Í skýrslunni kemur fram að innan sjóðsins hafi gagnrýni á evrusamstarfið verið ýtt til hliðar og að starfið þar hafi á stundum einkennst af „sjálfsánægju“ sem aftur hafi leitt til þess að menn hundsuðu hættumerki og þau óveðursský sem...

Í skýrslunni kemur fram að innan sjóðsins hafi gagnrýni á evrusamstarfið verið ýtt til hliðar og að starfið þar hafi á stundum einkennst af „sjálfsánægju“ sem aftur hafi leitt til þess að menn hundsuðu hættumerki og þau óveðursský sem hrönnuðust upp yfir efnahag sumra þeirra ríkja sem aðild eiga að evrusamstarfinu. Þá hafi blindan gagnvart mögulegum veikleikum í efnahagskerfi Evrópu orðið þess valdandi að engar áætlanir voru til hjá sjóðnum sem gerðu honum kleift að takast á við hremmingar á borð við þær sem lönd eins og Grikkland lentu í.

Þá segir: „AGS var jákvætt á heilbrigði bankakerfis Evrópu og gæði bankaeftirlits á meðal evruríkjanna allt þar til eftir að hin alþjóðlega fjármálakreppa skall á um mitt ár 2007. Mistökin birtust helst í því hversu auðtrúa AGS var gagnvart friðþægingarorðum yfirvalda í viðkomandi ríkjum og á vettvangi evrunnar.“

Þá skeri í augun sú staðreynd að í eftirliti með ríkjum innan evrusamstarfsins hafi AGS yfirsést hættan á því að fjármagnsflæði myndi stöðvast innan evrusvæðisins af völdum þess ójafnvægis sem tók að myndast á efnahagslegri stöðu ríkjanna.