Páll Björnsson
Páll Björnsson
Skúli Halldórsson sh@mbl.is Ekki er nægu fé veitt til reksturs lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Þetta segir lögreglustjóri umdæmisins, Páll Björnsson, í samtali við Morgunblaðið.

Skúli Halldórsson

sh@mbl.is

Ekki er nægu fé veitt til reksturs lögreglunnar á Norðurlandi vestra. Þetta segir lögreglustjóri umdæmisins, Páll Björnsson, í samtali við Morgunblaðið. Páll segir að í kjölfar mikils niðurskurðar eftir hrun bankanna hafi þrýstingur skapast vegna ónógrar löggæslu.

„Þá var fundið upp á nýrri tilhögun í fjárveitingu, sem gengur út á að ráðuneytið fær hálfan milljarð króna og er sjálft látið úthluta þeirri fjárhæð á milli embættanna. Þetta hefur verið gert í fjárlögum síðustu þriggja ára,“ segir Páll.

Í fyrsta sinnið hafi öllum lögreglustjórum verið sagt að fjárveitingin yrði öll að renna í aukin laun, það er til að auka vinnu lögreglunnar.

„Þar af leiðandi voru ráðnir lögreglumenn út á þetta, en þar sem hver króna fór í þennan lið þá hefur sjálfur rekstrarvandinn haldið áfram. Enda er margt annað sem þarf að gera og það kostar að hafa umgjörð í kringum lögreglumennina. Menn hafa þurft að leggja allan peninginn í að kaupa meiri vinnu og ráða fleiri lögreglumenn. Á sama tíma þarf á hinn bóginn að taka sjálfan reksturinn og hysja hann upp.“

„Hin og þessi hagræðing“

Páll tekur þó fram að með þessu sé hann ekki að lýsa einhvers konar vonlausri stöðu.

„En þetta er samt þannig að þarna vantar töluvert upp á. Þetta er svolítil skekkja sem hefur verið undanfarin ár. Og hún háir okkur.“

Páll segir sameiningu lögregluembætta í ársbyrjun 2015 hafa haft í för með sér aukinn akstur á milli lögreglustöðva gömlu embættanna.

„Það var hin og þessi hagræðing sem átti að fylgja sameiningunni en þá má kannski um hana deila. Hagræðingin er að minnsta kosti ekki mikil, sérstaklega fjárhagslega. Við höfum ekki séð að hún hafi orðið. Og ég er heldur ekki viss um að hún hafi átt að verða. Ég held að hugmyndir manna hafi verið að sameiningu myndi fylgja skilvirkari löggæsla,“ segir Páll.

Aðspurður segist hann þá hvorki geta fullyrt að löggæsla í umdæminu hafi veikst né styrkst við sameininguna.