Dósentsmálið 1937 snerist um það, að Haraldur Guðmundsson ráðherra veitti flokksbróður sínum, séra Sigurði Einarssyni, dósentsembætti í guðfræði, en ekki séra Birni Magnússyni, sem nefnd á vegum guðfræðideildar hafði mælt með, eftir að umsækjendur höfðu...

Dósentsmálið 1937 snerist um það, að Haraldur Guðmundsson ráðherra veitti flokksbróður sínum, séra Sigurði Einarssyni, dósentsembætti í guðfræði, en ekki séra Birni Magnússyni, sem nefnd á vegum guðfræðideildar hafði mælt með, eftir að umsækjendur höfðu gengist undir samkeppnispróf. Fróðlegt er að bera saman kafla um þetta mál í tveimur ritum um Háskóla Íslands. Í Sögu Háskóla Íslands eftir Guðna Jónsson frá 1961 sagði frá dósentsmálinu frá sjónarhorni háskólayfirvalda. Þar eð Björn hefði fengið meðmæli dómnefndar, „hefði mátt ætla, að mál þetta væri klappað og klárt“. En ráðherra hefði skipað Sigurð með tilvísun í álitsgerð frá prófessor Anders Nygren í Lundi, sem hann hefði útvegað sér. Hefði embættisveitingin vakið „í flestum stöðum undrun og gremju“.

Í Aldarsögu Háskóla Íslands frá 2011 benti Guðmundur Hálfdanarson hins vegar á, að Anders Nygren var einn virtasti guðfræðingur Norðurlanda, en einnig kunnur baráttumaður gegn fasisma. Eftir að Guðmundur rannsakaði skjöl málsins, taldi hann ekkert benda til, að Nygren hefði vitað, hverjir umsækjendurnir voru, en hann fékk allar ritgerðir þeirra sendar, eða að íslenskir ráðamenn hefðu verið kunnugir honum. Niðurstaða Nygrens var afdráttarlaus. „Ef hæfileikinn til sjálfstæðrar vísindalegrar hugsunar væri lagður til grundvallar stöðuveitingunni, en það sjónarmið taldi Nygren sjálfgefið að hafa að leiðarljósi við ráðningar háskólakennara, þá þótti honum aðeins einn kandídatanna koma til greina, og það reyndist vera Sigurður Einarsson.“

Ég hafði eins og fleiri talið, að málið lægi ljóst fyrir. Haraldur hefði verið að ívilna flokksbróður, þótt Sigurður væri vissulega rómaður gáfumaður og mælskugarpur. En eftir að hafa lesið ritgerð Guðmundar Hálfdanarsonar finnst mér málið flóknara. Var Haraldur ef til vill líka að leiðrétta ranglæti, sem séra Sigurður hafði verið beittur? Klíkuskapur þrífst ekki aðeins í stjórnmálaflokkum, heldur líka á vinnustöðum. Og hverjir eiga að hafa veitingarvaldið: Fulltrúar þeirra, sem greiða launin, eða hinna, sem þiggja þau?

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is