Flugvallarfjör Það var kátt á hjalla fyrir flug hjá Flugfélaginu Örnum.
Flugvallarfjör Það var kátt á hjalla fyrir flug hjá Flugfélaginu Örnum. — Morgunblaðið/Freyja Gylfa
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Benedikt Bóas benedikt@mbl.is Flugfélagið Ernir flaug fimm ferðir til Vestmannaeyja í gær og var mikið fjör í litlu flugstöðinni þeirra við Reykjavíkurflugvöll þegar skemmtanaþyrstir ferðalangar biðu eftir flugfari á Þjóðhátíð.

Benedikt Bóas

benedikt@mbl.is

Flugfélagið Ernir flaug fimm ferðir til Vestmannaeyja í gær og var mikið fjör í litlu flugstöðinni þeirra við Reykjavíkurflugvöll þegar skemmtanaþyrstir ferðalangar biðu eftir flugfari á Þjóðhátíð.

Búist er við miklum fjölda fólks í Vestmannaeyjum og byrjaði fjörið á fimmtudeginum þegar ÍBV komst í bikarúrslit í fyrsta skipti í 16 ár. Strax á eftir var haldið Húkkaraballið þar sem heimamenn og þeir gestir sem voru komnir skemmtu sér fram á rauða og bjarta sumarnótt.

Landsmenn virðast ætla að taka mark á veðurspánni og elta sólina en góð spá er fyrir Suðurland, þó búast megi við góðu veðri víðast hvar á landinu um helgina. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands verður veðrið nokkuð keimlíkt í dag og verið hefur að undanförnu. Besta veðurspáin er fyrir Suður- og Vesturland.

Verður áfram hlýjast fyrir sunnan og vestan með úrkomu, en svalara og þurrara norðan-lands. Hvergi ætti þó að gera grenjandi rigningu og blása hressilega, en leiti fólk sólar eru Suðurland og Vesturland réttu staðirnir. Skúraveður verður síðan um allt land á morgun og mánudag.

Samkvæmt umferðarteljara við Geitháls austan Elliðavatns hafði umferðin út úr höfuðborginni í gær aukist um rúm 13% frá miðnætti til kl. 11:00 í gær, miðað við sama tímabil í fyrra.

Áætlar umferðardeild Vegagerðarinnar að umferðin austur fyrir fjall geti orðið um 10-12% meiri en á sama tíma í fyrra.