ÓL Afrek Eyglóar Óskar Gústafsdóttur og Hrafnhildar Lúthersdóttur stóðu upp úr af árangri Íslendinga í Ríó.
ÓL Afrek Eyglóar Óskar Gústafsdóttur og Hrafnhildar Lúthersdóttur stóðu upp úr af árangri Íslendinga í Ríó. — AFP
Í Ríó Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Miðað við spilin sem Ísland hafði á hendi er ekki annað hægt en að vera afar ánægður með þann fjölda slaga sem íslenski hópurinn vann á Ólympíuleikunum í Ríó.

Í Ríó

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Miðað við spilin sem Ísland hafði á hendi er ekki annað hægt en að vera afar ánægður með þann fjölda slaga sem íslenski hópurinn vann á Ólympíuleikunum í Ríó. Lokahátíð leikanna er annað kvöld en þeir átta íþróttamenn sem Ísland sendi til þátttöku hafa allir lokið keppni. Sumir þeirra geta farið frá Ríó hæstánægðir með sitt, aðrir kannski minna ánægðir, en ég held að í raun geti bara einn þeirra farið mjög óánægður frá Brasilíu.

Fyrst vil ég segja að það eru klárlega vonbrigði að íslenski hópurinn skuli ekki hafa verið stærri á Ólympíuleikunum í Ríó. Við stöndum sem þjóð vel að ýmsu leyti á íþróttasviðinu, en hér á stærsta íþróttaviðburði heims áttum við aðeins átta fulltrúa og höfum ekki átt færri í hálfa öld. Þar er ekki bara hægt að kenna um strangari þátttökuskilyrðum í sundi og frjálsíþróttum, okkar helstu einstaklingsgreinum. Önnur smáþjóð, Kýpverjar, var til að mynda með sjö frjálsíþróttamenn í ár eftir að hafa átt þrjá í London 2012, og 16 keppendur alls í stað 13 áður.

Ísland fékk heldur ekki nein ólympíuverðlaun í ár, frekar en fyrir fjórum árum. Fyrir mér ætti það að vera markmið íþróttayfirvalda að ná í verðlaun á hverjum ólympíuleikum. Á níunda tug þjóða hafa náð í verðlaun í Ríó, enda er hellingur af verðlaunapeningum í boði, eða 2.102 talsins. Danir hafa til að mynda náð í 13 verðlaun þegar þetta er skrifað í gær. Ég er ekki að segja að þetta sé bara ekkert mál, það er ótrúlegt afrek að ná í ólympíuverðlaun, en það hefur um langt árabil verið allt of lítið gert af hálfu stjórnvalda til þess að það sé raunhæfara markmið.

Verðlaunahafinn gæti hafa verið hérna

Engu að síður náði íslenski hópurinn mjög góðum árangri í Ríó. Ég velti því fyrir mér í aðdraganda leikanna hvort næsta íslenska verðlaunahafa væri að finna í þessum hópi, og ég gæti enn trúað að svo sé. Eygló Ósk Gústafsdóttir og Hrafnhildur Lúthersdóttir gætu til að mynda báðar keppt um verðlaun í Tókýó 2020 ef þær halda áfram á sömu braut. Um það er óþarfi að efast lengur. Til þess þurfa þær þó að leggja allt í sölurnar næstu fjögur árin, og fá til þess nægan stuðning.

Hrafnhildur náði bestum árangri íslenska hópsins. Það var yndislegt að fá að sjá hana komast í úrslitasund, og ná 6. sæti í 100 metra bringusundi, strax í byrjun leikanna (mín vegna má reyndar segja að hún hafi endað í 5. sæti, efst Evrópubúa, fyrst að hin rússneska Julia Efimova fékk að taka þátt í keppninni). Ég bjóst alveg við að Hrafnhildur gæti náð í úrslitasund, en hún stóðst þær væntingar og rúmlega það. Hrafnhildur hefur bætt sig ár frá ári, átt stórkostlegt tímabil 2016, og heldur því vonandi áfram.

Best þegar mest lá við

Það var ekki síður gaman að sjá hina 21 árs gömlu Eygló Ósk Gústafsdóttur komast í úrslit í 200 metra baksundi. Samkeppnin var gríðarhörð og hún hafði betur í baráttu við bæði heimsmeistara og heimsmethafa í undanúrslitunum, og setti Íslands- og Norðurlandamet þegar mest lá við. Eygló ætti að vera upp á sitt allra besta á ferlinum árið 2020, ef rétt verður haldið á spöðunum, og vonandi gerir henni gott að komast að hjá háskólaliði erlendis, ef af því verður. Ég er viss um að það yrði gott skref.

Anton Sveinn McKee var grátlega nálægt því að komast í undanúrslit 200 metra bringusunds. Hann hafnaði í 18. sæti og var í því óskemmtilega hlutverki að bíða sem varamaður eftir því að sjá hvort einhver þeirra 16 sem komust í undanúrslit myndi heltast úr lestinni. Af því varð ekki. Anton lýkur nú síðasta ári sínu í háskóla í Bandaríkjunum og mun æfa og keppa með skólaliði sínu, en veit ekki hvað framtíðin ber í skauti sér eftir það. Vonandi heldur þessi fremsti sundkarl okkar um árabil áfram, því hann ætti líka að geta verið upp á sitt besta árið 2020, ekki síst vegna þess í hve skamman tíma hann hefur keppt í bringusundi.

