Anton Tómasson
Anton Tómasson
Eftir Anton Tómasson: "Nám í mjólkurfræði er á krossgötum. Áhugi ráðuneytis menntamála er lítill sem enginn. Aðgerða er þörf."

Kæri ráðherra menntamála, Illugi Gunnarsson.

Er mjókurfræði fortíðin? Vinnur fagmaður mjólkina þína og smjörið þitt í framtíðinni?

Sú staða er staðreynd og þekkt víða um heim að mjólkurvörur frá Íslandi þykja gæðavörur og eftirsóttar til útflutnings. Það er varla tilviljun þar sem þekking í faginu er með afbrigðum góð og sókn fyrirtækja í greininni hefur aukist og hróður okkar vöru samhliða úti um allan heim.

Sú staða er einnig staðreynd og fáum kunn, utan iðngreinarinnar, að nám í mjólkurfræði er á krossgötum og engin endurnýjun er í stéttinni. Í dag eru starfandi í greininni rúmlega 90 mjólkurfræðingar, flestir menntaðir í Danmörku. Á næstu tíu árum er útlit fyrir að um 14% þeirra mjólkurfræðinga sem starfandi eru í dag muni hætta, einungis vegna aldurs. Enginn, ég endurtek enginn, er á leið í mjólkurfræðinám frá árinu 2012. Þegar bíða um 5-6 einstaklingar sem vilja mennta sig í faginu en halda að sér höndum vegna kostnaðar og eru að skoða aðra menntunarmöguleika. Þess utan er þegar vöntun á fagfólki til starfa í greininni vegna aukinnar framleiðslu og útflutnings á mjólkurvörum og skyldum afurðum.

Skiptir þekking í faginu einhverju máli eða er okkur alveg sama um þessa iðngrein?

Mjólkurfræði, sem löggild iðngrein hér á landi, nýtur engrar fyrirgreiðslu frá íslenskum stjórnvöldum. Eftir að skólayfirvöld í Danmörku lögðu þá byrði á íslenska nema að greiða fullt skólagjald frá og með árinu 2013 hefur enginn kosið að mennta sig í þessu fagi. Allar umleitanir við danska skólann Kold College sem og hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu af hálfu fagráðs mjólkuriðnaðarins (áður fræðsluráðs mjólkuriðnararins) og fleiri hagsmunaðila, hafa engan árangur borið. Skilaboðin úr ráðuneyti eru einfaldlega, „námslán“!

Námslán eru ekki einföld lausn, kæri ráðherra. Af hverju ætti ungur Íslendingur að mennta sig í iðnnámi og kosta til þess aukalega 2-3 milljónum í skólagjöld sem annars eru greidd af íslenska ríkinu í iðnnámi kenndu hérlendis? Hvar er sanngirnin og jafnræðið í því að hinar fámennu iðngreinar eins og bólstrun, úrsmíði, mjólkurfræði o.fl. iðngreinar sem ekki eru kenndar hér á landi skuli kostaðar af nemanum sjálfum.

Skilaboðin úr ráðuneyti menntamála eru köld, mönnum þar virðist alveg sama um þessar iðngreinar. Getur það verið, herra ráðherra?

Undangengin ár hefur mikið verið reynt til lausnar á þessu máli hjá skólayfirvöldum í Danmörku sem og hjá menntamálaráðuneytinu hérlendis án árangurs. Fjöldi hagsmunaaðila hefur talað fyrir daufum eyrum. Fyrir þinginu núna er til annarrar umræðu þingsályktunartillaga um eflingu náms í mjólkurfræði en óvíst hvort þetta mál nær á dagskrá á þessu þingi sökum fjölda mikilvægari mála sem þarf að koma í gegn. Málið ætti því að vera þingheimi og ráðamönnum vel kunnugt.

Það er von okkar og trú að það finnist farsæl lausn á þessum málum. Meðan ekkert er að gert er ástandið óbreytt og grafalvarlegt. Þekking í mjólkuriðn mun minnka og í versta falli glatast ef ekkert er að gert. Viljinn er allt sem þarf, herra ráðherra.

F.h. Fagráðs mjólkuriðnaðarins.

Höfundur er mjólkurfræðingur og formaður fagráðs mjólkuriðnaðarins.