Kristín Halldórsdóttir fæddist 20. október 1939 í Varmahlíð, Reykjadal. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Mörk 14. júlí 2016.
Foreldrar hennar voru Halldóra Sigurjónsdóttir, matreiðslukennari og skólastjóri Húsmæðraskólans á Laugum, f. 26.6. 1905, d. 10.4. 1994, og Halldór Víglundsson, smiður og vitavörður, f. 11.6. 1911, d. 15.4. 1977. Systkini hennar: Halldór, f. 23.7. 1934, Svanhildur, f. 1.6. 1938. Hálfsystkini: Salvar, f. 17.2. 1944, d. 10.5. 1974, Hákon Örn, f. 30.9. 1945, d. 11.7. 2013, Ragnar Jóhann, f. 2.1. 1954, Björn, f. 22.9. 1955.
Kristín giftist þann 24. desember 1963 Jónasi Kristjánssyni, blaðamanni og ritstjóra, f. 5.2. 1940. Foreldrar hans voru Kristján Jónasson, f. 12.5. 1914, d. 27.7. 1947 og Anna Pétursdóttir, f. 11.6. 1914, d. 24.9. 1976. Börn þeirra eru: 1) Kristján, jarðfræðingur, f. 27.3. 1964, maki Katrín Harðardóttir, f. 24.1. 1963. Þeirra börn: a) Katla, f. 29.5. 1987, b) Kári, f. 10.10. 1996. 2) Pálmi, fréttamaður, f. 15.5. 1968, maki Sigrún Thorlacius, f. 10.2. 1968. Þeirra börn: a) Hera, f. 14.3. 1989, b) Auður, f. 12.11. 1997, c) Kristín, f. 7.3. 2002, d) Áslaug, f. 9.2. 2006. 3) Pétur, tölvunarfræðingur, f. 24.12. 1970, maki Miriam Marcela Jónasson, f. 17.2. 1982. Þeirra börn: a) Váli Amaru, f. 11.3. 2013, b) Brynhildur Yllari, f. 3.9. 2014. 4) Halldóra, flugmaður og einkaþjálfari, f. 7.1. 1974, fyrrverandi maki Ómar Örn Sigurðsson, f. 11.6. 1965. Þeirra börn: a) Sindri Snær, f. 9.4. 1998, Breki Hrafn, f. 14.11. 2000.
Kristín ólst upp í Varmahlíð, Reykjadal. Hún lauk stúdentsprófi frá MA 1960 og flutti síðan til Reykjavíkur, þar sem hún lauk kennaraprófi frá KÍ 1961. Hún var blaðamaður á Tímanum og síðar ritstjóri Vikunnar. Hún tók þátt í stofnun Kvennalistans og var þingmaður Reyknesinga 1983-1989. Hún var formaður ferðamálaráðs 1989-1993 og starfskona Kvennalistans 1989-1995. Aftur settist hún á þing og var þingmaður Reyknesinga 1995-1999. Hún tók síðan þátt í stofnun Vinstri grænna eftir að Kvennalistinn hætti störfum. Hún starfaði sem framkvæmdastjóri flokks og þingflokks Vinstri grænna 2001-2005. Umhverfismál og náttúruvernd voru henni hjartans mál og tók hún meðal annars virkan þátt í starfi Umhverfisvina, sem söfnuðu 45 þúsund undirskriftum til að þyrma Eyjabökkum. Eftir að hún hætti formlegum afskiptum af stjórnmálum helgaði hún sig hestamennsku, sem hafði lengi verið hennar helsta áhugamál.
Minningarathöfn fer fram í Lækningaminjasafninu á Seltjarnarnesi í dag, 26. júlí 2016, kl. 15.

Það er hásumar, sólin skín, vindurinn hlýr og gróður í fullum skrúða. Snemma morguns er dásamlegt að hjóla í vinnuna, kyrrð og friður yfir öllu. Fossvogurinn spegilsléttur, svanir á sundi og fuglar syngja. Seinni partinn dustar maður rykið af gömlum sumarkjól, situr úti í garði og nýtur síðdegissólar. Á slíkum dögum er maður þakklátur fyrir lífið og allt sem það hefur upp á að bjóða. En þar sem er sól fellur skuggi. Sumarnóttin var björt og aðeins tekið að skyggja í byrjun hundadaga, þegar elskuleg móðursystir mín Kristín Halldórsdóttir dó. Á einhvern hátt er það huggun að hún sem elskaði náttúruna og landið sitt fékk að deyja á þessum árstíma.

