Ólafur Þ. Hallgrímsson
Ólafur Þ. Hallgrímsson
Eftir Ólaf Þ. Hallgrímsson: "Það virðast sem sé helst vera spurningar tengdar landafræði, Íslandssögu og kristinfræði sem vilja vefjast fyrir þessu ágæta framhaldsskólafólki."

Eitt vinsælasta sjónvarpsefni síðustu ára er árleg spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, þar sem keppnislið þeirra leiða saman hesta sína og svara hinum erfiðustu spurningum um allt milli himins og jarðar. Stundum virðast þó þátttakendur flaska á spurningum sem manni finnst að hver sæmilega upplýstur framhaldsskólanemi ætti að kunna skil á, spurningum sem snerta okkar eigið land, staðhætti og sögu. Það virðast sem sé helst vera spurningar tengdar landafræði, Íslandssögu og kristinfræði sem vilja vefjast fyrir þessu ágæta framhaldsskólafólki. Hvað veldur?

Sem gamall kennari í grunnskóla man undirritaður þá tíð að landafræði og Íslandssaga voru kenndar sem algerlega sjálfstæðar greinar og skipuðu þar veglegan sess ásamt kristinfræði, sem alltaf hafði sinn fasta samastað í námsskránni.

Nám í þessum greinum myndaði ákveðna samfellu grunnskólaárin, sem miðaðist við aldur og þroska barnanna, þar sem eitt tók við af öðru í rökréttu framhaldi.

Lesgreinar voru þessi fög nefnd ásamt náttúrufræðigreinum, dýrafræði, grasafræði, eðlisfræði o.fl. Lesgreinum var gert hátt undir höfði og kenndar samkvæmt viðmiðunarstundaskrá. Ég tel að börn og unglingar hafi lært talsvert í þessum fögum og hlotið þar undirstöðu sem nýttist þeim til frekara náms.

Með nýrri námsskrá fyrir grunnskóla, þar sem tvær þessara greina, landafræði og saga, voru felldar inn í ramma svonefndar samfélagsfræði virðist mér hafi brugðið til hins verra, dregið hafi úr vægi þeirra og kennslan orðið einhvern veginn ómarkvissari. Bara það eitt að nefna þær ekki lengur sínum nöfnum hefur haft sín áhrif.

Mér er til efs að nemendur líti almennt sömu augum á þessar námsgreinar og áður var, að þær séu orðnar hálfgildings hornreka í skólakerfinu, þar sem önnur fög skipi æðri sess. Sama er að segja um kristinfræðina. Stöðugt hefur dregið úr kennslu í biblíusögum í grunnskólum; munu þeir nú ekki margir sem hafa kristinfræði yfirleitt á stundaskrá sinni og heyrir til undantekninga eftir að fermingarvetri er náð í 8. bekk. Kunnátta í þessum greinum hefur því dregist saman, það erum við farin að sjá.

Miklar breytingar hafa orðið á kennslu og námstilhögun í grunnskólum landsins síðustu áratugina með tilkomu netsins og tölvunnar, sem nú virðist orðin álíka algeng í skólum og penni og blýantur áður fyrr. Mörg spor hafa verið gengin til góðs og fjölbreytni aukist í námi.

T.d. mun kennsla í erlendum málum, ensku og dönsku, nú skilvirkari og meira miðuð við að skilja og tala en áður var. Mynd- og handmenntakennsla hefur líka breyst til batnaðar og tónlistarnám orðið mun almennara en áður.

Allt ætti það að vera jákvætt en umhugsunarefni er þó, þrátt fyrir stöðuga lengingu árlegs skólatíma, sem undirritaður setur spurningamerki við, að svo virðist sem tilfinningu barna fyrir móðurmálinu og lestrarkunnáttu hafi hrakað, eins og hefur raunar verið talsvert í umræðunni að undanförnu, þar sem rætt er um að gera þurfi átak til úrbóta. Allt hlýtur það að vera skólamönnum og forsvarsmönnum menntamála áhyggjuefni. Er kannski farið að leggja of mikla áherslu á erlend mál, áður en börnin eru orðin læs á eigið mál?

Við Íslendingar stærum okkur oft af því, einkum við hátíðleg tækifæri, að vera í fremstu röð hvað almenna menntun snertir, og vissulega má finna ýmis rök því til stuðnings.

En hvað er menntun? Getur sú manneskja talist menntuð sem þekkir lítt eða ekki sitt eigið land eða kann takmörkuð skil á sögu þjóðar sinnar og þeim kristna trúararfi sem menning okkar er ofin úr, jafnvel þótt hún sé með allt á hreinu, hvaða lönd hafa unnið Eurovision frá upphafi?

Það er nokkuð ljóst, af því sem hér hefur verið sagt, að einhver vöntun er orðin í skólakerfinu hvað kennslu fyrrnefndra námsgreina áhrærir, vöntun sem þarf að bæta úr. Þar er ekki við kennarastéttina að sakast, heldur þá sem mótað hafa stefnuna í skólamálum.

Því mun aldrei falla úr gildi að „sú þjóð, sem í gæfu og gengi vill búa á, á Guð sinn og land sitt skal trúa“.

Höf. er fyrrv. kennari og sóknarprestur.