[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Böðvar Guðjónsson sem leikið hefur með Fjölni undanfarin ár hefur verið lánaður í uppeldisfélag sitt, ÍA, en lánssamningurinn gildir út yfirstandandi leiktíð.

Knattspyrnumaðurinn Guðmundur Böðvar Guðjónsson sem leikið hefur með Fjölni undanfarin ár hefur verið lánaður í uppeldisfélag sitt, ÍA, en lánssamningurinn gildir út yfirstandandi leiktíð. Guðmundur Böðvar hefur leikið 165 leiki fyrir ÍA og Fjölni og skorað í þeim leikjum fjögur mörk. Fjölnir og ÍA heyja nú harða baráttu um sæti í Evrópukeppni.

Þýski kylfingurinn Stephan Jaeger varð í fyrradag fyrstur til þess að klára hring á Web.com-mótaröðinni á 58 höggum, en Jaeger lék hringinn á 12 undir pari. Web.com-mótaröðin er B-deild PGA-mótaraðarinnar sem einnig hófst í gær. Jaeger er í 102. sæti á peningalista Web.com-mótaraðarinnar í ár, en hann hefur aldrei verið á meðal tíu efstu kylfinga í móti á mótaröðinni. Jaeger hafði hins vegar leikið hring í mótaröðinni í Dóminíska lýðveldinu á 62 höggum nýlega.

Leiknir Reykjavík, sem leikur í Inkasso-deild karla í knattspyrnu, hefur fengið Tómas Óla Garðarsson, sem leikið hefur með Val í Pepsi-deild karla undanfarið, að láni út yfirstandandi leiktíð. Tómas Óli er alinn upp hjá Breiðabliki og lék síðan 71 leik með meistaraflokki félagsins. Ingiberg Ólafur Jónsson sem leikið hefur í hjarta varnarinnar hjá Fram undanfarin tvö er genginn til liðs við Fjarðabyggð. Þetta kom fram á Fótbolta.net.

Axel Stefánsson hefur valið sinn fyrsta landsliðshóp síðan hann var ráðinn sem þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta. Hulda Dagsdóttir , Lovísa Thompson og Katrín Ósk Magnúsdóttir eru einu leikmennirnir í hópnum sem ekki hafa enn leikið A-landsleik. Allan hópinn má sjá á mbl.is.

Þýski markvörðurinn Loris Karius , sem nýverið gekk til liðs við enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool, er handarbrotinn og leikur því ekki með liðinu næstu vikurnar. Hinn 22 ára Karius meiddist í vináttuleik Liverpool og Chelsea á miðvikudag og er farinn til Englands þar sem hann mun gangast undir uppskurð. Karius kom til Liverpool frá þýska úrvalsdeildarliðinu Mainz en hann kostaði Liverpool 4,7 milljónir punda.