— Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska ullarpeysan kemur sér vel á köldum dögum eins og nú í nóvember. Þessar flíkur eiga sér sögu sem Ásdís Jóelsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, hefur kannað og er að skrifa bók um.

Íslenska ullarpeysan kemur sér vel á köldum dögum eins og nú í nóvember. Þessar flíkur eiga sér sögu sem Ásdís Jóelsdóttir, lektor við Háskóla Íslands, hefur kannað og er að skrifa bók um. Handprjónamenningin á Íslandi er sterk og peysurnar eru fyrir löngu orðnar vinsæl gjafavara og vinsælar víða um lönd.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Íslenska lopapeysan á sér langa forsögu í prjónakunnáttu þjóðarinnar. Fyrr á öldum voru prjónaðar peysur þekkt söluvara í einokunarverslunum Dana á Íslandi. Að geta prjónað og selt flíkur var mikilvæg lífsbjörg og að koma ull í fat gat því verið mikil búbót. Á íslenskum heimilum fyrri tíðar lærðu því allir sem vettlingi gátu valdið að prjóna,“ segir Ásdís Jóelsdóttir, lektor við menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Táknmynd fyrir þrautseigju þjóðar

Á dögunum var á vegum Háskóla Íslands efnt til svonefnds Þjóðarspegils þar sem vísinda- og fræðimenn fjölluðu um ýmis áhugaverð efni og rannsóknir sínar. Efnahagsmál, pólitík, umhverfismál og ótal margt fleira var í deiglunni og svo auðvitað íslenska lopapeysan. Á síðustu árum hefur Ásdís rannsakað sögu þessarar flíkur, sem um margt er táknmynd fyrir hina þrautseigu íslensku þjóð, og í því grúski hefur margt fróðlegt komið í ljós.

En hvert er upphafið? Íslenska lopapeysan á forvera í gróf- og fljótprjónuðum sjómannspeysum sem fóru að koma fram þegar sjósókn hér við land fór að aukast á fyrstu tugum 20. aldar, til dæmis með togaravæðingunni. Þegar fólkinu fækkaði í sveitum og færri voru til að spinna ullina var farið að nýta verksmiðjuframleiddan og óspunninn lopa í peysurnar. Ullin er sterkt hráefni; því veðrátta landsins hefur mótað eiginleika ullarinnar af íslensku sauðkindinni og samspil tog- og þelhára í kembdri ullinni heldur lopastrengjunum saman.

Með hringlaga munsturbekk

„Eftir að lopapeysan varð að vinsælli og útprjónaðri útivistarflík á þriðja og fjórða áratug 20. aldar komst útprjónaða kvenpeysan í tísku, meðal annars með áberandi hringlaga munsturbekk,“ segir Ásdís. Um miðja öldina síðustu gerðist það svo einnig að lopapeysan íslenska fór að verða eftirsótt minja- og gjafavara, en ekki bara skjólflík í útivinnu. Mynstrin sem íslenskar prjónakonur fóru að spreyta sig á urðu líka fjölbreyttari.

„Gamlar vefnaðar- og útsaumsfyrirmyndir hafa nýst sem prjónamunstur. Það má raða slíkum munsturbekkjum saman á fjölbreyttan hátt eins og fyrir kemur og er einkennandi í íslensku lopapeysunum. Það sem síðan rekur endahnútinn á mótun peysunnar eru íslensku sauðalitirnir og einföld en, ef svo má segja, háþróuð prjóntækni íslenskra kvenna. Þróunin í prjónamenningu landans hefur staðið í margar aldir og það var svo sannarlega lífsbjörg í lopanum,“ segir Ásdís sem nú er að leggja lokahönd á bók um íslensku lopapeysuna, sem kemur út í vor. Þetta verður 230 blaðsíðna ritrýnt og myndskreytt fræðirit með mikið heimildagildi.

Þjóðleg tískuflík

„Það er mýkt og jafnvægi í munstri og litum, sem fangar augað og hrífur. Auk þess er íslenska lopapeysan jafnt tískuflík sem og þjóðlegur fatnaður fyrir Íslendinga og einnig ferðamannavara,“ segir Ásdís Jóelsdóttir sem áður hefur skrifað þrjár bækur um íslenska og erlenda textílmenningu; það er föt, tísku og hönnun