Ragnar Vignir fæddist í Reykjavík 28. júlí 1928. Hann lést 22. janúar 2016.

Foreldrar hans voru Sigurhans Vignir, ljósmyndari og listmálari, f. 1894 á Hróðnýjarstöðum, Dalasýslu, d. 1994, og Anna Elísabet Vignir, húsfreyja, f. 1902 í Ögri, Snæfellsnesi, d. 1974. Systir hans var Íris Vignir, f. 1924, d. 1981, gift Guðmundi Hannessyni ljósmyndara, f. 1915, d. 1987.
Ragnar kvæntist 18. nóvember 1950 Hafdísi Guðlaugsdóttur hárgreiðslumeistara, f. 1930 í Reykjavík. Foreldrar hennar voru Guðlaugur Kristjánsson verkamaður, f. 1984 í Ólafsvík, d. 1974, og Elín Benediktsdóttir húsfreyja, f. 1885 á Geirseyri í Patreksfirði, d. 1970. Börn þeirra eru: 1) Reynir Vignir endurskoðandi, f. 1953, kvæntur Þóru Sjöfn Guðmundsdóttur kennara, f. 1953. Börn þeirra: a) Elísabet Anna, gift Georges Guigay, synir þeirra: Jónatan Vignir og Stefán Reynir. b) Ragnar, í sambúð með Sigrúnu Brynjólfsdóttur, dætur þeirra: Brynja Dögg og Elín Sjöfn.
2) Anna Ragnheiður, þjónustufulltrúi, f. 1960 gift Pétri Stefánssyni skrifstofumanni, f. 1938. Dætur þeirra: a) Karitas Anna, í sambúð með Styrmi Sigurðssyni. b) Hafdís Tinna. 3) Hildur Elín, f. 1967, framkvæmdastjóri, gift Einari Rúnari Guðmundssyni, sérfræðingi, f. 1967. Sonur þeirra er Einar Vignir. Dóttir Hildar frá fyrra hjónabandi með Skarphéðni Gunnarssyni er Jóhanna María, í sambúð með Stefáni Birni Karlssyni. 4) Sigurhans, f. 1969, viðskiptafræðingur, kvæntur Margréti Gunnlaugsdóttur viðskiptafræðingi, f. 1973. Börn þeirra: a) Jóna Rut. b) og c) tvíburarnir María og Tómas.
Ragnar nam við Héraðsskólann á Laugarvatni 1945-1947, og við Iðnskólann í Reykjavík 1947-1949 og lauk þaðan sveinsprófi í ljósmyndun og fékk meistararéttindi 1952. Ragnar tók mikið af myndum af íþróttaviðburðum og var ljósmyndari hjá Morgunblaðinu um tíma. Hann stundaði nám í tækni- og fingrafaradeild dönsku lögreglunnar 1955, fór í námsferðir og sótti ráðstefnur um sömu mál víða í Evrópu. Árið 1952 hóf Ragnar störf við tæknideild Rannsóknarlögreglunnar í Reykjavík. Hann var skipaður forstöðumaður deildarinnar og varðstjóri 1. jan. 1957 og síðar aðalvarðstjóri. Við stofnun Rannsóknarlögreglu ríkisins 1977 varð Ragnar aðstoðaryfirlögregluþjónn við embættið og gegndi því starfi til starfsloka 1. júlí 1997. Á fjörutíu og fimm ára starfsferli sínum við tæknirannsóknir lögreglumála innleiddi hann margar nýjungar í vinnubrögðum og tækjanotkun. Hann kenndi við Lögregluskólann um árabil. Ragnar keppti 1948 til 1966 í sundi og sundknattleik fyrir Ármann. Hann var í frægu keppnisliði félagsins og varð Íslands- og Reykjavíkurmeistari með því sextán ár í röð 1951 til 1966. Árin 1953-1963 var Ragnar ritari Sundsambandsins og sat í stjórn Sunddeildar Ármanns. Um áratuga skeið var Ragnar virkur kylfingur í Golfklúbbi Reykjavíkur og golfklúbbum lögreglumanna og sat um tíma í stjórn GR. Hann var félagsmaður í Knattspyrnufélaginu Val frá unglingsárum. Fyrir störf sín innan íþróttahreyfingarinnar hlaut hann ýmsar viðurkenningar.
Útför Ragnars fer fram frá Bústaðakirkju í dag 2. febrúar 2016, kl. 13.

Elsku nafni.

Það er komið að kveðjustund. Stund sem mátti bíða aðeins lengur og söknuður minn er mikill. Þú varst merkismaður í mínum augum, hvorki meira né minna en rannsóknarlögreglumaður! Litlum afastrák fannst ekkert flottara, nema kannski að vera alnafni lögguafans síns. Ein minning er þegar þú bauðst mér mér þér á vinnustaðinn þinn, þegar áhugi minn á löggunni var sem mestur. Það var ótrúlega spennandi fyrir lítinn polla að fá að snerta alvörubyssu, ég varð frekar hræddur þá örstuttu stund þegar ég prófaði alvöru fangaklefa.
Allar minningarnar um samverustundir kalla fram bros, hvort sem um er að ræða sund, golf, gistinætur, matarveislur eða spjall.  Við vorum aldrei ósáttir, alltaf nánir vinir og félagar. Þú kenndir mér góð gildi sem lifa í mér, svo sem að styrkja fjölskylduböndin, stunda íþróttir og sund en síðast en ekki síst að vera alltaf góður við sína nánustu. Þið amma gerðuð alltaf vel við ykkar fólk og áramótaveislurnar okkar, stórfögnuður fjölskyldunnar eru eftirminnilegar.
Mér fannst alltaf mikill heiður að fá að vera einkabílstjórinn ykkar þangað.
Á þessum tímamótum kveð ég þig með söknuði en um leið þakklæti. Nú er það mitt hlutverk  að fræða börnin mín um einstakan langafa og miðla til þeirra þeim gildum sem þú kenndir mér. Minning þín lifir.

Hvíl í friði, guð blessi minningu þína

Þinn alnafni,

Ragnar Vignir.