[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stangveiði Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is „Þetta er búið að vera algjört ævintýri og meðalþyngdin geggjuð,“ segir Haraldur Eiríksson leiðsögumaður um veiðina í Laxá í Dölum í sumar.

Stangveiði

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

„Þetta er búið að vera algjört ævintýri og meðalþyngdin geggjuð,“ segir Haraldur Eiríksson leiðsögumaður um veiðina í Laxá í Dölum í sumar. Á meðan flestar aðrar ár í Dölum og á Vesturlandi glíma við verulegt vatnsleysi í blíðunni undanfarnar vikur, segir hann Hrútafjarðarþokuna hafa náð reglulega upp á Laxárdalsheiði með tilheyrandi úrkomu, og fyrir vikið hafi verið mjög gott vatn í ánni í allt sumar. „Það var meira að segja svo gott í morgun,“ sagði Haraldur í gær, „að Brúarstrengur var óveiðandi og Dönustaðagrjót illveiðandi.“

Eftir niðursveiflu síðustu ár vekur góður gangur í Laxá athygli en aðeins hefur verið veitt þar á fjórar stangir og einungis á flugu. Í liðinni viku veiddust 150 laxar og rúmlega fimm á stöng á dag.

„Kjaftfull af laxi“

„Áin er í rosalega góðu standi, hún er kjaftfull af laxi,“ segir Haraldur. „Næstsíðasta holl var með 85 á þremur dögum og það síðasta fékk 60,“ segir hann og bætir við að nú sé fyrsta sex stanga hollið að byrja í dag og þá verði í fyrsta skipti farið á marga staði þar sem vitað er af fiski en veiðimen hafa ekki haft tíma til að veiða á.

„Vatnið er frábært í ánni, það er eins og rigni á heiðina eftir pöntun. Menn standa á skrælnuðum bökkum niðri í dalnum og það hækkar samt í ánni yfir tvær tommur yfir nóttina. Það er með ólíkindum.“ Segir Haraldur fallega stórlaxa enn að ganga í bland við vænan smálax.

104 cm úr Svalbarðsá

Í liðinni viku veiddist 701 lax í Ytri-Rangá og á vesturbakka Hólsár, eða eitt hundrað á dag á stangirnar 20, fimm að meðaltali á stöng og má teljast hörkufín veiði. Enn betri er hún þó í Miðfjarðará þar sem veiðiævintýrið heldur áfram og ekkert virðist hafa dofnað yfir veiðinni eins og gerst hefur í ám austar í Húnaþingi, þar sem meðalveiðin á stöng var um tveir laxar á dag í Víðidal, Vatnsdal og Blöndu; meðalveiði á stöng í Miðfirði í liðinni viku var 7,6 laxar á dag. Og einn daginn veiddust 99 og þar á meðal fallegir nýrenningar um og yfir 100 cm.

Í Húseyjarkvísl hafa um 160 laxar verið færðir til bókar á stangirnar tvær en heldur hefur dofnað yfir tökunni síðustu daga, eftir frábæra byrjun. Veiðimenn sjá mikið af stórum laxi í ánni, sem sumir eru orðnir æði dökkir en taka þó af og til; hins vegar finnst þeim smálaxagangan minni en undanfarin ár.

Úr Þistilfirðinum fréttist að um 160 hafi einnig veiðst á stangirnar tvær í Svalbarðsá og er allt á uppleið; síðasta holl fékk um 30. Þar á meðal var einn 104 cm hængur.