Lykilmaður Haukakonan Sylvía Rún Hálfdanardóttir lék mjög vel í gær.
Lykilmaður Haukakonan Sylvía Rún Hálfdanardóttir lék mjög vel í gær. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
KÖRFUBOLTI Benedikt Grétarsson bgretarsson@mbl.is Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik skipað leikmönnum 18 ára og yngri komst í gær í undanúrslit í B-deild Evrópumótsins eftir 85:68 sigur gegn Hvíta-Rússlandi í átta liða úrslitum.

KÖRFUBOLTI

Benedikt Grétarsson

bgretarsson@mbl.is Íslenska kvennalandsliðið í körfuknattleik skipað leikmönnum 18 ára og yngri komst í gær í undanúrslit í B-deild Evrópumótsins eftir 85:68 sigur gegn Hvíta-Rússlandi í átta liða úrslitum. Evrópumótið er haldið í Sarajevo í Bosníu-Hersegóvínu.

Þessi frábæri árangur er sá besti sem kvennalandslið í körfuknattleik hefur náð í þessum aldursflokki.

Emilía Ósk Gunnarsdóttir, leikmaður Keflavíkur, var stigahæst hjá íslenska liðinu með 20 stig. Sylvía Rún Hálfdánardóttir, leikmaður deildarmeistara Hauka, kom næst með 15 stig, en hún tók þar að auki níu fráköst og stal sex boltum. Thelma Dís Ágústsdóttir, leikmaður Keflavíkur, kom þar á eftir með 14 stig.

Skotnýting íslensku stelpnanna var til fyrirmyndar en þær nýttu 23 af 39 tveggja stiga skotum sínum í leiknum.

Ísland byrjaði vel í leiknum og hafði 42:35 forystu að loknum fyrri hálfleik. Hvít-Rússar voru búnir að minnka muninn í fimm stig þegar fjórði leikhluti hófst en þann leikhluta vann Ísland 25:13 og leikinn með 17 stiga mun. Ísland mætir Grikklandi í undanúrslitum mótsins á morgun, en liðið sem ber sigur úr býtum í þeim leik tryggir sér sæti í A-deild næst þegar mótið verður haldið. Grikkland lagði Þýskaland að velli í átta liða úrslitunum.