Þórir Atli Guðmundsson fæddist 20. október 1933. Hann lést 9. júlí 2016. Þórir Atli var jarðsunginn 20. júlí 2016.

Elsku afi, nú ert þú farinn til ömmu sem þú saknaðir svo sárt, aðeins þremur árum á eftir henni. Æ, þetta er svo sárt. Margar minningar ryðja sér til rúms meðan tárin fylla augun og gæti ég fyllt heila bók með góðum minningum um þig, elsku afi.

Besta minningin mín er hvað það var gott að skríða upp í þinn mjúka faðm sem alltaf tók á móti manni og skeggið sem kitlaði hálsinn, þar var sko gott að vera alveg sama hvað maður varð gamall.

Laugarvatn kemur upp í huga mér þegar ég rifja upp gömlu góðu dagana með þér og ömmu. Þar bjuggum við næstum því hlið við hlið og var gott að geta labbað yfir til afa og dundað með honum í búðinni. Svo eru náttúrulega minningarnar frá bensínstöðinni beint á móti KÁ á Selfossi fyrir „nokkrum“ árum. Þegar ég var í pössun hjá þér og ömmu á Selfossi og ég labbaði til þín í bensínstöðina til að segja „hæ“ og fékk alltaf prins póló í laumi.

Þú varst alltaf að hnýta flugur því veiði var þitt áhugamál. Ég man hvað það var gaman að leika sér inni í herberginu þínu í Úthaganum og þykjast hnýta flugur og ég tala nú ekki um þegar þú kenndir mér svo að hnýta mína eigin flugu. Þú veiddir meira að segja á fluguna sem ég gerði fyrir þig, elsku afi, þótt hún hafi ekki verið nein aflakló. Svo var komið að því að flytja á Eyrarbakka í litla fallega húsið ykkar. Þar áttuð þið amma góð ár saman og við með ykkur. Barnabarnabörnin komu svo loksins og voru þau litlir sólargeislar í þínu lífi. Þau eru nú orðin sjö talsins og var gaman að sjá hvað þú hafðir gaman af því að hafa þau í fanginu eins og okkur barnabörnin þín. Þú komst í öll afmæli barnanna minna og fékkst þú alltaf gott knús frá öllum hér þegar þú mættir, það var bara ekki annað hægt en að knúsa þig, þennan mjúka góða faðm.

Síðustu ár hefur þú farið mikið á húsbílnum þínum að veiða, sem var nú þitt uppáhald. Oft veiddir þú lax sem síðan rataði í munn okkar afkomenda þinna, enda besti fiskur sem veiddur hefur verið. Þú fékkst að fara við veiði í húsbílnum þínum, elsku afi. Nú getið þið amma dansað saman og veitt alla þá fiska sem ykkur langar í, saman. Elsku afi, takk fyrir æðislegar minningar sem aldrei gleymast. Þín er sárt saknað.

Hversvegna er leiknum lokið?

Ég leita en finn ekki svar.

Ég finn hjá mér þörf til að þakka

þetta sem eitt sinn var.

(Starri í Garði)

Ingibjörg Aðalsteinsdóttir.