Það er alveg dásamleg dagskrá í dag fyrir þá sem hafa gaman af fótbolta.
Það er alveg dásamleg dagskrá í dag fyrir þá sem hafa gaman af fótbolta. Persónulega er ég spenntastur fyrir leik Manchester United og Arsenal í hádeginu en svo má líka sjá toppleiki eins og Dortmund – Bayern München og Atlético Madrid – Real Madrid.

Klukkan þrjú í dag má Stöð2Sport sýna einn leik og fyrir valinu varð leikur Southampton og Liverpool. Auðvitað. Liverpool er á toppnum og með stærsta eða næststærsta stuðningsmannahóp á landinu. Flestir Íslendingar myndu vilja sjá þennan leik, af þeim sex sem í boði eru, og því verður hann augljóslega fyrir valinu.

En hvers eiga stuðningsmenn Manchester City, Everton eða Leicester að gjalda? Þeir styðja ekki nægilega vinsæl lið og fá því ekki að sjá sína menn spila. Allt út af gömlum og úreltum reglum í Englandi.

Ísland hefur verið á undanþágu varðandi leikina kl. 15 á laugardögum, og getað sýnt þá alla, en ekki lengur. Hins vegar er hægt að sjá alla leikina í gegnum vafasamar streymisíður á netinu. Hversu ruglað er þetta? Það er beinlínis verið að ýta fólki út í það að nota streymisíður í stað þess að kaupa áskrift. Fólk sem aldrei hafði notað slíkar síður er búið að læra hve einfalt þetta er, og sér sér jafnvel ekki lengur hag í því að vera með sína sjónvarpsáskrift.

Ég veit að rökin fyrir lögunum í Englandi eru þau að með banninu sé hægt að fá fleiri áhorfendur á leiki í neðri deildum, sem fram fara á laugardögum. En ef ekki er hægt að framfylgja banninu betur en þetta, til hvers þá að hafa það? Hver græðir eiginlega á því?