[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Kópavogi Brynjar Ingi Erluson brynjar@mbl.is Breiðablik sigraði Víking Reykjavík 1:0 í lokaleik 3. umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í gær en Víkingar voru án sigurs fyrir leikinn.

Í Kópavogi

Brynjar Ingi Erluson

brynjar@mbl.is

Breiðablik sigraði Víking Reykjavík 1:0 í lokaleik 3. umferðar Pepsi-deildar karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í gær en Víkingar voru án sigurs fyrir leikinn. Leikurinn var afar kaflaskiptur en gestirnir byrjuðu af krafti og sköpuðu sér nokkur hálffæri áður en Blikar tóku við sér. Jonathan Glenn var mættur aftur í sóknarlínu Breiðabliks og er ljóst að hann á eftir að vera í lykilhlutverki í sumar, takist honum að halda sér heilum. Hann átti þátt í sigurmarki leiksins sem kom á 15. mínútu er Blikar áttu hornspyrnu. Boltinn barst þá til Glenn sem var í teignum og kom knettinum á Andra Rafn Yeoman sem átti fyrirgjöf á Atla Sigurjónsson sem stangaði boltann í netið.

Spjaldaglaður dómari

Valdimar Pálsson, dómari leiksins, var í sviðsljósinu að þessu sinni. Hann var afar spjaldaglaður en virtist þó vera með stóru ákvarðanirnar á hreinu. Gary Martin vildi fá vítaspyrnu undir lok fyrri hálfleiks en fékk ekki og við það fór allt í háaloft. Víkingar þjörmuðu að dómaranum sem spjaldaði síðan Viktor Bjarka Arnarsson, einn reyndasta leikmann gestanna, sem lét síðan reka sig af velli mínútu síðar fyrir grófa tæklingu á Glenn.

Viktori Jónssyni, sem var næstmarkahæsti leikmaður 1. deildar á síðasta ári, tókst ekki að finna sig í 4-4-2 uppstillingunni í kvöld með Gary Martin. Honum var skipt af velli í hálfleik fyrir Halldór Smára Sigurðsson, sem fór í vinstri bakvörðinn. Víkingar léku afar vel í síðari hálfleiknum og litu ekki út fyrir að vera manni færri. Martin var sífellt ógnandi en honum tekst þó ekki að brjóta stífluna.

Andri Rafn lék afar vel

Andri Rafn Yeoman var sem oft áður í lykilhlutverki í liði Blika. Hann var óaðfinnanlegur í gær og skilaði sínu dagsverki vel. Hann og Oliver Sigurjónsson ná vel saman á miðjunni og þá var Alfons Sampsted frábær í vinstri bakverðinum en þýska 1. deildar félagið Freiburg hefur mikinn áhuga á að fá hann í sínar raðir. Miðvarðarpar Blika virðist þá tengja vel saman en þeir Elfar Freyr Helgason og Damir Muminovic hafa staðið vaktina þar. Elfar þurfti að fara af velli í byrjun síðari hálfleiks í gær vegna höfuðmeiðsla, en þau ættu þó ekki að vera alvarleg. Blikar fóru því sáttir úr þessari viðureign en liðið er með sex stig af níu mögulegum á meðan Víkingur er með eitt stig af níu og enn án sigurs í deildinni.

Breiðablik – Víkingur R. 1:0

Kópavogsvöllur, Pepsi-deild karla, 3. umferð, föstudag 13. maí 2016.

Skilyrði : Fín. Völlurinn kemur þokkalega undan vetri, miðað við aðra velli.

Skot : Breiðablik 9 (6) – Víkingur 5 (3).

Horn : Breiðablik 6 – Víkingur 2.

Breiðablik : (4-3-3) Mark : Gunnleifur Gunnleifsson. Vörn : Arnór S. Aðalsteinsson, Elfar Freyr Helgason (Viktor Örn Margeirsson 50), Damir Muminovic, Alfons Sampsted. Miðja : Oliver Sigurjónsson, Andri Rafn Yeoman, Arnþór Ari Atlason (Gísli Eyjólfsson 84). Sókn : Atli Sigurjónsson, Jonathan Glenn, Daniel Bamberg (Höskuldur Gunnlaugsson 61).

Víkingur R.: (4-4-2) Mark : Róbert Örn Óskarsson. Vörn : Dofri Snorrason, Alan Lowing, Igor Taskovic, Arnþór Ingi Kristinsson. Miðja : Alex Freyr Hilmarsson (Vladimir Tufegdzic 68), Viktor Bjarki Arnarsson, Ívar Örn Jónsson, Erlingur Agnarsson (Andri Rúnar Bjarnason 68). Sókn : Gary Martin, Viktor Jónsson (Halldór Smári Sigurðsson 46).

Dómari : Valdimar Pálsson – 6.

Áhorfendur : 1.376.

1:0 Atli Sigurjónsson 15. með skalla úr markteignum vinstra megin eftir fyrirgjöf Andra Rafns Yeomans frá hægri.

Gul spjöld:

Arnþór Ari (Breiðabliki) 27. (brot), Viktor Bjarki (Víkingi) 38. (kjaftbrúk), Alex Freyr (Víkingi) 40. (kjaftbrúk), Glenn (Breiðabliki) 45. (brot), Atli (Breiðabliki) 45. (brot), Bamberg (Breiðabliki) 56. (brot), Taskovic (Víkingi) 58. (brot).

Rauð spjöld:

Viktor (Víkingi) 39. (brot).

MM

Andri Rafn Yeoman (Breiðabliki).

M

Alfons Sampsted (Breiðabliki)

Gunnleifur Gunnleifsson (Breið.)

Atli Sigurjónsson (Breiðabliki)

Damir Muminovic (Breiðabliki)

Róbert Örn Óskarsson (Víkingi)

Dofri Snorrason (Víkingi)