Irina getur vel við unað

Irina Sazonova skráði sig í sögubækurnar þegar hún varð fyrsti Íslendingurinn til að keppa í fimleikum kvenna á Ólympíuleikum. Irina stóð sig vel þar sem hún keppti meðal annars innan um bandarísku stjörnurnar, þar á meðal Simone Biles sem sló eftirminnilega í gegn hér í Ríó. Irina náði sínum besta árangri í fjölþraut, hlaut 53,2 stig, og það er ekki hægt að biðja um meira. Hún varð í 40. sæti. Irina gaf það út fyrir leikana að hún ætlaði sér líka til Tókýó, þetta væri bara byrjunin, og það er góðs viti.

Þormóður Jónsson féll úr keppni í fyrsta bardaga í +100 kg flokknum í júdó. Það var þó svo sem vitað að Þormóður ætti ekki meira en helmingslíkur á að komast áfram, gegn Pólverjanum Maciej Sarnacki. Þormóður varðist vel en tókst ekkert að sækja og tapaði á refsistigum af þeim sökum, í jafnri glímu. Það má segja að hann hafi „spilað á pari“, á sínum þriðju leikum, en auðvitað vildi Þormóður ná lengra. Það virðist ólíklegt að Þormóður keppi í Tókýó 2020, en alls ekki útilokað.

Aníta sýndi mikinn styrk

Ísland átti þrjá fulltrúa í frjálsum íþróttum. Aníta Hinriksdóttir náði bestum árangri þeirra og stóð sig með miklum sóma. Ég var búinn að bíða lengi eftir því að Aníta næði að slá Íslandsmetið sitt í 800 metra hlaupi, eftir hið ótrúlega ár hennar 2013, en það sýnir mikinn styrk að hún skuli þá gera það á sínum fyrstu Ólympíuleikum. Tími Anítu hefði getað skilað henni í undanúrslit hefði hún hlaupið í öðrum riðli, en það er erfitt að vera með slíkar bollaleggingar því hefði Aníta hlaupið í öðrum riðli hefðu aðrar í þeim riðli kannski hlaupið hraðar.

Aníta náði þó 20. besta tímanum og sýndi að hún er alveg í þeim gæðaflokki að geta keppt í undanúrslitum á Ólympíuleikum. Þess vegna vonar maður innilega að hún geti þokað sér í þá átt að berjast um sæti í úrslitahlaupi í Tókýó 2020. Hún er aðeins tvítug og á eflaust eftir að keppa á tvennum Ólympíuleikum í viðbót, miðað við getu hennar og ákveðni í að ná langt. Hún hyggst komast að hjá æfingahópi í Hollandi, þar sem hún fengi heimsklassaæfingafélaga, og það er að mínu mati ekki bara sniðugt heldur nauðsynlegt.

Vonbrigði hjá Ásdísi

Ásdís Hjálmsdóttir var búin að leggja allt í sölurnar til að ná góðum árangri í spjótkasti í Ríó. Eftir leikana í London, þar sem hún setti Íslandsmet og fór í úrslit, skipti hún um þjálfara og fluttist svo í kjölfarið til Sviss til að geta sinnt æfingum og keppni enn betur. Því miður bar það ekki þann árangur að hún næði að bæta sinn besta árangur, á þeim fjórum árum sem liðin eru frá síðustu leikum. Öll þrjú köst Ásdísar í Ríó misheppnuðust, og hún þarf ásamt þjálfara sínum að greina vel hvernig hægt er að koma í veg fyrir að svona fari, því Ásdís átti svo sannarlega raunhæfa möguleika á að komast aftur í úrslit á Ólympíuleikum. Niðurstaðan í Ríó er mikil vonbrigði.

Enginn íslenskur frjálsíþróttakarl stóðst þær kröfur sem þurfti til að fá sæti á leikunum. Það er kannski sorglegur vitnisburður um það aðstöðuleysi sem hefur ríkt hjá frjálsíþróttafólki, sem getur til að mynda ekki notað frjálsíþróttahöllina í Laugardal að vild og á sér engan eiginlegan heimavöll í Reykjavík. Ísland fékk hins vegar „kvótasæti“ fyrir einn íslenskan frjálsíþróttakarl. Guðni Valur Guðnason var sendur á leikana og stóð sig vel. Hann varð í 21. sæti af 35 keppendum í kringlukasti, með því að kasta lengst 60,45 metra. Vésteinn Hafsteinsson, einn albesti kastþjálfari heims, segir að Guðni sé á mjög góðum stað miðað við aldur og ekki virðist vanta sjálfstraustið í Guðna sjálfan, sem stefnir á gull í Tókýó. Það verður spennandi að fylgjast með framgöngu þessa tvítuga kappa þar.