Norðurál Orkuverðið verður tengt Nord Pool raforkumarkaðnum.
Norðurál Orkuverðið verður tengt Nord Pool raforkumarkaðnum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Miðað við okkar forsendur höfum við væntingar um að raforkuverðið hækki umtalsvert.

„Miðað við okkar forsendur höfum við væntingar um að raforkuverðið hækki umtalsvert. En það mun ráðast af þróun á mörkuðum fyrir raforku og ál hversu mikil sú hækkun mun verða á tímabilinu,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, um samkomulag fyrirtækisins og Norðuráls um endurnýjun á raforkusamningi fyrirtækjanna. Samkvæmt samkomulaginu, sem greint var frá í gær, verður orkuverðið tengt við markaðsverð raforku á Nord Pool raforkumarkaðnum og kemur það í stað álverðstengingar í gildandi samningi.

Samkomulagið er til fjögurra ára og hljóðar upp á 161 MW, sem er tæplega þriðjungur af orkuþörf Norðuráls. Endurnýjaður samningur tekur gildi í nóvember 2019, þegar núgildandi samningur rennur út, og gildir til loka árs 2023.

Spurður hvers vegna samið sé einungis til fjögurra ára, segir Hörður að hér sé um dæmigerðan markaðstengdan samning að ræða sem auðvelt sé að framlengja ef vilji er fyrir hendi. „Í gegnum tíðina höfum við verið að bjóða fyrirsjáanleika og þá eru gerðir samningar til lengri tíma. En það hentaði ekki í þessu tilviki.“

Að sögn Harðar getur þessi samningur mögulega orðið fyrirmynd annarra samninga Landsvirkjunar í framtíðinni. „En mjög margir viðskiptavina okkar, sérsaklega þeir sem eru að byggja nýjar verksmiðjur, vilja hins vegar fá fast verð í ákveðinn tíma.“

Hörður segir að það hafi verið stefna fyrirtækisins að draga úr tengingu við álverð. „Þegar það fór hæst árið 2009 voru um 65% af tekjum Landsvirkjunar tengd álverði. Eftir að þessi samningur tekur gildi verða það rúm 20%.“

sn@mbl.is