Nanna Guðrún Ingólfsdóttir fæddist 16. október 1942 að Uppsölum í Suðursveit. Hún andaðist á heimili sínu á Hornafirði 3. maí 2016.

Foreldrar hennar voru Lússía Jónsdóttir, f. 16. október 1906 í Suðurhúsum í Borgarhöfn í Suðursveit, d. 31. ágúst 1977, og Ingólfur Guðmundsson, f. 15. október 1896 að Skálafelli í Suðursveit, d. 22. janúar 1988.

Nanna giftist Braga Jóhannssyni frá Reyðarfirði, f. 24. febrúar 1940, d. 16. september 1969. Þau eignuðust þrjú börn; Guðleif Kristbjörg Bragadóttir, f. 1963, hennar maður er Kristjón Elvarsson, búsett á Höfn í Hornafirði. Hilmar Bragason, f. 1966, sambýliskona hans er Dagnija Karabesko, búsett á Höfn í Hornafirði. Birgir Lárus Bragason, f. 13. desember 1969, d. 26. mars 1980. Fyrir átti Nanna Ingólf Braga Valdimarsson, f. 1962, býr í Noregi. Barnabörnin eru fjögur talsins og barnabarnabörnin sex talsins.

Eftirlifandi sambýlismaður er Sigurþór Sigurðsson, f. 13. febrúar 1933. Þeim varð engra barna auðið.

Útför Nönnu fer fram frá Hafnarkirkju í dag, 14. maí 2016, klukkan 14.

Elsku amma.

Það stingur mig sárt í hjartastað að hugsa til þess að nú sért þú farin okkur frá. Bragi afi og Birgir frændi hafa tekið á móti þér opnum örmum, loksins sameinuð á ný. Kveðjustundina þín bar skjótt að en þinn tími var kominn! Ekki þarftu lengur að þjást og berjast við þessa þrálátu bakverki sem hrjáðu þig alla daga. Loksins friður! En þú varst bæði með sterkt hjarta og sterka sál. Og aldrei heyrðust kvartanir frá þér vegna verkja heldur sagðir þú ávallt: „Iss, þetta er ekkert!“

Mig langar að minnast ömmu með nokkrum orðum og kveðja hana hinni hinstu kveðju.

Amma var ein af þeim sem allt vildi fyrir alla aðra gera en gleymdi stundum sjálfri sér. Amma var mjög mannblendin manneskja og fannst gaman að hitta fólk og spjalla og aldrei skorti hana orðin. Þar sem hún var með græna fingur fannst henni yndislegt að vera uppi í Lóni í bústaðnum sínum að dunda sér í garðinum í kringum hann. Það var ósjaldan þegar ég kom í heimsókn upp í bústað til hennar að hún var við vinnu í garðinum. Ýmsum áföllum lenti hún í á sinni lífsleið sem alls ekki var auðvelt að bera, en hún reisti höfuðið hátt og hélt ótrauð áfram. Hún sagði stundum að lífið myndi nú halda áfram þrátt fyrir áföll og sorg.

Elsku amma, þakka þér fyrir allar þær ánægjulegu stundir sem við áttum saman, sem voru ófáar, ásamt öllum fróðleik þínum sem þú kenndir mér um lífið og tilveruna. Ég sakna þín sárt en minningin um góða og hjartahlýja ömmu lifir og þú munt alltaf eiga stað í hjarta mínu.

Guð blessi þig, amma mín, varðveiti þig og gefi þér frið.

Ég bið að Guð styrki alla í sorginni vegna fráfalls ömmu og alla þá sem eiga um sárt að binda vegna þessa.

Ég sendi þér kæra kveðju

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir.)

Jakob.

Morguninn er ég fékk símtalið um að þú værir farin okkur frá fékk ég sáran sting í hjartað, ég vildi ekki trúa þessu. Tveimur dögum fyrir þennan dag var ég að fara í gegnum myndir í tölvunni minni frá síðustu jólum og ansi margar voru af þér, á þeim myndum brostir þú svo breitt og varst svo glöð.

Ég vil byrja á því að þakka þér, mín kæra, fyrir að taka svona vel á móti mér og strákunum mínum þegar við kynntumst fyrst og gera okkur hluta af fjölskyldunni strax frá fyrsta degi er við hittumst.

Ég mun taka mér til fyrirmyndar hversu sterk þú varst og ákveðin persóna, einnig hversu hreinskilin og opin þú varst ávallt við mig.

Þegar ég kom í heimsókn til þín tókstu alltaf á móti mér með knúsi og kossi þá fann ég hlýju í hjarta mínu og fann hversu velkomin ég var inn á þitt heimili.

Við gátum setið dágóða stund við eldhúsborðið þitt í Hlíðartúninu og drukkið kaffi þangað til þú fórst í tedrykkjuna. Yfirleitt varstu að segja mér gamlar sögur sem gerst höfðu á árum áður og einnig sniðugar sögur af krökkunum þínum þegar þau voru ung. Ég fékk aldrei leið á að hlusta á þig segja frá.

En þar sem þú varst mikil blómakona og ef blóm eða einhverskonar svoleiðis illgresi barst í tal þá skein af þér kunnáttan og gastu frætt mann ótrúlega mikið.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kynnast þér, elsku Nanna (amma).

Þar sem ég sit hér og set saman kveðjuorð til þín datt mér í hug að láta þetta ljóð fylgja með í kveðjuskyni og elsku fjölskylda, ykkur sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur og styrk til að komast í gegnum þetta tímabil.

Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann

allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni.

Og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson.)

Anna Kristín Hauksdóttir.