[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Stefán E. Stefánsson ses@mbl.

Baksvið

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Innra eftirlit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IEO) hefur gefið út skýrslu sem fjallar um starfsemi sjóðsins í tengslum við þær aðgerðir sem sjóðurinn lagði út í til bjargar efnahag Grikklands, Portúgals og Írlands á árunum 2010 og 2011. Í henni er dregin upp dökk mynd af starfseminni og bent á að starfsmenn sjóðsins hafi afvegaleitt stjórn hans, ekki síst þegar kom að ákvarðanatöku um fjárhagslegan stuðning við Grikkland. Þá er bent á að viðurkenndum verkferlum hafi ekki verið fylgt, ýmis mikilvæg gögn séu týnd og að ekki sé ljóst í öllum tilvikum hver bar í raun ábyrgð á afdrifaríkum ákvörðunum í nafni sjóðsins.

Pólitískur og fjárhagslegur þrýstingur hafði áhrif

IEO bendir á að pólitísk öfl innan Evrópu hafi haft óeðlileg áhrif á stefnumótun og ákvarðanir sjóðsins. Í skýrslunni segir meðal annars: „Í samtölum, sem IEO átti, ásamt ákveðnum skjölum innan úr sjóðnum er gefið til kynna að það sem hentað hafi pólitískt í löndum lánveitenda hafi vegið þungt í mati starfsliðs framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og að starfslið AGS hafi á tímum fundið fyrir þrýstingi um að sætta sig við niðurstöðu sem ekki var ákjósanleg.“

Þá er einnig bent á að AGS hafi ekki komið eitt að aðgerðunum heldur hafi þær verið leiddar af þríeykinu, sem samanstendur af AGS, framkvæmdastjórn ESB og Seðlabanka Evrópu. Sú staðreynd og einnig það að framkvæmdastjórnin hafi verið málsvari evruríkjanna, hafi valdið því að starfslið AGS hafi verið undir pólitískum þrýstingi við mat og greiningu á stöðu mála hverju sinni.

Stærstur hluti lánveitinga AGS

Meðal þess sem bent er á í skýrslunni er sú staðreynd að á árunum 2011 til 2014, rann 80% alls þess lánsfjármagns sem AGS veitti til aðildarríkja sinna til Grikklands, Portúgals og Írlands. Hvert og eitt ríkjanna fékk þannig að láni tuttugufalt meira en viðmið sjóðsins gera ráð fyrir að þau geti notið samkvæmt kvóta.

Aðild að sjóðnum eiga 189 ríki vítt og breitt um heiminn og mörg þeirra eru í hópi fátækustu og vanþróuðustu ríkja veraldar. Í kjölfar útgáfu skýrslunnar hefur gagnrýni risið vegna framgöngu sjóðsins og hefur hún nú valdið nokkrum titringi meðal þeirra sem segja að hún sýni að AGS fari ólíkum höndum um Evrópuríki og þau lönd sem tilheyri öðrum og fátækari svæðum heimsins.

Höfundar skýrslunnar finna mjög að því að erfitt hafi í mörgum tilvikum reynst að fá aðgang að gögnum er vörðuðu aðkomu AGS að málefnum ríkjanna þriggja. Þannig hafi komið í ljós að mörg gögn hafi verið unnin og vistuð utan samþykktra ferla og í ákveðnum tilvikum varðveitt í einkaskjölum starfsmanna. Þá hafi gögn er vörðuðu viðkvæm málefni í mörgum tilvikum ekki fundist. Þá hafi þurft sérstakan atbeina Christine Lagarde, framkvæmdastjóra AGS, til að fá önnur skjöl afhent.

Óráðsían með fyrrnefnd gögn veldur því að skýrsluhöfundar treysta sér ekki í öllum tilvikum til að leggja mat á hver hafi tekið mikilvægar ákvarðanir í tilteknum málum né heldur á hvaða gögnum viðkomandi ákvarðanir byggðu.

Tillögur til úrbóta

Í skýrslunni eru tíundaðar þær aðgerðir sem höfundar telja rétt að AGS grípi til í því skyni að þau mistök sem gerð hafa verið við úrlausn mála innan Evrusvæðisins endurtaki sig ekki. Fela tillögurnar meðal annars í sér að stjórn sjóðsins og stjórnendur móti verkferla sem dragi úr pólitískum áhrifum á tæknilega greiningarvinnu á vettvangi hans. Þá er einnig lögð sérstök áhersla á að forsvarsmenn sjóðsins tryggi að þeir verkferlar sem þar eru við lýði sé fylgt og með því sé tryggt að yfirlýstri stefnu sjóðsins sé fylgt og ekki breytt án þess að vönduð umræða fari fram um viðkomandi breytingartillögu.