Í tölvubréfi andmælir Jóhann Páll Árnason heimspekingur ýmsu því, sem ég hef sagt um íslenska vinstri hreyfingu.

Í tölvubréfi andmælir Jóhann Páll Árnason heimspekingur ýmsu því, sem ég hef sagt um íslenska vinstri hreyfingu. Í því sambandi kveður hann mig hafa í ræðu og riti „haldið því fram að Alþýðubandalagið hafi ekki verið annað en íslenzkir kommúnistar undir nýju nafni“. En sú er ekki skoðun mín. Ég vék að þessu úrlausnarefni í eftirmála bókar minnar um Íslenska kommúnista 1918-1998 og benti á, að kommúnistaflokkurinn, sem hér starfaði 1930-1938, hefði verið hreinræktaður kommúnistaflokkur og hvergi leynt því. Sósíalistaflokkurinn, sem hér starfaði 1938-1968, hefði að vísu ekki verið yfirlýstur kommúnistaflokkur, enda hefðu innan vébanda hans verið ýmsir, sem hefðu frekar talið sig róttæka verkalýðssinna en kommúnista. Fámennur hópur sannfærðra kommúnista hefði samt haft þar tögl og hagldir. Flokkurinn hefði aldrei heldur gengið gegn stefnu eða hagsmunum Kremlverja og þegið af þeim stórfé á laun.

Alþýðubandalagið, sem var stjórnmálaflokkur 1968-1998, hefði verið flóknara fyrirbæri. Forystusveit flokksins hefði mestöll verið frábitin tengslum við Kremlverja, þótt sumir áhrifamenn hans, til dæmis Lúðvík Jósepsson og Svavar Gestsson, hefðu haldið áfram heimsóknum austur og talað blíðlega við erindreka þeirra á Íslandi. Flokksmenn hefðu líka sumir verið hrifnir af kommúnismanum í Rúmeníu og á Kúbu, enda hefði síðasta verk forystusveitarinnar (þar á meðal Svavars) verið að heimsækja kúbverska kommúnistaflokkinn haustið 1998, þótt Fidel Castro hefði ekki nennt að veita sendinefndinni áheyrn, þegar eftir því var leitað, og var hann þó ekki vandfýsinn um viðmælendur. Niðurstaða mín var (526. bls.): „Ekki er því unnt að kalla Alþýðubandalagið kommúnistaflokk, þótt afstaða þess til kommúnisma væri blendin.“

Kjartan Ólafsson ritstjóri, sem vann sjálfur ötullega að því að binda enda á tengslin við Kremlverja, sagði í leiðara Þjóðviljans 14. ágúst 1977, að óslitinn þráður hefði legið frá kommúnistaflokknum um Sósíalistaflokkinn til Alþýðubandalagsins. „Þótt framtíðin sé verkefnið lifir fortíðin í okkur og við í henni.“ Hversu lipur sem Jóhann Páll Árnason er í þrætubókarlist, getur hann ekki breytt þessari fortíð. Hún lifir í honum og hann í henni.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is