Gleði Gifting er oftast gleðistund og áhugavert að flest þeirra sem sjá um athöfnina vilja meina að íburður og glamúr sé minni en áður var.
Gleði Gifting er oftast gleðistund og áhugavert að flest þeirra sem sjá um athöfnina vilja meina að íburður og glamúr sé minni en áður var. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Börkur Gunnarsson borkur@mbl.is „Jú, það er þannig, það er mest um giftingar yfir sumarið. Ég sjálfur er að sjá um einar, tvær, þrjár á laugardögum. Þetta er aðallega um helgar. En svo eru sumar giftingar á virkum dögum.

Börkur Gunnarsson

borkur@mbl.is

„Jú, það er þannig, það er mest um giftingar yfir sumarið. Ég sjálfur er að sjá um einar, tvær, þrjár á laugardögum. Þetta er aðallega um helgar. En svo eru sumar giftingar á virkum dögum. Þá er kannski miðað við upphaf þeirra kynna eða þegar þau hittust fyrst og þess háttar. Oftast eitthvað svona persónulegt,“ segir Hjálmar Jónsson dómkirkjuprestur.

„Ég er að gifta út um allt yfir sumarið. Ég hef í gegnum tíðina gift á Þingvöllum, í Heiðmörk og öðrum fallegum stöðum, bæði á helgum stöðum eða stöðum sem eru fólkinu heilagir, heimaslóðum þeirra til dæmis. Ég held að það sé ívið meira um giftingar í sumar miðað við fyrri ár. En það sem er áberandi er að það er ekki íburður í dag, ekki endalaus glamúr, fyrst og fremst innihald.“

Sækjast eftir fallegri umgjörð

Þegar blaðamaður Morgunblaðsins ræðir við prestinn Kristínu Þórunni Tómasdóttur telur hún að svipað mikið sé um giftingar nú í sumar og fyrri sumur. „En það er alltaf þannig að fólk giftir sig frekar á sumrin en á veturna. Vinsælu kirkjurnar halda sér í sessi. Það er mikið gift í Garðakirkju, Lágafellskirkju í Mosfellsbænum, Háteigskirkju og líka í litlu kirkjunum eins og Árbæjarkirkju. Fólk er að sækjast eftir fallegri umgjörð,“ segir Kristín.

Hilmar Örn Hilmarsson allsherjargoði segir að giftingar hafi verið ansi margar í sumar. „Sem betur fer dreifist þetta á ansi mörg okkar í Ásatrúarfélaginu. Þetta er búið að vera mjög mikið í sumar, kannski ekki metsumar en ansi mikið. Það er líka mikið af útlendingum sem eru að láta gifta sig hjá okkur. Ég þori ekki að fara með það hvað þetta er mikill fjöldi, en ætli þetta séu ekki 70-80 á ári. Það er með því skemmtilegasta sem maður gerir að gifta fólk, þetta eru mjög fallegar stundir.“

Mikil aukning hjá Siðmennt

Samkvæmt Bjarna Jónssyni hjá Siðmennt er það að aukast mjög mikið að fólk láti gifta sig hjá þeim. „Það er ekki fyrr en árið 2013 sem við fáum vígsluréttindi,“ segir Bjarni.

„Við vorum með um 36 athafnir árið 2013, allt árið í fyrra vorum við að framkvæma 199 athafnir en það sem af er árinu núna þá erum við komin í 136 athafnir. En í þeirri tölu eru einnig nafngiftir og jarðarfarir. Aðalatriðið í þessu fyrir okkur er að menn eigi möguleika á veraldlegum athöfnum yfirhöfuð. Það verður að geta þess að í 28 ár höfum við verið með fermingar. Við höfum verið að sjá að fólk sem hefur verið í fermingum er að koma og gifta sig. Við erum búin að vera með viðhorfskannanir og fólk virðist ánægt, tölurnar úr könnununum eru eins og í Norður-Kóreu, 98 – 99 prósent eru ánægðir,“ segir Bjarni.