Hvammsvirkjun Efsta virkjunin í Neðri-Þjórsá verður í landi Hvamms.
Hvammsvirkjun Efsta virkjunin í Neðri-Þjórsá verður í landi Hvamms. — Þrívíddarmynd/Landsvirkjun
Landsvirkjun gerir ráð fyrir að útboðsferli vegna framkvæmda við Hvammsvirkjun í Þjórsá hefjist á næsta ári og ráðist verði í framkvæmdir fljótlega eftir það.

Landsvirkjun gerir ráð fyrir að útboðsferli vegna framkvæmda við Hvammsvirkjun í Þjórsá hefjist á næsta ári og ráðist verði í framkvæmdir fljótlega eftir það. Kemur þetta fram í tillögu að matsáætlun vegna endurskoðunar umhverfismats vegna virkjunarinnar sem lagt hefur verið fyrir Skipulagsstofnun.

Landsvirkjun er að láta endurskoða umhverfismat vegna virkjunarinnar. Skipulagsstofnun úrskurðaði að gera þyrfti nýtt mat á áhrifum hennar á ferðaþjónustu og útivist og landslag og ásýnd lands þar sem forsendur hefðu breyst frá því umhverfismat virkjana í neðrihluta Þjórsár var gert fyrir rúmum áratug.

Athugasemdum svarað

Fimm athugasemdir bárust þegar drög að tillögu að matsáætlun voru kynnt í febrúar og mars. Þeim er svarað í endanlegri tillögu sem nú hefur verið lögð fram. Almenningur getur kynnt sér skýrsluna hjá Skipulagsstofnun og á vefsíðu Eflu. Frestur til að gera athugasemdir rennur út 27. maí næstkomandi. Jafnframt leitar Skipulagsstofnun eftir umsögnum sveitarfélaga og nokkurra ríkisstofnana.

Landsvirkjun stefnir að því að leggja fram matsskýrslu með haustinu. helgi@mbl.is