Margrét Katrín Valdimarsdóttir fæddist 6. júní 1926. Hún lést 10. júlí 2016.

Útför Margrétar Katrínar var 21. júlí 2016.

Það er með sorg í hjarta sem ég skrifa þessi orð til að minnast hennar móður minnar sem var svo mikill harðjaxl og dugnaðarforkur en samt svo undurblíð og umhyggjusöm.

Mamma var mjög stolt af því að vera húsmóðir. Hún sinnti því starfi vel og móðgaðist sáran þegar sagt var að þessi eða hin konan væri „bara“ húsmóðir. Þegar mamma gifti sig þótti eðlilegt að hún hætti í hárgreiðslunáminu. Hlutverk kvenna var að sinna heimili, eiginmanni og börnum. Það var líka alveg full vinna á þeim árum að vera húsmóðir. Allur matur var eldaður frá grunni, þrisvar sinnum á dag og oft tvíréttað, allur þvottur var hengdur út til þerris og straujaður áður en hann fór aftur í skúffur og skápa, börnin áttu að vera hrein og kurteis og heimilið allt skínandi og stífbónað. Mamma lét þó ekki þar við sitja heldur annaðist hún einnig allt viðhald á húsinu og hannaði og ræktaði upp garðinn sinn.

Mamma var líka mikil handavinnukona. Allt lék í höndum hennar, hún prjónaði, bróderaði og mundaði saumavélina. Hún sneið og saumaði kjóla, buxur, blússur og jakka, hvað sem okkur langaði í. Alltaf fékk maður nýtt dress fyrir jólin og annað á 17. júní og eitthvað fleira þess á milli líka. Ég man eftir því eitt sinn þegar ég var unglingur og var að fara í útilegu að ég rétti henni með stuttum fyrirvara lopa og uppskrift að peysu og bað hana vinsamlegast að prjóna hana fyrir næstu helgi. Ekkert mál. Því var reddað eins og öllu öðru.

Alla tíð voru börn í kringum mömmu. Hún var mikil barnagæla og það var enginn sem hafði eins gott vald á að hugga annars óhuggandi ungbarn. Þegar hún var búin að koma sínum fjórum börnum á legg, þá komu barnabörnin, hvert á fætur öðru, 15 talsins, á um það bil 25 árum og hún tók meira eða minna þátt í uppeldi þeirra allra. Hún var okkar einkavöggustofa og brúaði bilið þar sem fæðingarorlofi sleppti þar til leikskólar tóku við. Auk þess var hún alltaf tilbúin að passa ef við þurftum af einhverjum ástæðum að bregða okkur af bæ.

Mamma var mjög listræn. Hún naut þess að hlusta á góða tónlist og gat spilað bæði á píanó og gítar. Sérstaklega nutu börnin þess að sitja með henni þegar hún spilaði og söng með þeim.

Hraustari manneskju hef ég aldrei þekkt. Það voru því mikil viðbrigði þegar fyrsta áfallið kom fyrir um fjórum árum síðan og mamma varð skyndilega ósjálfbjarga. Hún tók samt veikindum sínum af miklu æðruleysi, aldrei var hægt að sjá á henni óþolinmæði eða vonbrigði og aldrei kvartaði hún. Yndislegu starfsfólki Hrafnistu í Hafnarfirði þakka ég þá natni, umhyggju og virðingu sem þið sýnduð móður minni síðustu árin, þegar þrek hennar sjálfrar var uppurið.

Elsku mamma mín, nú er komið að kveðjustund. Ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og mína. Ég þakka þér fyrir að vera alltaf til staðar fyrir okkur og fyrir samferðina í gegnum lífið, en nú skilur leiðir. Ég er viss um að hvar sem þú nú ert, þá er þar örugglega glampandi sólskin, hlæjandi börn, litrík blóm og hugljúf tónlist.

Þín

Ólafía (Óla).

Margrét tengdamóðir mín var fædd og uppalin í Ytri-Njarðvík. Foreldrar Margrétar voru bæði af Snæfellsnesinu, Sigríður móðir hennar úr Stykkishólmi, en Valdimar faðir hennar úr Dölunum. Eiginmaður Margrétar var Guðjón Steingrímsson hæstaréttarlögmaður. Börnin urðu fjögur; Steingrímur, Valdís Birna, Þórdís og Ólafía Sigríður. Eftir að Margrét varð ekkja aðeins 62 ára gömul hélt hún heimili sem fyrr á Ölduslóð 44, þar til hún fluttist að Hrafnistu í Hafnarfirði fyrir tæpum þremur árum.

Margrét og Guðjón tóku mér ákaflega vel þegar ég kom inn í fjölskylduna. Fyrstu búskaparár okkar Þórdísar bjuggum við í kjallaraíbúð hjá þeim. Það voru góðir tímar. Börnin okkar hændust að ömmu sinni sem var hvetjandi og hjálpsöm og þau tengdust henni sterkum böndum. Margrét var listræn, málaði á postulín, var með vefstól á heimilinu og óf fallegan vefnað. En fyrst og fremst var hún músíkölsk og hafði sterka ástríðu fyrir tónlist. Hún spilaði á gítar og píanó og söng m.a. í Pólýfónkórnum. Áhugi hennar á tónlistarsviðinu spannaði allt rófið. Klassísk tónlist, nútímatónlist, dægurtónlist, allt. Þau Guðjón voru dugleg að sækja tónleika og leikhús. Eftir lát Guðjóns hélt Margrét uppteknum hætti. Tónlist var henni í blóð borin og slíkt losnar maður ekki við. Það var henni ánægjuefni að barnabörnin sóttu sér tónlistarmenntun og hún mætti á tónfundi og tónleika hjá þeim og sýndi þannig hug sinn í verki.

