Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Guðni Th. Jóhannesson nýtur stuðnings 67,1% aðspurðra sem þátt tóku í skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um fylgi við frambjóðendur til embættis forseta Íslands. Davíð Oddsson hefur stuðning 17,4% kjósenda og Andra Snæ Magnason styðja 7,8%. 1,8% segjast munu styðja Sturlu Jónsson og 1,5% Höllu Tómasdóttur. Aðrir frambjóðendur njóta minni stuðnings. Forskot Guðna í upphafi baráttunnar fyrir forsetakosningar 25. júní er því afgerandi.
73% kvenna styðja Guðna
Könnun Félagsvísindastofnunar var gerð 12. og 13. maí, það er fimmtudag og í gær, föstudag. Framkvæmdin var þannig að tölvupóstur var sendur til 2.003 manna hóps, það er tilviljunarkennds úrtaks úr þjóðskrá. Var þess gætt að kyn, aldur, búseta, menntun og tekjur væru í svipaðri breidd og meðal landsmanna almennt, 18 ára og eldri. Alls svöruðu 937 könnuninni og er brúttó svarhlutfallið því 47%.Þátttakendur í könnuninni sem sögðust óákveðnir um hvaða frambjóðendur þeir ætluðu að kjósa voru spurðir hvern þeir teldu þá líklegast að þeir styddu. Ítarlegri svör við þeirri spurningu breyttu samt engu í stóru myndinni, ýmist var breytingin innan vikmarka eða engin.
Pólitík ræður afstöðu
Þegar litið er til bakgrunns frambjóðenda þá hefur Guðni Th. Jóhannesson jafnan forystu. Alls 61% aðspurðra karla segist munu styðja hann og 73% kvenna. Séu þátttakendur í könnuninni greindir með tilliti til aldurs, búsetu, hjúskaparstöðu, menntunar, tekna og annars er niðurstaðan hin sama; stuðningur við Guðna er 63-73%.Davíð Oddsson, sem 17,4% segjast mundu kjósa, hefur stuðning 23% karla og 11% kvenna. Það er aðeins meðal stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins sem Davíð, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður flokksins í fjórtán ár, hefur forystu. Alls 53% þeirra sem segjast mundu kjósa Sjálfstæðisflokkinn, væri kjördagur á morgun, styðja Davíð, en 40% Guðna. Alls 24% framsóknarmanna styðja Davíð en 68% Guðna, sem nýtur stuðnings 90% kjósenda bæði Bjartrar framtíðar og Samfylkingar. Þá eru 72% stuðningsmanna VG á bandi Guðna og um ¾ Píratafólks. Alls 19% VG-fólks styðja Andra Snæ og 3% Davíð. Má af þessu greina að pólitískar skoðanir ráða talsverðu um afstöðu kjósenda til forsetaframbjóðenda.