Til eru á Netinu fróðleg skjöl um bankahrunið. Eitt þeirra er tilskipun (Supervisory Notice) frá breska fjármálaeftirlitinu, FSA, sem lögð var fyrir útibú Landsbankans í Lundúnum 3. október 2008. Hún var þá trúnaðarmál.

Til eru á Netinu fróðleg skjöl um bankahrunið. Eitt þeirra er tilskipun (Supervisory Notice) frá breska fjármálaeftirlitinu, FSA, sem lögð var fyrir útibú Landsbankans í Lundúnum 3. október 2008. Hún var þá trúnaðarmál. Í hana var þó vitnað í skýrslu bankastjóra Landsbankans um bankahrunið frá febrúar 2009, auk þess sem hún var meðal gagna, sem alþingismenn fengu í hendur frá breskri lögmannsstofu í desember 2009.

Samkvæmt tilskipuninni átti Landsbankaútibúið í Lundúnum þegar að setja 10% af óbundnum innstæðum á Icesave-reikningum í Bretlandi inn á bundinn reikning í Englandsbanka og meira síðar. Þetta fól í sér, eins og komið hefur fram, að Landsbankinn á Íslandi átti strax að færa 200 milljónir punda til Bretlands. En öðru hefur ekki verið veitt athygli: Jafnframt var lagt blátt bann við því að færa eitthvað af lausafé bankaútibúsins eða öðrum eignum þess í Bretlandi úr landi nema með þriggja daga fyrirvara og skriflegu leyfi fjármálaeftirlitsins. Þótt tilskipunin væri trúnaðarmál, var Barclays-banka skýrt frá henni, en hann sá um allar færslur á Icesave-reikningunum.

Þetta seinna atriði er stórmerkilegt. Það sýnir, svo að ekki verður um villst, að óþarfi var að beita hryðjuverkalögunum alræmdu gegn Íslandi, eins og gert var fimm dögum síðar, 8. október. Þeir Alistair Darling fjármálaráðherra og Gordon Brown forsætisráðherra réttlættu beitingu laganna með því að koma yrði í veg fyrir ólöglega fjármagnsflutninga frá Bretlandi til Íslands. En með tilskipuninni höfðu þeir þegar í höndum tæki, sem til þess dugði.

Þegar breskir embættismenn birtust síðan í útibúi Landsbankans í Lundúnum, varð þeim strax ljóst, að ekkert óeðlilegt átti sér þar stað. Því var ákveðið 12. október, að Englandsbanki veitti útibúinu 100 milljón punda lán til að bæta lausafjárstöðuna, á meðan það væri gert upp. Skömmu eftir að breska fjármálaráðuneytið setti íslenskt fyrirtæki á lista um hryðjuverkasamtök, veitti Englandsbanki því þannig stórlán!

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is