Á Alicante Oscar Bjarnason og Erla Rán ásamt börnunum þeirra.
Á Alicante Oscar Bjarnason og Erla Rán ásamt börnunum þeirra.
Oscar Bjarnason vörumerkjahönnuður er fertugur í dag.

Oscar Bjarnason vörumerkjahönnuður er fertugur í dag. Hann hefur gert fjölda merkja sem allir þekkja fyrir fyrirtæki og stofnarnir eins og N1, Borg brugghús, OZ, Alvogen, Alvotech, TripCreator, A4, Íslandsstofu, Sjúkratryggingar Íslands, Einkaleyfastofu, Hagstofu Íslands og hlaut til að mynda alþjóðleg verðlaun í fyrra sem hann gerði fyrir Innnes.

„Ég er sjálfstætt starfandi og tek að mér verkefni fyrir fyrirtæki beint en einnig fyrir auglýsingastofur sem verktaki, hvort sem um er að ræða grafíska hönnun, merkjahönnun eða ljósmyndum. Ég er núna t.d. að vinna að tveimur frímerkjum sem koma út á næsta ári, en ég hef búið til einhver 12-13 frímerki fyrir Íslandspóst.“

Oscar er sjálfmenntaður í faginu en að teikna hefur verið áhugamál hjá honum frá því að hann var krakki. „Ég lærði prentsmíði í Iðnskólanum en byrjaði að vinna á auglýsingastofu og fór út í grafíska hönnun þar og kláraði aldrei námið. Ég hef síðan unnið sjálfstætt í 15 ár.“

Oscar er staddur á Alicante með fjölskyldunni í tilefni afmælisins, en hann ferðast einnig innanlands og tekur myndir. „Að ferðast og taka myndir er aðaláhugamálið en það er líka vinnan. Í sumar er ég búinn að fara um alla Vestfirði fram og til baka og fór upp á hálendið, í kringum Landmannalaugar. Ég fór einnig til Færeyja í lok maí með konunni að mynda fyrir myndabankann og sjálfan mig.“

Eiginkona Oscars er Erla Rán Jóhannsdóttir, en hún er að ljúka við lokaritgerðina í meistaranámi í matvælafræði. Dóttir þeirra er Sóley, 3 ára, en fyrir átti Oscar Mána Frey, 12 ára, og Sögu Steindóru, 9 ára.