinu og fékk frí fyrir mig úr inntékkinu sem ekkert var á þessum tíma. Við sátum flötum beinum í uniforminu okkar í tvo tíma og skröfuðum um heima og geima.

Aldrei fyrr né síðar hefur mér verið boðið í lautarferð.

Leiðir okkar áttu svo eftir að liggja saman í millilandafluginu, við uppgötvuðum nýja heima í Afríku og á Maldíveyjum, fórum saman í verkefni og tókum fjölskyldumeðlimi með. Drösluðumst hálfan hnöttinn með trégíraffa í handfarangri og kepptum innbyrðis í Airport-fitness, hvort væri stórstígara og næði fyrr á brottfararhliðin. Þess á milli veltum við fyrir okkur tilgangi lífsins og hvernig bjarga mætti heiminum og gera hann betri.

Nú verður koníaksstofan þéttsetin á himnum og plönum okkar um hvernig bæta megi heiminn eflaust kollvarpað.

Fínasta rauðvínsflaskan hefur þegar verið opnuð.

Blessuð sé minning góðs drengs.

Sigurlaug Halldórsdóttir (Dillý).

HINSTA KVEÐJA

Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum)
Elsku afi Þorgeir, við söknum þín mjög mikið og vildum að þú værir enn hjá okkur. Þú hefur verið svo góður afi og vinur okkar.
Viktor Orri og Mikael Kári.