Árið 1928 héldu Íslendingar ekki aðeins upp á það, að þeir höfðu verið fullvalda í áratug, heldur líka hitt, að þeir náðu þá hundrað þúsund íbúa markinu. Ekki voru allir eins heppnir með nágranna.

Árið 1928 héldu Íslendingar ekki aðeins upp á það, að þeir höfðu verið fullvalda í áratug, heldur líka hitt, að þeir náðu þá hundrað þúsund íbúa markinu. Ekki voru allir eins heppnir með nágranna. Í austurjaðri Eystrasalts höfðu þjóðir, sem mæltu á finnsk-úgrískar tungur, búið frá því að sögur hófust. Tvær þeirra stofnuðu ríki um svipað leyti og Íslendingar, Finnar í desember 1917 og Eistlendingar í febrúar 1918. Litlu mátti muna, að Finnar lytu í lægra haldi fyrir Rússum í Vetrarstríðinu 1940, en þeir héldu þó sjálfstæði ólíkt Eistlendingum, sem voru hernumdir frá 1940 allt til 1991. En á milli Eistlands og Finnlands, í Kirjálabotni, bjó enn ein þjóð, sem aldrei hlaut sjálfstæði. Hún var Ingríar, en svo nefndust íbúar Ingríu eða Ingermanlands.

Raunar ætti Ingría að heita Ingigerðarland á íslensku, því að nafnið er sótt til hinnar sænsku konungsdóttur Ingigerðar Ólafsdóttur Eiríkssonar, sem Ólafur digri Noregskonungur reyndi árangurslaust að eiga. Faðir hennar gifti hana Jarisleifi, konungi í Kænugarði, 1019. Öldum saman börðust Svíar og Rússar um yfirráð yfir þessu litla og strjálbýla landi, þar sem Ingríar stunduðu búskap, skógarhögg og fiskveiðar. Tunga þeirra er náskyld finnsku, og margir Finnar fluttust þangað á meðan Svíar réðu báðum löndum. Aðhylltust Ingríar ýmist rússneskan rétttrúnað eða evangelísk-lúterskan sið.

Rússar viðurkenndu yfirráð Svía yfir Ingríu 1617, en þegar Pétur Rússakeisari ákvað að brjóta sér leið inn á Eystrasalt, lagði hann landið undir sig og reisti Pétursborg 1703 í því miðju. Eftir það voru dagar Ingríu taldir. Guð var of langt í burtu og Rússar of nálægt.

Rússar komust brátt í meiri hluta í Mið- og Suður-Ingríu. Eftir fall keisaraveldisins rússneska reyndu Norður-Ingríar að stofna eigið ríki með það markmið að verða hluti af Finnlandi, en bolsévíkar Leníns báru þá ofurliði 1920. Á Stalínstímanum voru margir Ingríar fluttir burt, sendir í fangabúðir eða drepnir. Eftir endalok Ráðstjórnarríkjanna 1991 fluttust flestir þeir, sem enn mæltu þar á finnsk-úgrískar tungur, til Finnlands. Þjóðin er horfin og Ingría ekki lengur til, en í hinu rússneska héraði, sem við tók, blánar lyngið af berjum hvert ár, börnum og hröfnum að leik.

Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar

Hannes H. Gissurarson

hannesgi@hi.is