Það er auðvelt og gott að minnast Stínu frænku. Ég á bara góðar og fallegar minningar um hana. Stína var alltaf glöð og alltaf góð, hún gerði allt skemmtilegra og betra með nærveru sinni. Stína frænka og mamma voru bestu systur í heimi og ég sem á ekki systur öfundaði þær af sínu einstaka og kærleiksríka sambandi. Þær voru alltaf til staðar fyrir hvor aðra og hjálpuðust að þegar á þurfti að halda. Ég var hæglátt og forvitið barn, sem frekar en að leika við bróður minn og frændur kaus að hlusta á fullorðna fólkið ræða málin. Oft sat ég og hlustaði á samtöl þeirra systra, skyldi sumt en annað ekki. Reyndar skyldi ég oft meira en þær gerðu sér grein fyrir. Margt var mér auðvitað ekki ætlað að heyra og þá sagði mamma litlir pottar hafa stór eyru og eftir það tók samtalið skrítna beygju, málin rædd undir rós eða farið út í aðra sálma. Það var alltaf einhver kímni og gamansemi í samtölum þeirra systra, sem var ekki allra að skilja (þingeyskur húmör?). Eftir á að hyggja lærði ég heilmikið á lífið með því að hlusta á samtöl þeirra. Báðar þessar konar hafa verið mér fyrirmynd í lífinu.

Ég er lánsöm að hafa verið samferða Stínu frænku allt mitt líf. Mér finnst ég muna alveg frá því að ég var á öðru ári, hvað ég var glöð þegar hún kom í heimsókn. Stína assa sagði ég og þá var sett plata á fína Telefunk grammófóninn hans pabba og dansað við lagið Lítill fugl með Villa Vill. Svo voru Stína og Jónas kostgangara hjá mömmu og komu í hádegismat úr vinnunni á Tímanum. Pabbi kom líka úr sinni vinnu og þá var kátt á hjalla við eldhúsborðið í Stóragerði.

Mér fannst einhver ævintýrablær yfir Stínu frænku minni og ég var alltaf stolt af afrekum hennar og geta sagt hún er frænka mín. Hún var blaðamaður, ritstjóri Vikunnar, ein af stofnendum Kvennalistans, alþingiskona, framkvæmdastjóri Vinstri grænna og margt fleira tók hún sér fyrir hendur einkum á svið náttúruverndar. Stína frænka lagði sitt af mörkum til þessa að gera heiminn betri. Sjálf skrifaði hún um lífshlaup sitt á bloggsíðu sinn kristin.is.

Stína og Jónas voru dugleg að ferðast bæði innanlands og utan. Þau fóru í borgarferðir og til framandi landa á tímum sem utanlandsferðir voru ekki daglegt brauð. Stína var sérlegur aðstoðarmaður Jónasar við skrif á ferðabókum hans. Hestamennskan og ferðir um landið á hestbaki voru þeim mikið ánægjuefni. Hún var lagin við hesta og átti sinn uppáhalds hest Víking. Þann hest gátu ekki margir setið en Stína frænka gat það að mestu. Að sinna hestunum var eitt að því síðasta sem hún gat gert og naut.

Þetta milda sumar hér á höfuðborgarsvæðinu minnir á sæta sumardaga bernskunnar norður í Reykjadal, þar sem systurnar dvöldu í Varmahlíð á bernskuheimili sínu með börnin. Þaðan á ég margar mínar bestu minningar um Stínu frænku, það er huggun að leita í þann minningarsjóð. Þannig skrifaði Stína í minningargrein um föður minn:

Fjölskyldur okkar systranna hafa alltaf verið nánar. Börnin eru á svipuðum aldri og hafa haft margt og mikið saman að sælda. Hvert sumar höfum við dvalist meira og minna á æskustöðvunum fyrir norðan með börnin okkar og síðan fjölskyldur þeirra, og makarnir einnig í sínum fríum. Margs er að minnast frá þessum bernskusumrum barnanna okkar í sveitinni, ... Nánasta umhverfi býður upp á endalausa leiki og afþreyingu og stutt er að fara á marga merka staði. Minningin geymir róður á Mývatni, berjaferðir í Fellsskóg og Fossselsskóg, Saltvík og Ytra-Fjall og margar stuttar og langar ævintýraferðir á Volkswagen-bjöllunum okkar, sem komust flest, en áttu til hin ótrúlegustu uppátæki þegar sem lengst var til byggða. Ég sé þá enn fyrir mér, svilana, bograndi við þessi dyntóttu farartæki, meðan við systur eltumst við barnungana út um holt og móa.

Reyndar fannst okkur krökkunum stundum nóg um þessar ferðir. Við hefðum heldur kosið að sinna bústörfum upp í brekku eða vera í sólbaði sunnan við hús.

Mamma segir látnir lifa það eru orð að sönnu, látnir lifa í minni okkar, sem eftir lifum og í afkomendum sínum. Stína og Jónas eignuðust fjögur börn og tíu barnabörn hvert öðru mannvænlegra, þeirra missir er mestur og votta ég þeim samúð mína.

Að leiðarlokum er mér er efst í huga þakklæti yfir að hafa átt samleið með frænku minni, hún mun alltaf lifa með mér.


Arnhildur Arnaldsdóttir.