Sultir í Kelduhverfi Í Noregi er orðið sylt notað um engi við strönd eða rök engi við vatn. Til eru dæmi um merkinguna raka lægð, án sýnlegs afrennslis.
Sultir í Kelduhverfi Í Noregi er orðið sylt notað um engi við strönd eða rök engi við vatn. Til eru dæmi um merkinguna raka lægð, án sýnlegs afrennslis.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á leiðinni norður Kaldadal í sumarfríinu gleymdi ég Biskupsbrekkunni þar sem Jón biskup Vídalín varð bráðkvaddur fyrir nær þrjú hundruð árum – en hafði kveðið áður en hann lagði upp frá Skálholti: „Kvíði eg fyrir Kaldadal, / kvölda tekur...

Á leiðinni norður Kaldadal í sumarfríinu gleymdi ég Biskupsbrekkunni þar sem Jón biskup Vídalín varð bráðkvaddur fyrir nær þrjú hundruð árum – en hafði kveðið áður en hann lagði upp frá Skálholti: „Kvíði eg fyrir Kaldadal, / kvölda tekur núna.“ Ég var of upptekinn af hendingum Jónasar Hallgrímssonar um háan Skjaldbreið, „Fanna skautar faldi háum / fjallið, allra hæða val“, og af viðleitni minni við að koma fróðleiksmolum um hraunið á Þingvöllum í gegnum dunreiðina í aftursætinu. Nokkrum dögum síðar bjargaði Jónas mér frá þungum þönkum í Bakkaselsbrekkunni um að hundrað ár væru liðin frá því að fjölskylda Tryggva Emilssonar fluttist á milli Bakkasels og Gils í góðu sleðafæri í júníbyrjun! Á Gili tók ekki betra við eftir „ár vonbrigða og dauða, ár harðinda og heyleysis“ í Bakkaseli. Jónas leysti brátt úr þessum vanda með því að benda á æskustöðvar sínar á Hrauni í Öxnadal: „Þar sem háir hólar / hálfan dalinn fylla“ – sem Hannes Hafstein prjónaði við: „lék í ljósi sólar, / lærði hörpu að stilla“ – áður en Jón á Bægisá, allar hryssur Hörgárdals og djákninn á Myrká gerðu vart við sig í hugskotinu. Í sundlauginni á Þelamörk er vald Jónasar á náttúruskynjun okkar tjáð með því að letra ljóð hans á skjólglerið við laugina þannig að sundgestir sjá landið bókstaflega í gegnum ljóðin.

Ljóð og sögur fléttast saman við landslagið sem „yrði / lítils virði, / ef það héti ekki neitt“ eins og Tómas orti um. Þegar við komum austur í Kelduhverfi reikaði hugurinn þó fyrst til allrar villtu sjóbleikjunnar innan um fiskeldið í Auðbjargarstaðalóninu en svo sáum við sögulaust skilti við veginn sem benti út í móana á bæinn Sultir . Á Sultum hafði okkur verið boðið í dýrindissúpu með villtri lónsbleikju en þangað er löng heimreið uns komið er að gróðursælli lægð í landinu, sem er umlukin hvelfdum klettahömrum. Mér datt í hug hvort í örnefninu væri falið írska sult -orðið um sælu, gleði og gnótt frekar en það sem lesa má um á vísindavefnum og í orðabókinni að sult merki „vik eða hvilft í landslagi“ (sem byggist væntanlega á þeim skilningi að klettabogarnir á Sultum séu sultir ). Mér varð hugsað til þess að seinni kona Böðólfs, föður Skeggja landnámsmanns í Kelduhverfi, var Þorbjörg hólmasól, fyrsti innfæddi Eyfirðingurinn og barnabarnabarn Kjarvals Írakonungs, og tregaði að saga Böðmóðs gerpis (föðurbróður Skeggja) og Grímólfs af því þegar Flosi Eiríksson varð afturreka í Öxarfjörð á skipinu Trékylli skyldi vera glötuð. Ég setti mig því í samband við Svavar Sigmundsson örnefnafræðing og hann sagði mér að Halldór Halldórsson hefði bent á hliðstæður í Noregi þar sem sylt væri notað um engi við strönd eða rök engi við vatn, og Svavar dró fram fleiri dæmi um merkinguna raka lægð, án sýnilegs afrennslis . Þar með urðu ímynduð írsk áhrif mín á einkennileg örnefni í Kelduhverfi að engu.

Gísli Sigurðsson gislisi@hi.is