Þau Margrét og Guðjón byggðu sér sumarbústað í landi Svarfhóls í Svínadal. Þar voru þau alltaf er stundir gáfust. Við Þórdís og börnin nutum þar gestrisni þeirra. Þá eru líka minnisstæðar utanlandsferðirnar. Fyrst til Spánar með þeim hjónum og síðar ferðalög bæði innanlands og utan með Margréti eftir að Guðjón lést. Með henni fórum við tvisvar til Þýskalands, til Edinborgar og til London að samfagna þegar Margrét dóttir okkar útskrifaðist þaðan úr tónlistarnámi.

Fjölskylda mín og Þórdísar var alla tíð í miklu samneyti við Margréti. Hún heimsótti okkur tíðum og við hana, við borðuðum saman, fórum á tónleika, í ferðalög og fleira.

Við Margrét deildum ekki stjórnmálaskoðunum, og stundum var tekist á. Hún hafði sterkar skoðanir, trú sjálfstæðisstefnunni, en ég á hinum kantinum. En það kom ekki í veg fyrir væntumþykju okkar hvort til annars, enda fjölskylduböndin sterk og þau gildi sem þar ríktu voru hafin hátt yfir þras hversdagsins.

Margrét tók ung bílpróf og fór allra sinna ferða. Fór með vinkonum í ferðalög og ók meira að segja hringinn kringum landið á áttræðisaldri.

En fyrst og fremst var Margrét góð manneskja, glaðlynd og áhugasöm um fjölskyldur barna sinna, sífellt vakandi yfir velferð þeirra, kærleiksrík og óþreytandi í að sinna þeim sem best hún gat.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Við Þórdís og fjölskylda okkar kveðjum Margréti með söknuði og þökkum kærleiksríka vegferð.

Sigurður Björgvinsson.

Upphaf, meginmál og niðurlag. Þannig er víst ævi okkar allra þótt kaflarnir séu stundum í vitlausum hlutföllum en amma fékk öll árin sem við óskum okkur flest. 90 ára í júní, heilinn farinn að bilast eitthvað en augnaráðið skýrt eins og það hafði alltaf verið. Viðkvæm en hörð af sér með hökuna upp. Háir hælar, pils og nælon, krosslagðir fætur og elegant. Málaði húsið, keyrði bíl, eldaði eins og Michelin-kokkur. Stóð fast á sínu, stundum svo fast að aðrir höfðu aðeins um það eitt að velja að gefa eftir en sanngirni og heiðarleiki voru í forgrunni og tryggðin var útgangspunktur í álitsgjöf. Fólk var ekki mikils virði ef það lagði það ekki á sig að standa við gefin loforð.

Hún var næm og fínni blæbrigði tilverunnar skildi hún betur en flestir. Tónlist, vefnaður, postulínsmálning, ballett. Hún hafði unun af þessu öllu. Vildi hafa listina fallega og sanna og helst þannig að hún lyfti manni upp til himna.

Burberry-frakki og spæjarahattur. Svartur minkapels og skinnhúfa. Klassísk tónlist á vínylplötum, gítar og píanetta í stofunni. Pabbi hennar útgerðarmaður í Keflavík og mamma hennar af efnafólki í Stykkishólmi en beið í festum í sjö ár meðan eiginmaðurinn tilvonandi, kominn úr fátækt, safnaði peningum og byggði hús. Á heimilinu voru vinnukonur og vinnumenn en börnin tóku þátt og enginn var merkilegri en annar. 18 ára hljóp amma í skarðið fyrir skipskokk og með hásetahlut eftir túrinn var hún líklega hæst launaða kona landsins.

Afi minn, Guðjón Steingrímsson hæstaréttarlögmaður, var lengi vel formaður Lögmannafélags Íslands og þau ferðuðust víða í tengslum við hans störf. Bæði nutu þess að sjá heiminn og setja hlutina í stærra samhengi en heimilið og börnin voru í forgrunni og próf frá Húsmæðraskóla Reykjavíkur bjó hana vel undir ævistarfið.

Amma var hógvær og vildi ekki þvælast fyrir neinum en stoltið gat aftur á móti þvælst fyrir henni sjálfri. Stundum var staðið upp í bíó þegar fimm mínútur voru liðnar af myndinni ef upphafsatriðið gaf til kynna að áframhaldandi seta myndi veðsetja mannorðið. Þegar Bítlarnir voru sýndir í bíó í Reykjavík mætti hún aftur á móti á sýningu með silkislæðu um höfuðið og sólgleraugu. Tvær vinkonur saman sem nutu tónlistar í hvaða formi sem var og vildu kanna málið áður frekar en að láta aðra dæma fyrir sig.

Í barnabörnunum rættust margir þeirra drauma sem hún sjálf hafði lagt á hilluna eins og flestar konur af hennar kynslóð gerðu um leið og þær gengu í hjónaband en hún var laus við eftirsjá og fann hæfileikunum nýja farvegi. Fólkið sitt elskaði hún meira en lífið sjálft og samveran með fjölskyldunni var það sem skipti hana mestu máli alla tíð.

Upphaf, miðja og niðurlag renna saman í eitt. Amma var södd lífdaga þegar komið var að leiðarlokum en með minningunum verður hún alltaf og eilíflega hluti af tilverunni. Stórkostleg manneskja, örlát, gjafmild, skemmtileg og kát.

Fyrir allt saman, ástina, tímann og atlætið frá upphafi og til enda verð ég alltaf og ævinlega þakklát.

Hvíl í friði elsku amma.

Margrét Júlíana

Sigurðardóttir.