Fyrsta fórnarlamb stríðs er jafnan sannleikurinn, sagði bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Hiram Warren Johnson þurrlega árið 1917. Þetta átti við í spænska borgarastríðinu 1936-1939, sem orkaði sterkt á vestræna menntamenn.

Fyrsta fórnarlamb stríðs er jafnan sannleikurinn, sagði bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Hiram Warren Johnson þurrlega árið 1917. Þetta átti við í spænska borgarastríðinu 1936-1939, sem orkaði sterkt á vestræna menntamenn. Þeir höfðu flestir ríka samúð með lýðveldissinnum, sem börðust við þjóðernissinna Franciscos Francos. Þeir töldu stríðið standa milli vestræns lýðræðis og fasisma Francos, þótt sönnu nær sé að segja, að það hafi staðið milli alræðis Stalíns og einræðis Francos, því að kommúnistar náðu brátt undirtökum í lýðveldishernum, tóku andstæðinga sína af lífi eða héldu yfir þeim sýndarréttarhöld og hnepptu í fangelsi.

Einn táknrænasti viðburður stríðsins var í smábænum Guernica í Baskahéraðinu. Hinn 26. apríl 1937 gerðu þýskar og ítalskar flugsveitir árás á hann. Féll þar fjöldi fólks, og mestur hluti bæjarins brann til kaldra kola. Áróðursmenn lýðveldissinna héldu því strax fram, að bærinn hefði ekki haft neitt hernaðargildi og að árásin hefði verið á markaðsdegi, þegar bærinn hefði verið fullur af fólki. Þetta hefði verið hryðjuverk, ekki hernaðaraðgerð. „Óvíggirt og gersamlega varnarlaus borg er jöfnuð við jörðu. Eitt þúsund drepnir. Tíu þúsund heimilislausir,“ sagði í Iðunni 1937. Ekki spillti fyrir, að Pablo Picasso kallaði frægt málverk eftir bænum.

Sannleikurinn er öllu flóknari, eins og bandaríski sagnfræðingurinn Stanley Payne hefur sýnt fram á. Guernica hafði ótvírætt hernaðargildi, þar sem bærinn var áfangi á leið hers þjóðernissinna til Bilbao, aðalborgar Baskahéraðsins. Í bænum var nokkurt herlið, og í útjaðrinum voru vopnasmiðjur. Héraðsstjórn Baska hafði bannað markaðsdaga vegna ófriðarins, svo að bærinn var sennilega ekki fullur af fólki. Líklega hafa nokkur hundruð manns fallið vegna loftárásarinnar frekar en eitt þúsund, en bæjarbúar voru þá alls um fimm þúsund. Mestur hluti bæjarins brann, af því að flest hús voru úr tré. Loftárásin var liður í aðgerðum hers þjóðernissinna, en ekkert sérstakt uppátæki þýskra eða ítalskra hermanna, og féll bærinn í hendur Francosinna þremur dögum síðar.

Þegar loftárásin var gerð, hafði Picasso þegar byrjað á málverki sínu, en ákvað að bragði að kalla það eftir bænum. Skiptar skoðanir eru um, hversu gott listaverk það sé. En enginn ágreiningur getur verið um, að áróðursbragðið reyndist snjallt.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is