Við sumarbústað afa og ömmu Ragnheiður og Ásdís systir hennar.
Við sumarbústað afa og ömmu Ragnheiður og Ásdís systir hennar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragnheiður fæddist í Reykjavík 10.5.
Ragnheiður fæddist í Reykjavík 10.5. 1956 og átti heima í Laugarneshverfinu á bernskuárunum: „Á sumrin vorum við í bústað móðurforeldra minna við Hólmsá í Mosfellssveit, þar sem sumur bernskunnar liðu í samveru með stórfjölskyldunni og leik frændsystkina.“

Ragnheiður lauk landsprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1972, stúdentsprófi sem dux scholae frá fornmáladeild MR 1976, lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild HÍ 1982 og stundaði framhaldsnám í refsirétti og afbrotafræði við Kriminalistisk Institut við lagadeild Kaupmannahafnarháskóla: „Þar kynntist ég norrænni samvinnu á sviði refsiréttar og eignaðist marga af mínum bestu starfsfélögum og vinum.“

Þegar heim kom varð Ragnheiður dómarafulltrúi við sakadóm Reykjavíkur og síðan fulltrúi í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, en hóf jafnframt kennslu og rannsóknir í refsirétti við lagadeild HÍ árið 1984. Hún varð lektor við lagadeildina 1989, dósent 1995 og prófessor í lögum 1.1. 2000, fyrst íslenskra kvenna.

Ragnheiður sat í fyrstu stjórn Rannsóknarstofu í kvennafræðum við HÍ 1990-92, í kennslumálanefnd háskólaráðs 2003-2008, námsnefnd lagadeildar 2003-2007, meistaranámsnefnd lagadeildar 2005-2010 og stjórn Lagastofnunar HÍ frá 2005, þar af stjórnarformaður frá 2013. Hún var í prófnefnd verðbréfamiðlara 1993-96 og hefur verið formaður náðunarnefndar frá 1993.

Ragnheiður er mjög virkur þátttakandi í norrænu og alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi á fræðasviði sínu. Hún var fulltrúi Íslands í Norræna sakfræðiráðinu (Nordisk Samarbejdsråd for kriminologi) 1998-2012, varaformaður 2007-2009 og formaður 2010-2012. Hún hefur dvalið við rannsóknir í háskólum á Norðurlöndum, Þýskalandi, Englandi og Bandaríkjunum.

Ragnheiður á að baki langan ritferil og hefur birt bækur, fjölda bókarkafla og fræðiritgerða, heima og erlendis. Helstu rannsóknarsvið hennar eru kynferðisbrot, hvort tveggja, löggjöfin og framkvæmd hennar, refsingar og önnur viðurlög vegna afbrota, viðurlagapólitík og umhverfisrefsiréttur.

Á bernskuheimili Ragnheiðar var klassísk tónlist í hávegum höfð. Faðir hennar spilar á píanó, og þær systurnar lærðu á hljóðfæri. Báðar dætur hennar spila á píanó, og sú eldri einnig á selló og sú yngri á fiðlu og tók Ragnheiður virkan þátt í tónlistarnámi þeirra fyrstu árin í Suzukitónlistarskólanum í Reykjavík.

Bókmenntir skipa líka stóran sess hjá Ragnheiði: „Ég er mikill unnandi íslenskrar tungu, og reyndar norrænna tungumála yfirleitt. Fjölskyldan hefur yndi af því að ferðast, bæði hér heima og erlendis og hefur búið tímabundið erlendis í tengslum við störf mín í Kaupmannahöfn, Cambridge á Englandi og Freiburg í Suður-Þýskalandi. Ýmis áhugamál mín tengjast fræðasviðum mínum, en ég hef mikinn áhuga á umhverfisvernd, jafnréttismálum og tengslum laga og siðferðis sem ég tel mjög brýnt að taka til umfjöllunar í íslensku samfélagi.“

Fjölskylda

Ragnheiður giftist 30.6. 1979, Bjarna Kristjánssyni, f. 28.3. 1956, viðskiptafræðingi, rekstrarráðgjafa hjá Hagvangi, fyrrv. fjármálastjóra Stöðvar 2 og RÚV. Hann er sonur Hólmfríðar Jónsdóttur, f. 23.11. 1926, húsfreyju, og Kristjáns Jónssonar, f. 22.10. 1915, d. 1.6. 1996, vélstjóra á Akureyri.

Dætur Ragnheiðar og Bjarna eru Ragnheiður, f. 28.6.1983, ferðamála- og markaðsfræðingur í Kaupmannahöfn, dóttir hennar er Katla Nessa Kiansdóttir, f. 2007, og Unnur, f. 16.12. 1994, nemi í japönsku og þýðingafræði við HÍ.

Systur Ragnheiðar eru Ásdís Bragadóttir, f. 30.5. 1958, kennari í Reykjavík, gift Grétari Halldórssyni, byggingaverkfræðingi, og Bryndís Bragadóttir, f. 9.7.1968, píanókennari í Reykjavík, sambýlismaður Ólafur Hallgrímsson skipstjóri.

Foreldrar Ragnheiðar eru Ragnheiður Gunnarsdóttir, f. 1.9. 1933, fyrrv. bankaritari og húsfreyja, og Bragi Hannesson, f. 10.12. 1932, lögfræðingur, bankastjóri Iðnaðarbanka Íslands og forstjóri Iðnlánasjóðs.