[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bikarúrslit Guðmundur Hilmarsson gummih@mbl.is Stjarnan og Grótta mætast í úrslitaleik Coca Cola-bikarkeppni kvenna í handknattleik í Laugardalshöllinni í dag.

Bikarúrslit

Guðmundur Hilmarsson

gummih@mbl.is

Stjarnan og Grótta mætast í úrslitaleik Coca Cola-bikarkeppni kvenna í handknattleik í Laugardalshöllinni í dag. Stjarnan hafði betur á móti Fylki í undanúrslitunum í fyrrakvöld og Grótta, sem er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari, fagnaði sigri gegn Haukum í tvíframlengdum spennutrylli.

Morgunblaðið spjallaði við Stjörnukonuna Rakel Dögg Bragadóttur og Írisi Björk Símonardóttur, markvörð Gróttu, í gær en þær verða báðar í eldínunni í dag. Rakel sneri aftur út á völlinn á dögunum eftir að hafa verið frá keppni vegna höfuðmeiðsla í tvö ár og Íris Björk sá til þess að koma Gróttunni í úrslit með hreint út sagt magnaðri frammistöðu í fyrrakvöld sem lengi verður í minnum höfð.

Hef tekið miklum framförum

„Það verður ótrúlega gaman að taka þátt í þessum leik,“ sagði Rakel, sem leikur til úrslita í annað sinn á ferli sínum. „Ég er hálfgerður nýliði í svona leikjum en í tvígang missti ég af úrslitaleikjum í bikarnum vegna meiðsla,“ sagði Rakel. Spurð hvað hafi orðið til þess að hún ákvað að taka fram skóna að nýju; „Ég hef tekið miklum framförum hvað varðar þessi höfuðmeiðsli. Ég hef æft hjá einkaþjálfara síðan í byrjun desember. Það hefur gengið ótrúlega vel og mig langaði í framhaldinu að prófa að mæta á æfingar með stelpunum. Ég er algjörlega á mínum forsendum. Ég er auðvitað ekki komin í mitt besta stand og það mun taka sinn tíma en meðan ég get hjálpað liðinu eitthvað þá er ég bara sátt,“ sagði Rakel.

Um úrslitaleikinn í dag sagði Rakel; „Þetta verður mikill slagur. Grótta er með eitt besta lið landsins. Liðið er í toppsæti deildarinnar og er ríkjandi Íslands- og bikarmeistari. Við þurfum því að spila virkilega vel til að eiga möguleika á sigri,“ sagði Rakel. Hún segist hafa fylgst spennt með viðureign Gróttu og Hauka. „Maður var að fara á límingunum enda leikurinn rosalega spennandi. Íris Björk var hreint út sagt frábær og vann leikinn upp á eigin spýtur. Við verðum að finna einhverja leið til að koma boltanum framhjá henni en það verður ekki auðvelt,“ sagði Rakel. Það er svo sem enginn aukvisi í mark Stjörnunnar en Florentina Stanciu ver mark liðsins og þeir eru margir sem sjá fyrir sér einvígi markvarðanna í dag. „Florentina getur tekið svona leiki eins og Íris gerði í þessum leik og það er ekkert undarlegt að fólk tali um að þetta gæti orðið einvígi þeirra á milli. Annars eru liðin nokkuð áþekk og ég sé fyrir mér að þetta geti orðið jafn og spennandi leikur. Ég vona það alla vega. Svona úrslitaleikir snúast mikið til um dagsformið, stemningu og viljann til að vinna og vonandi verða þessi atriði með okkur,“ sagði Rakel.

Einvígi varna og markvarða

„Já, já ég er komin niður úr skýjunum en það var ekki auðvelt að sofna eftir þennan rosalega leik,“ sagði Íris Björk og hló en eins og áður hefur komið fram þá átti hún stórbrotinn leik í fyrrakvöld.

„Það er mikil spenna og eftirvænting hjá okkur og öllum á Nesinu. Við búum okkur undir mjög erfiðan leik. Við þurfum á öllu okkar að halda til að vinna Stjörnuna. Stjarnan er með hörkulið og við fengum að kynnast því í deildinni á dögunum þar sem við steinlágum fyrir þeim,“ sagði Íris Björk við Morgunblaðið.

Spurð hvort hún sé sammála þeim mörgu sem telja að leikurinn geti snúist upp í einvígi hennar og Florentinu sagði Íris; „Ég held að þetta verði einvígi varnanna og markvarðanna. Bæði lið eru þekkt fyrir að spila hörkuvarnir og fá mörk úr hraðaupphlaupum og ég held að það lið sem gerir betur á þessum sviðum muni standa uppi sem sigurvegari. Við fengum að kynnast því í fyrra hvernig er að vinna bikarinn og að sjálfsögðu viljum við upplifa það aftur. Nú heyrir leikurinn á móti Haukunum sögunni til og ég er svo sannarlega komin með fiðrildi í magann fyrir úrslitaleikinn,“ sagði Íris.