Vöfflur Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, og Valmundur Valmundsson að lokinni undirritun seint á sunnudagskvöld.
Vöfflur Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, og Valmundur Valmundsson að lokinni undirritun seint á sunnudagskvöld. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is „Ég segi að þetta sé góður samningur og stend við það á fundum með sjómönnum,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, SSÍ, um nýgerðan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

„Ég segi að þetta sé góður samningur og stend við það á fundum með sjómönnum,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, SSÍ, um nýgerðan kjarasamning við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi. Hann segir að afstaða til samningsins sé í báðar áttir.

„Ég veit að stór hluti sjómanna er sáttur við samninginn en eins og venjulega heyrist minna í þeim. Þeir hringja frekar eða senda skilaboð en eru ekki í þessum leik á netinu þar sem ýmis stór og ljót orð hafa fallið. Það er hins vegar þannig að þegar staðið er í samningaviðræðum skynjar maður hvenær komist verður lengra og hvenær ekki. Að þessu sinni varð ekki lengra komist, en ég tek mark á gagnrýni,“ segir Valmundur.

Veikindaákvæði fellt út

Hann segir að veikindaákvæði í samningunum hafi talsvert verið gagnrýnt, að ósekju að hans mati. Niðurstaðan hafi hins vegar orðið sú að búið sé að taka ákvæðið út úr samningi SSÍ. Hvað þetta varðar er hann nú eins og samningar Sjómannafélags Íslands og Grindvíkinga. Verið er að undirbúa rafræna atkvæðagreiðslu hjá Sjómannasambandinu, sem væntanlega hefst á mánudag. Henni á að ljúka 14. desember, en verkfalli var frestað til þess dags. Forystumenn sambandsins hafa kynnt samninginn víða og hafa forystumenn félaga innan SSÍ einnig staðið að kynningunni. Áður en skipin héldu á veiðar á mánudag og þriðjudag var víða fundað.

Spurður um helsta ávinninginn sem náðist í samningunum nú segir Valmundur: „Ég vil fyrst nefna aukið gagnsæi í fiskverðsmálum og að tenging við verð á fiskmörkuðum verður nú 80% í viðskiptum milli skyldra aðila í stað 76%. Gamla kerfið var barn síns tíma, frá 2001, með miklu talnaflóði og leikfimi í kring, sem var ómögulegt og illskiljanlegt.

Þegar við hófum þessa vegferð í kjaraviðræðum í fyrra held ég að engum okkar hafi dottið í hug að það yrði nokkurn tímann hreyft við ákvæði um nýsmíðaálag, sem við sömdum yfir okkur 2004. Þegar upp er staðið er niðurstaðan sú að álagið hverfur með öllu 2030.“

Samkvæmt eldri samningi gefa sjómenn 10% afslátt af launum sínum við kaup á nýju skipi fyrstu sjö árin frá smíðaári þess að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þannig þarf skip t.d. að vera fyrir ofan meðallag í sínum skipaflokki hvað varðar aflaverðmæti á úthaldsdag.

Næstu sjö ár geta útgerðarmenn nýtt þetta ákvæði eins og áður en afslátturinn fer síðan smám saman lækkandi næstu sjö ár þar á eftir og hverfur 2030. „Við skulum ekki gleyma því að við höfum haft þetta yfir okkur í tæp 13 ár og ég held að það skipti mjög miklu máli að við sjáum að það mun hverfa,“ segir Valmundur.

Hann nefnir að fatapeningar hækki um 130% með nýjum samningi og árangur hafi náðst hvað varðar mönnunarmál á uppsjávarskipum og nýjum togurum. Í samningnum var olíuverðsviðmiði breytt til hagsbóta fyrir sjómenn.

Skattaafsláttur

Þá sé vilyrði frá ríkinu um að sjómenn fái 500 króna skattaafslátt af 1.600 króna greiðslu útgerðar upp í fæðiskostnað. Þetta sé vonandi aðeins upphafið að einhverju meiru í skattamálum. Upphæðin sé reiknuð sem laun og mikilvægt sé að hluti hennar verði nú skattfrjáls. Nefna má að sjómannaafsláttur féll endanlega niður í árslok 2014.

Valmundur segir það miður að Grindvíkingar skyldu afturkalla samningsumboð SSÍ á síðustu metrunum í samningsgerðinni og fara með það heim í hérað. Þeir hafi síðan gert sambærilegan samning og SSÍ, en fengið uppbót fyrir lægst launuðu sjómennina með línuuppbót.